21.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (2400)

98. mál, kjördæmaskipun

Flutnm. (Jón Þorkelsson):

Mér komu ekki á óvart orð háttv. 2. þm. S.Múl. (J. Ól.). Hann er vanur að gera sig breiðan, þegar hann hefir ekkert að segja, og fettir þá fingur út í formið á hinu og þessu, sem til nytsemdar má horfa. Eg skal benda háttv. þm. á það, að það stendur hvergi í frumv., að það skuli afgreiðast frá þessu þingi. Það er að eins lagt fyrir þingið til athugunar. Þeim hlýtur að skiljast það þessum tólfkongavitsmönnum, þessum pólitísku könnusteypurum, að þetta mál, kjördæmaskifting landsins, stendur í svo nánusambandi við stjórnarskrána, að sjálf sagt er að athuga það, er um breytingar á þinginu er að ræða, hvort það skuli vera óskift eða eigi. Það er því engin ástæða til að fara að gera sig gleiðan nú yfir þessu frv. Það væri ef til vill einmitt ástæða til að koma nú fram með frumv. um öll þau atriði, sem leiðir af breytingum á stjórnarskránni.