19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (2311)

132. mál, stofnun húsmæðraskóla

Björn Sigfússon:

Þar sem eg hefi skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara, hlýt eg að verða að gera grein fyrir skoðun minni á þessu máli. Eg var svo óheppinn, að eg gat ekki verið staddur við fyrri umræðu þess og verð því að minnast á það nokkuð alment. Þó skal eg lofa háttv. deild því, að vera stuttorður.

Eg skal þá fyrst taka það fram, að eg viðurkenni, að hugsunin að koma svona skóla á stofn á þessum stað er alveg réttmæt, en eg get ekki allskostar fallist á það, sem mér virðist liggja á bak við hana, þó að það komi ekki beinlínis fram í nefndarálitinu, að einn slíkur skóli skuli vera nægilegur fyrir Norður- og Austurland. Húsmæðraskólar eru nokkuð annars eðlis en aðrir skólar og í öðrum löndum munu þeir alt af hafðir fremur fámennir. Það er ekki gert ráð fyrir, að þess konar skólar nái yfir stór svæði og séu að eins ársskólar, t. d. í 2 deildum yfir veturinn; kenslan er að mestu verkleg og henni er svo varið, að því er mér er skýrt frá, að í hússtjórnar- eða matreiðsludeildinni geta ekki margir nemendur tekið þátt í henni í einu. Varla fleiri en 6. Meðfram af þessu leiðir það, að skólarnir eru hafðir fremur fámennir. Raunar væri hugsanlegt, að hafa fleiri nemendur, en þá þyrfti líka fleiri kennara, meiri áhöld og stærra hús, þar á meðal 2 eldhús með eldavélum, en það mundi verða alt of dýrt. Húsið á Eiðum mun vera of lítið fyrir fjölmennan skóla. Eg hygg, að 25—30 nemendur sé helzt til mikið fyrir húsið. Í þeirri verklegu kenslu, sem þar getur fram farið, geta ekki tekið nema fáir nemendur þátt í einu. Það þyrfti því, ef að fullum notum ætti að koma, að auka kenslukrafta og stækka húsið og þótt kannske einhverntíma reki að því, að þetta verði að gera, þá munu, hygg eg, margir í byrjuninni víla fyrir sér að leggja í öllu meiri kostnað. Af þessu leiðir, að skólinn getur alls ekki orðið fyrir stærra hérað en Austurland, að meðtaldri N.-Þingeyjarsýslu. Jafnvel þótt hann gæti tekið á móti 30 nemendum, sem eg hygg að vafasamt sé, þá verður hann sýnilega ófullnægjandi, nema fyrir lítinn blett, 2—3 sýslur. Þetta, sem eg hefi nú sagt, er ekki að skoða sem mótmæli gegn frumvarpinu, því að eg viðurkenni, að Austurland hefir mikla sanngirniskröfu til að hafa sérstaka mentastofnun fyrir sig, einkum þegar á það er litið, að Eiðaskólinn gamli var sérstök stofnun fyrir Austurland. Það frumvarp, sem fyrst lá fyrir nefndinni hljóðaði upp á það, að Eiðaskóli væri gerður að 3. bændaskóla landsins. Hvort Austfirðingar fella sig við þá breytingu, sem hér er ráðgerð, veit eg ekki, en sé svo, þá skal eg sannarlega ekki hafa á móti því, að þeir fái það. Hitt vil eg taka skýrt fram, að eg tel það hégómamál, að gera ráð fyrir því, að 2 slíkir skólar séu nægilegir fyrir húsmæðrafræðslu, þessi og svo annar fyrir Suðurland.

Að því er eignina snertir, sem skýrt er frá í nefndarálitinu, að Múlasýslur eigi og skuli leggja fram, þá er það að athuga, að steinsteypuhúsið á Eiðum mun vera alt of hátt virt, en móti því getur komið, að jarðeignir og sérstaklega búpeningur mun vera heldur lágt metinn.

Þá skal eg minnast á eitt sérstakt ágreiningsatriði milli mín og háttv. meðnefndarmanna minna. Það er viðvíkjandi niðurlagi 8. gr., þar sem stendur, að búskap á jörðinni megi reka á landssjóðskostnað, ef nauðsyn krefur. Þetta álít eg mjög varhugavert ákvæði, sem eg ekki get fallist á, því að þegar heimildin er einu sinni gefin, þá nálgast það mjög fyrirskipun. Eg vil ekki eiga þetta á hættu. Landssjóður má vera mjög heppinn með ábúanda, ef það á að verða hættulaust. Eg held, að svo mikil reynsla sé fengin í þessu efni, að varasamt sé að gera slík ákvæði með lögum. Verði frumvarp þetta að lögum og gangi Múlasýslur að því, þá ætti að koma sem mestu af eigninni í peninga, sérstaklega öllu lausafénu, en jörðina Eiða ætti að leigja góðum manni og býst eg ekki við, að vandkvæði yrðu á því, ef jörðin er svo góð, að nokkurn tíma hafi verið vit í að setja þar bændaskóla. Það er auðgert að láta þessa þriggja manna stjórn, sem ætlast er til að standi fyrir skólanum, velja hæfan mann fyrir ábúanda úr tölu umsækenda. Mætti þá undanskilja í skólans þarfir einhver afnot, jafnvel sneið af túni, sem skólinn þyrfti að hafa. Mætti setja ábúanda ýms skilyrði skólanum til hagsmuna, gegn því, að eftirgjaldið yrði minna. Eg held, að engin vandræði yrðu úr þessu og það yrði bæði hyggilegra og notadrýgra, heldur en búskapur á jörðinni á landssjóðskostnað. Eg er því mótfallinn þessu ákvæði 8. gr. Samt hefi eg ekki enn komið með neina breyt.till. við greinina, en vil mælast til þess, að hæstv. forseti beri hana upp í tvennu lagi, þannig að síðasta málsgreinin, sem eg er á móti, verði borin upp sér. Að öðrum kosti mun eg flytja breytingartillögu um þetta við 3. umræðu.

Fyrirspurn háttv. þm. Dal. (B. J.) þarf eg ekki að svara, því að eg býst við, að háttv. framsögumaður (P. J.) geri það.

Að svo stöddu skal eg ekki fara fleirum orðum um málið, en varð að taka þetta fram, vegna þess að eg hafði skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara.