22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2117 í B-deild Alþingistíðinda. (2612)

140. mál, gjöf Jóns Sigurðssonar

Flutnm. (Jón Þorkelsson):

Hv. 1. þm. Eyf. (H. H.) bar mér þær getsakir á brýn, að eg flytti þessa tillögu í eigingjörnum tilgangi, og að eg með þessari tillögu væri að vinna fyrir félag, sem eg er mikið viðriðinn, Sögufélagið. Tillagan hjá mér er ekki orðuð öðruvísi, en við nefndarmennirnir förum fram á í bréfi okkar til alþingis. Meiningin í tillögunni er alveg sú sama, ef háttv. þm. vill brjóta tillöguna til mergjar. Hér stendur í tillögunni, in primis að verðlauna skuli vísindaleg rit, en þegar þeirra er ekki kostur, þá styrkja útgáfu slíkra rita, og í þriðja lagi að styrkja útgáfu heimildarrita. Eg vil leyfa mér að lesa upp 2. gr. tillögunnar, hún hljóðar þannig:

»Innstæða sjóðsins haldist óskert, en vöxtunum má verja

1. til verðlauna fyrir vel samin vísindaleg rit.

2. til þess að styrkja útgáfu slíkra rita annars kostar, og

3. til þess að styrkja útgáfu merkilegra heimildarrita.

Öll skulu rit þessi lúta að sögu Íslands, bókmentum þess, lögum, stjórn eða framförum«.

Hér má ekki stryka út orðin »annars kostar«. Ef ekki er kostur vísindalegra rita til verðlauna, þá skal verja vöxtum hans, eins og hér segir. Eg vona nú menn skilji, að meiningin er hér sú sama og er í bréfinu. Það átti líka að vera sama meining. En það má orða þetta um aftur, ef mönnum sýnist svo. Misskilningurinn liggur í því, að h. 1. þm. Eyf.

(H. H.) hefir ekki komið því fyrir sig, hvað »annars kostar« þýðir. (Jón Ólafsson: En 3. liður?). 3. liður kemur sem síðasta leyfi. (J. Ól.: Ekki frá nefndinni). Jú, nefndin leggur það til, »að veita nokkuð til vel saminna rita eða merkilegra heimildarrita viðvíkjandi sögu Íslands«. Hér stendur þetta í 3. lið með einmitt sömu orðunum og nefndin leggur til í bréfi sínu. Þótt menn hafi gaman af að gera ýmislegt að kappsmáli, þá bið eg menn um, að gera ekki jafn meinlaust mál og þetta er að því.