04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (2201)

58. mál, sjómannavátrygging

Framsm. minni hl. (Sigurður Sigurðsson):

Eins og háttv. framsm. meiri hl. (St. St.) hefir tekið fram, klofnaði nefndin í þessu máli, og eg varð einn í minni hluta. Það mun því ekki þýða mikið fyrir mig að halda langa ræðu um þetta mál. Aðalástæða meirihlutans er sú, að lögin séu svo ung, að menn geti ekki ennþá vitað, hvernig þau muni reynast, og því sé varhugavert að breyta þeim þegar í stað. Eg get að vísu kannast við þetta, en því er hinsvegar ekki að leyna, að lögin hafa þegar vakið almenna óánægju. Gjaldið til sjóðsins þykir of hátt, og er það almenn krafa sjómanna, að það sé lækkað. Það er satt, að sjóðurinn er fátækur, og þolir það illa, en hins vegar kom öllum í nefndinni saman um, að ekki væri fært að auka útgjöld landssjóðs til hans. Um veiðistöðvarnar í Árnessýslu er það að segja, að þar hafa menn komið sér upp sérstökum tryggingarsjóðum, sem aukast árlega, og innan skamms verða færir um að inna sömu skyldur af hendi, sem vátryggingarsjóðurinn. Undanfarin ár hafa þeir greitt nokkra styrki til ekkna og vandamanna þeirra, sem farist hafa. Háttv. meiri hl. leggur það til, að frumv. sé felt; það þykir mér leitt, og til þess að bæta úr þeim göllum, sem nefndin hefir fundið á því, hefi eg komið fram með brtill. á þgskj. 301, um að hækka iðgjöldin o. fl. Eg vona, að menn hugsi sig um, áður en þeir fella frumv., því að óánægjan með það ástand sem er, á sér víðar stað en í Árnessýslu. Það er hægt að sýna það með skjölum og skilríkjum. Eg vona því, að frumv. fái að ganga til 2. umr., og að menn heldur komi fram með brt. við það, heldur en að fella það.