11.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (2357)

68. mál, gerðardómur í brunabótamálum

Stefán Stefánsson:

Eg skal geta þess, að eg hafði ætlað mér að flytja þingsál.till. um að skora á stjórnina að leggja fyrir næsta alþingi frumv., er ákvæði skyldur og réttindi erlendra ábyrgðarfélaga hér á landi, en úr því að þetta frumv. er fram komið og nefnd er væntanleg í það, skal eg leyfa mér að beina því til nefndarinnar, hvort ekki muni vera hægt að sameina við það ákvæði um lífsábyrgðarmál. Það kom fram á þingmálafundum í mínu kjördæmi, að mikil nauðsyn væri á að til væru almenn lög í þessa átt, hvort heldur væri að ræða um brunaábyrgðir eða lífsábyrgðir erlendra félaga hér á landi, og með því að fyrirbyggja það, að einstakir menn væru beittir misrétti. Í sambandi við það kom fram á fundunum sú tillaga, að félögin hefði hér varnarþing, umboðsmenn þeirra fengju sérstakt leyfi frá stjórninni til þess að takast umboðsstarfið á hendur og nægilegt tryggingarfé, undir umsjón landsstjórnarinnar.

Þetta óska eg, að væntanleg nefnd taki til athugunar, svo að það gæti sameinast þessu frv., ef kostur er á.

Annars hafði eg hugsað mér að koma fram með þingsályktunartillöguna, sökum þess að málið er afar vandasamt og þarf að minni hyggju meiri undirbúning en hér er kostur á.