03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (2804)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Jónsson (1. þm. N.-Múl.):

Eg verð að tala dálítið um þá till., sem eg hefi komið með í þá átt, að fá veitta nokkra fjárhæð til byggingar læknisseturs í Hróarstunguhéraði. Framsögumaður fjárlaganefndar hefir lýst því, að hann og nefndin séu tillögu þessari mótfallin.

Eg vil því leyfa mér að skýra nokkru nánara frá uppruna og atvikum málsins, og hvað olli því, að eg ber nú þessa tillögu hér fram í deildinni.

Eins og hinni háttv. deild mun vera kunnugt, þá er Hróarstunguhérað eitt af hinum nýrri héruðum. Tveir læknar hafa verið þar á undan þessum, sem nú er, og báðir hafa þeir, mest fyrir þær sakir, að ekki var til neinn fastur bústaður, hröklast burt, og þessi læknir, sem nú er þar, hefir látið héraðsbúa vita, að hann mundi neyðast til að fara, ef honum yrði ekki séð fyrir hentugum bústað. Nú stendur ennfremur svo á, að Borgarfjörður (eystri), sem er einn hluti af þessu héraði, sækir um að fá sérstakan lækni, og því ekki við því að búast, að þeir muni vilja leggja neitt fram til læknisbústaðar upp í Héraði. Landlæknir hefir gert áætlun um kostnaðinn við bygginguna, og áætlar kostnaðinn um 9000 kr. — og er það sama sem, að um 2000 kr. komi á hvern hrepp í héraði þessu, að Borgarfirði meðtöldum.

Það sem eg þá vil biðja háttv. þm. að hafa hugfast, þegar þeir greiða atkv. um þessa till., er það, að þetta hérað er erfitt umferðar, og því nauðsynlegt, að læknirinn geti setið nokkurn veginn í miðju héraði — í öðru lagi, að þær jarðir, sem helzt hefir verið bent á til læknisseturs, eru mjög illa hýstar, og í þriðja lagi, að héraðið á á hættu að verða læknislaust, ef þetta fjárframlag ekki fæst. Héraðsbúar fengu skólastjórann á Eiðum til að koma þessu máli áleiðis til þingsins, og síðan hefi eg tekið það að mér, og eg verð að játa, að mér finst það hart af fjárlaganefndinni, að ætla nálega eins mikið fé til eins sjúklings, en synja algerlega um fjárveitingu, sem heilt hérað getur átt undir að verða læknislaust, ef ekki fæst, — og núverandi læknir hefir fyllilega látið það í ljós, að hann fari, ef hann fengi ekki fastan bústað.