18.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

107. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Kristinn Daníelsson:

Eg skal játa að nefndin hefir bætt frumvarpið og sett í það ýms ákvæði, sem eru því til bóta og nauðsynleg. Eg skal að eins leyfa mér að vekja athygli háttv. deildarmanna og nefndarinnar á einu atriði, því, hvort heppilegt sé að láta ekki gagnkröfurnar koma til greina. Ef stefndi á gagnkröfu á stefnanda, sem er jafnviðurkend og aðalkrafan, þá hefi eg verið að velta fyrir mér, hvort ekki væri óheppilegt, segjum til dæmis, að aðalkrafan væri 20 krónur en gagnkrafan 10 krónur, að þá mætti ekki taka upphæð stefnda til greina. Eins væri það, ef aðalkrafan væri 50 krónur en gagnkrafan 60 krónur, þá gæti stefndi ekki náð rétti sínum án máls, þar sem stefnandi getur fengið málið útkljáð fyrir sáttanefnd.

Mér þykir líka varhugavert, að ekki megi koma fram með mótmæli fyrir dómstólunum, nema þau komi ekki í bága við það, sem fram kom á sáttafundi. Eftir núgildandi reglum er það ekki gert uppskátt, sem á sættafundi hefir farið fram, þegar sættir ekki komast á. Það er gengið út frá því, að málspartar geti úttalað sig frítt á sáttanefndarfundum og að þeir þurfi ekki beinlínis að standa við öll þau tilboð er þeir kunna að gera þar. Sú meðvitund stuðlar oft og einatt að því, að liðlegra er að koma á sættum en ella. Mér þótti rétt að benda á þetta og biðja háttv. nefnd að athuga það. Eg skal játa, að eg hefi ekki nákvæmlega lagt þetta niður fyrir mér enn. Að öðru leyti get eg fallist á alt, sem nefndin hefir gert.