28.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2026 í B-deild Alþingistíðinda. (2468)

19. mál, Landsbankarannsókn

Flutningsm. (Hálfdan Guðjónsson):

Þó eg hafi óskað að tala um þingsál.till. þá, sem hér liggur fyrir, sem einn flutningsmaður hennar, þá skal eg ekki vera langorður. Eg vil að eins benda á, að engum, sem þekkir til um þetta mál, mun koma það á óvart, þótt þannig löguð tillaga komi fram hér í deildinni. Marga mun miklu fremur furða á því, að þessi tillaga hafi ekki komið fyr fram hér í deildinni, þar sem hálfur mánuður er nú liðinn af þingtímanum. Þetta er því einkennilegra, sem allmargir þm. sóttu það fast, að kvatt yrði til aukaþings til þess að íhuga þetta mál. Að vísu mætti svara því, að hin hv. Ed. hafi þegar skipað nefnd til þess að rannsaka þetta mál. En þrátt fyrir það, sé eg ekki, að það geti komið í bága við það, að neðri deild geri slíkt hið sama, því engum getur blandast hugur um það, að neðri deild eigi að teljast fult eins vel þungamiðja þingsins. Allir ættu að geta verið einhuga um að setja nefnd í málið, og legg eg til, að hún verði kosin.