19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (2260)

134. mál, barnafræðsla

Hálfdan Guðjónsson:

Háttv. þm. Vestm. (J. M.) hefir nú tvisvar gert sér ferð til mín úr sæti sínu til þess að vekja athygli mitt á frv. því, sem hér ræðir um og ummælum háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) um það. Þennan áhuga hans á því að leiðbeina mér hlýt eg að meta svo mikils, að eg láti skoðun mína í ljósi með nokkrum orðum. En í aðra átt stefnir hún en skoðun háttv. þm. Vestm. (J. M.), því að mér þóttu það vera hörð orð, sem háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) sagði um andmælendur fræðslulaganna. Eg verð að benda honum á, að það sem hann sagði um óánægjuna er ekki fyllilega rétt. Hann hefir ekki næga þekkingu á því, hvernig skoðanir manna eru á þessu máli um land alt. Eg veit, að óánægjan er ekki minni með fræðslulögin sumstaðar þar sem þau eru komin í framkvæmd og að þau eru víða framkvæmd að eins eftir bókstafnum og hafa þá ekki reynst annað en kák. Vera má, að smátt og og smátt verði kákið að einhverju verulegu gagni, en það er of víða ekki orðið enn. Það er að eins lítili hluti landsins, sem ekki hefir komið lögunum í framkvæmd, segja menn. En það eru ekki þeir einir, sem eru óánægðir með lögin, sem ekki hafa reynt að framkvæma þau, heldur einnig ýmsir þeir, sem hafa komið þeim í framkvæmd og sjá, hvernig þau gefast. Það er réttmæt krafa, að mönnum gefist kostur á að átta sig á þessum lögum, áður en lengra er gengið og harðari kröfur gerðar. Það er mikil ábyrgð, sem fylgir því að lögskylda foreldrana að senda börn sín að heiman á fræðsluheimili þessi í sveitunum. Í kaupstöðum eru börnin eftir sem áður hjá foreldrunum, en til sveita verður að senda þau að heiman. Og þá er það réttmæt krafa, að gott heimili og fullkomið sé í boði. Ella væri hart að heimta það af foreldrunum, að þeir láti börnin frá sér og komi þeim fyrir til kenslu. Kenslulögin þurfa að vinna ást þjóðarinnar, eigi þau að verða að góðu liði. En þau ná henni aldrei með káki. Mér finst, að það ætti að taka sem mest tillit til óska manna út um landið, þegar um framkvæmd þeirra er að ræða í fræðsluhéruðunum, því að þar þekkja menn bezt til erfiðleikanna. Vænti eg því, að hin háttv. deild fallist á frv. þetta, en knýi ekki of harðri hendi til framkvæmdar fræðslulaganna án nægilegs undirbúnings.