29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1773 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

153. mál, prentsmiðjur

2118 Ráðherrann (Kr. J.):

Eg lít nokkuð öðrum augum á þetta mál en h. flutningsm.

(J. Þ.). Hann verður að kannast við, að það er afargömul skylda, eða að minsta kosti venja, að láta háskólabókasafninu og konunglega bókasafninu í té eintök af þeim bókum, sem hér eru út gefnar. Þegar nú á að fara að breyta þessari afargömlu venju og þegar annar aðili stendur fyrir utan og getur engan þátt tekið í því, þá álít eg að varlega verði að fara að og eg get ekki búist við öðru en að ómildum augum verði á þetta litið og það skoðað sem móðgun.

Eg álít það ekki rétt, í svo lítilfjörlegum málum, að vera að fara með það, sem háttv. þm. kallaði títuprjónastingi, þeir eru ætíð athugaverðir, og oft viðkvæmur sá, sem fyrir verður. Eg held, að ekki sé rétt að vera að gera sér leik til þess, að móðga Dani, meira en nauðsynlegt kann að vera, vegna hinna mikilvægari deilumála, sem okkur fara á milli. Þetta mál hefir svo nauðalitla þýðingu og venjan, sem ætlast er til að afmáð verði, hefir nú verið í fullri hefð í 80—100 ár að eg held. Hver þingmaður ætti að stinga hendinni í sinn eigin barm og vita, hvernig honum þætti, ef einhverju ákvæði, sem staðið hefði afarlengi, honum til hagsmuna, yrði alt í einu kipt í burtu, án nokkurra undangenginna samninga.

Eg vil því ráða háttv. deild til þess að athuga þessa till. vel, áður en hún samþykkir hana, þó að eg annars búist ekki við, að hún beri neinn árangur. En líka er þess að gæta, að þetta sama mál hefir verið til meðferðar nú að undanförnu, en á nokkuð annan hátt. Það hafa verið á ferðinni samningar um það, að bókasöfnin hér á landi (landsbókasafnið) fengju eitthvað á móti því, sem dönsk bókasöfn fá héðan og mér hefir nýlega borist bréf frá kenslumálaráðherra Dana, Appel, dags. 21. marz þ. á. þess efnis, að eftir ósk Íslendinga um það, að af prentuðum ritum, sem væru gefin út í Danmörku, gætu fengist gefins eintak til handa landsbókasafninu, hafi danska stjórnin snúið sér til bóksalafélagsins danska og fengið þá yfirlýsingu hjá því, að það hefði snúið sér til forleggjara þeirra, sem í félaginu væru, og að þeir hefðu látið það í ljósi, »at de vilde imödekomme Bibliotekete Anmodning« og bætt því við, að æskilegt væri að þeir fengju við hver árslok skrá yfir þær nýútkomnar bækur, sem safnið óskaði að fá. Þannig stendur þá málið, að vér höfum fengið fyrirheit frá bóksalafélaginu um að fá sendar í hver árslok handa landsbókasafninu þær bækur, er gefnar hafa verið út í Danmörku liðna árið, og vér kunnum að óska að fá. Verði nú þessi tillaga samþykt, svo óvingjarnleg sem hún er, í garð dönsku bókasafnanna, þá má búast við því, að bóksalafélagið kippi að sér hendinni og er það illa farið, einkum vegna þess, að málaleitunin héðan frá oss hefir komið öllu þessu á rekspöl.

Eg vona því, að háttv. deild athugi málið vel, áður en hún samþykkir tillöguna.