19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1875 í B-deild Alþingistíðinda. (2259)

134. mál, barnafræðsla

Stefán Stefánsson:

Háttv. flutnm. talaði um, að þeir vildu kúga þjóðina, sem vilja að lögunum sé framfylgt. En það er athugavert, að hann er þá einn meðal þeirra manna, sem hafa viljað kúga þjóðina með því að samþykkja á síðasta þingi frestun um 2 ár. Þá ætlaðist hann þó til, að þessi »kúgun«, sem hann svo kallar, gengi í gildi. Hér er hann því fyllilega samsekur öðrum. En þótt þessi fáu bygðarlög, sem nú eftir nær 4 ár ekki hafa fengið löggilta neina fræðslusamþykt, vilji fá þessu máli enn frestað, þá eru óefað margir hreppsbúar meðal þeirra, sem óska að samþyktir komist sem fyrst á, en hafa ekki fengið því framgengt, vegna þess að fjöldinn, eða máske lítill meiri hluti, hefir viljað koma sér hjá kostnaðinum meðan hægt væri. Þegar þetta er athugað, bæði að hér er um örfáa hreppa að ræða, og sennilega lítinn meiri hluta í ýmsum þeirra, þá virðist það vera sá »reykur«, sem flutnm. hefir á að byggja, að þingið eigi ekki að fara eftir slíku.

Háttv. flutnm. sagði, að skortur væri á góðum kennurum, og skildist mér að fræðslusamþyktirnar ættu að bíða, þangað til þeir væru fengnir, en þetta er sá mesti misskilningur, því verði þetta frv. samþykt, þá má eiga það á hættu, að aldrei fáist góðir kennarar í flesta eða alla hreppa landsins, því það er hæpið, að menn fari að leggja stund á kennaranám, haldi þingið áfram að fresta lögunum, hvað snertir fræðslusamþyktirnar; þetta yrði óefað árangurinn og afleiðingin af samþykt frumvarpsins, að það kemur í veg fyrir, að þjóðin fái kennara, sem hún getur verið ánægð með og treyst á.

Eg þykist þess fullviss, að háttv. þingmönnum sé ant um mentun alþýðunnar og vilji hindra alt það, sem því máli getur orðið til fyrirstöðu, og þá fella það frv. sem fyrir liggur.