06.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2078 í B-deild Alþingistíðinda. (2543)

160. mál, strandferðir

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Þegar tillagan um ferðir millilandaskipanna var til umræðu hér á dögunum í þessari háttv. deild, þá var þeirri tillögu vísað frá með rökstuddri dagskrá. Eg hefi nú leyft mér að koma með samskonar rökstudda dagskrá nú og vil eg með leyfi forseta lesa hana upp:

»Í því trausti, að landsstjórnin taki alt það tillit, sem hún sér framast fært, til óska einstakra þingmanna og héraða, um ferðir strandferðaskipanna, og með skírskotun til þingsályktunartillögu efri deildar á þingskjali 931, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá«.

Það sem fyrir mér vakir er, að það mundi gera alveg sama gagn, þótt hver þingmaður minnist á það við ráðherrann og þótt þingdeildin geri það. Eg er alveg viss um, að báðir hinna fráfarandi ráðherra hafa gert það, sem þeim var hægt að gera í þessu efni og eg efast ekki um, að núverandi ráðherra muni gera sitt bezta. Eg hygg, að deildin geti verið mér hér alveg sammála. En eg kom með þessa dagskrá meðfram af því, að mér er flutt af mönnum af báðum flokkum, að þingsályktunartillaga muni verða samþykt í efri deild með öllum atkvæðum, um að strandferðunum sé hagað sem hagkvæmast fyrir alla landshluta.

Eg mæli því fastlega fram með því, að þessi rökstudda dagskrá verði samþykt.