19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

58. mál, sjómannavátrygging

Framsögum. meiri hl. (Stefán Stefánsson):

Allar ræður manna hafa lotið að því, hve iðgjöldin til sjóðsins séu ósanngjarnlega há. En menn gá ekki að því, að þessi gjöld geta ekki miðast við venjuleg iðgjöld. Ef menn vátrygðu sig alt árið, þá væru iðgjöldin ekki eins há vikulega og þegar menn tryggja sig eða greiða gjald að eins þann tímann, sem menn eru á sjónum; þetta hlýtur mönnum að geta skilist, þó það komi ekki fram í umræðunum. Og eigi vátrygging að geta átt sér stað, þá mega iðgjöldin ekki vera lægri en er, eftir þeirri reynslu, sem menn hafa í þessu efni, eigi vátryggingarsjóðurinn að geta borið sig, nema mönnum sýnist, að landsjóður greiði árlega nokkrar þúsundir króna til vátrygginganna, eins og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefir stungið uppá. En nú er »principið« það, að sjóðurinn beri sig, og landssjóður hlaupi ekki undir bagga, nema stórtjón beri að höndum og það að eins til bráðabirgða, eða sem lán.

1. breyt.till. háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) um, að sama gjald sé tekið af þeim sem ráðnir eru á tvíróna báta, er eg mótfallinn. Eg veit ekki til, að menn séu ráðnir á tvíróna báta, nema dag og dag, en ekki fastákveðnar vertíðir, að minsta kosti er það þannig við Eyjafjörð. Slys vilja heldur varla til á tvírónum bátum, því menn róa þeim ekki nema í góðu veðri og þá venjulegast örstutt fram fyrir landsteinana, svo menn geta strax skotist í land, ef eitthvað versnar í veðri. Þess vegna tel eg enga nauðsyn á, að þeir menn séu háðir sömu skyldu, og þeir, sem eru á skipum, eða stærri bátum, enda ekki að öllu leyti sanngjarnt, þegar um enga stöðuga vertíð er að tala. Um það má máske deila, hvort lækka eigi tillag útgerðareigenda eða ekki. Eg veit til þess, að í Eyjafirði er það þannig, að ekki er síður sóst eftir sjómönnum á skip eða báta úthaldseigenda, en sjómenn sækjast eftir að fá skiprúm hjá útgerðarmönnum. Og sé þetta það almenna, þá verð eg að líta svo á, að öll sanngirni mæli með því ákvæði í lögum um vátrygging sjómanna, að úthaldseigandi taki þátt í vátryggingargjaldinu að hluta.

Þá hefir verið farið fram á að hafa innheimtulaun á iðgjöldunum hærri en 2% svo sem nú er. Til þessa er því einu að svara, að mér er ekki kunnugt

um, að nokkur hafi óskað eftir, að þau væru hækkuð. Sjóðurinn er enn þá lítill og þarf að vaxa, og mér finst, að nægur tími sé að hækka innheimtulaunin, þegar sýslumenn og hreppstjórar, eða þeir aðrir, sem kunna að hafa innheimtuna á hendi, óska þess. Alment er ekki mikil fyrirhöfn að heimta inn iðgjöldin.

Ef menn, þrátt fyrir þær fjárhagsástæður sjóðsins, sem eg hefi gert nokkurn veginn ljósa grein fyrir, þykjast vera sannfærðir um að vátryggingargjaldið sé of hátt, þá ættu þeir hinir sömu menn heldur að leggja til að hækka vátryggingarupphæðina, sem útborguð er af sjóðnum. Segjum t. d. 100 kr. á ári í 6 ár. En sem sagt, bæði lækkun iðgjalda og hækkun vátryggingarupphæða, er að mínu áliti jafn óhugsandi, eins og nú til hagar. Að fara að láta landssjóð leggja fram nokkrar þúsundir árlega, tel eg svo óheilbrigða pólitík, að slíkt geti alls ekki komið til greina.

Skal eg svo ekki fleiri orðum um þetta mál fara, en vænti þess, að bæði breytingartillögurnar og frumv. verði fellt.