03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (2552)

159. mál, millilandaferðir

Benedikt Sveinsson:

Viðaukatill. mín fer fram á það, að eitthvert millilandaskip komi við á hinum helztu höfnum í Norður-Þingeyjarsýslu. Hingað til hafa þau ekki komið þar við, hvorki fram né aftur. Ein ferð út og utan haust og vor mundi mikið bæta úr þeim torveldleikum, sem á því eru að fá útlendar vörur og koma innlendum frá sér. Þykir héraðsmönnum hart undir því að búa, sem von er, að skip þau, sem landssjóður kostar til ferða hér við strendurnar og landa á milli, skuli aldrei allan ársins hring koma þar nærri. Hafnir eru hér góðar og innsigling hættulítil og engu lakari en víða annarstaðar, þar sem skip koma við í hverri ferð. Vænti eg því góðra undirtekta um þessa málaleitan.