18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

33. mál, borgarstjórakosning

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Út af því sem háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) sagði, sé eg það, að hann vill helzt að bæjarstjórnin kjósi manninn, og er þá á móti frv., en það er sá hængur á því, að með þessu getur borgarstjórinn orðið bæjarstjórninni ónotalega háður, en á hinn bóginn er hann því óháðari, sem fleiri kjósa hann. Það gæti komið sér illa, ef hann yrði að taka við nokkurskonar handfestingu hjá bæjarstjórninni, og tilgangur frv. er einmitt sá, að fá tryggingu fyrir því, að þess háttar geti ekki átt sér stað.

Á þingmálafundum í vetur var þetta líka vilji allra kjósenda hér án nokkurs flokksgreinarálits, enda kemur þetta ekki því við, því að það er allra hagur að fá hæfan mann í þessa stöðu, hverrar skoðunar sem hann er í pólitík og hver sem hann er.