19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (2258)

134. mál, barnafræðsla

Flutnm. (Jón Jónsson N.-Múl.):

Orð háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) sýna, að hann veður reyk í þessu máli. Það stendur hvergi í frv. þessu, að fræðslusamþyktir megi ekki komast á. Það er að eins farið fram á, að þau héruð, sem ekki hafi komið á hjá sér fræðslusamþyktum enn, þau skuli ekki vera neydd til þess. Ef þeir, sem ekki hafa komið fræðslusamþyktum á enn, álíta að það muni efla mentun barnanna og vera til bóta að hafa fræðslusamþyktir, þá munu þær sveitir koma á hjá sér fræðslusamþyktum.

Háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) fór nokkuð freklegum orðum um þessa menn, sem ekki hafa komið á hjá sér fræðslusamþyktum enn og áleit að það væru ekki nema trassarnir, sem vildu komast hjá því, að lögin kæmust í framkvæmd. En eg neita, að hann sé fær að dæma þannig um menn, sem hann ekki þekkir, þetta eru sleggjudómar hjá honum. Hér er farið fram á að fresta lögunum í 2 ár, 1912—1914, eða með öðrum orðum, að mönnum sé ekki gert að skyldu að koma á hjá sér skóla, en þeim er það heimilt, ef þeir vilja. Þeir menn, sem vilja kúga þjóðina til þess að gera þetta eða hitt, verða að hafa sterka trú á sínu máli. Eg álít ekki gerlegt að halda þessu til streitu, fyr en landsmenn hafa samþykt það.