18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Ari Jónsson:

Eg finn mér skylt að fara nokkrum orðum um þetta mál. En áður en eg geri grein fyrir atkvæðagreiðslu minni nú, ætla eg að minnast nokkrum orðum á afstöðu mína gagnvart þessu máli á síðasta þingi. Það var skoðun mín á síðasta þingi, að bannlögin ættu ekki að koma til framkvæmda fyr en árið 1915. Og hverjar vóru nú ástæður mínar til þess? Þær voru aðallega tvær. Hin fyrri var sú að eg áleit, að taka yrði tillit til þeirra manna, er þá höfðu vínsöluréttindi. Þeir voru tvennskonar. Sumir, er hafa vínsöluréttindin æflangt, aðrir, sem hafa þau tímabundin, og er þeirra söluréttur flestra útrunninn árið 1915. Nú þar sem líkindi eru til þess, að þeir geti fengið sér tildæmdan skaðabótakostnað, er tapa vínsöluréttindum, þá var skaðabótakrafa þeirra er höfðu réttinn tímabundinn til 1915, fallin burtu þá.

Eg vildi girða fyrir það, að þeir gætu höfðað skaðabótamál gegn landsjóði. Önnur ástæðan var sú, að eg var því mótfallinn, að hrapað væri að því að koma þessum lögum á, fyrr en trygging væri fengin fyrir því, að verulegur meiri hluti þjóðarinnar væri þessu máli fylgjandi. Á þessu tímabili áttu nýjar kosningar að fara fram — og það taldi eg nauðsynlegt, áður en bannið kæmist í framkvæmd. Atkvæðagreiðslan 1908 var ekki fullnægjandi. Munurinn á tölu þeirra, sem greiddu atkvæði með og móti, var of lítill, var ekki nægilega mikill til þess, að réttmætt væri að koma bannlögunum á. Það hefði ekki átt að vera minna en ? með þeim. En eg hafði líka aðra ástæðu til þess að meta atkvæðagreiðsluna 1908 ekki fullnægjandi, og hún var sú, að þá höfðu menn ekki gert sér grein fyrir því, á hvern hátt ætti að bæta landsjóði þann tekjumissi, er hann biði við aðflutningsbannið. Eg get vel hugsað mér, að þeir, sem greiddu atkvæði með banninu 1908, yrðu mótfallnir því, er þeir sæju, hvernig hinum nýju sköttum og tollum yrði fyrir komið. Því var það mín skoðun, að ný atkvæðagreiðsla ætti að fara fram, áður en lögin kæmust til framkvæmdar. En vegna samkomulags við bannmenn, gat eg þó verið hlyntur því, að aðflutningsbannið kæmist á 1912. En hvernig liggur málið við nú? Liggur það eins fyrir nú og þá? Hafa engar ástæður í málinu komið fram síðan þá? Eru nú engar ástæður til að að fresta framkvæmd laganna til 1915? Fyrst er að líta á, hvort málið sjálft bíði nokkurn skaða af því. Eg álít nú, að málið hafi engan skaða af því, þótt því sé frestað til 1915. Ef það er eins mikill meiri hluti málinu fylgjandi og haldið er fram er auðsætt, að engin hætta er á ferðum. En ef þessi meiri hluti er ekki til, þá álít eg bannið með öllu ótímabært. Eg álít það skaðlegt þessu landi, að koma á banni, og eiga svo á hættu, að það verði óðara numið úr gildi. En eru þá ekki nýjar ástæður til frestunar, eins og eg spurði áðan. Það hefir verið talað um þann tekjumissi, er landssjóður yrði fyrir við bannið og hver ráð væru til að bæta honum þann missi. En það hefir verið bent á farmgjaldið — þar væri útvegur, segja sumir.

Þar sem ekkert hefir verið gert af stjórnarinnar hálfu til undirbúnings nýjum tekjugreinum fyrir landsjóð í staðinn fyrir vínfangatollinn, þá álít eg það þakkarvert af flutningmanni farmgjaldsfrv. að koma fram með það. Mér lízt það vel tilraunavert að koma því á, án þess að eg geti sagt með neinni vissu, að það muni reynast vel. Getur vel verið, að það sé varhugavert til frambúðar, en það getur hinsvegar ekki stafað nein hætta af því að reyna það um tveggja ára bil, eða til næsta reglul. þings.

En þótt þetta sé nú svo, þá er enginn vissa fyrir, að frumvarpið gangi fram á þessu þingi. Og hver ráð eru þá fyrir hendi? Er þá nokkuð annað fyrir hendi en að taka beint lán til þess að jafna tekjuhalla landsins, í stað þess að reyna að ná sem mestum tekjum innanlands, svo að tekjur og gjöld geti staðist á? Það er enginn vafi á, að það verður að sjá landsjóði fyrir stórmiklum tekjuauka. Mér finst þeir hafa mikið til síns máls, sem færa þessa ástæðu fyrir frestun bannlaganna, því að einhvernveginn verður að bæta úr fjárhag landsins. Eg efast ekki um, að margir þeir, sem voru banninu fylgjandi á síðasta þingi, álíti nú fulla ástæðu til að fresta þeim fyrir þessa sök.

En eru nú ekki ennfremur aðrar verulegar ástæður til þess að fresta aðflutningsbanninu um nokkur ár? Jú, það er enn ein stórvægileg ástæða. Getur verið, að það séu fáir af háttv. þingmönnum, sem eru mér sammála um það, en það eru áreiðanlega margir utan þings. Það hefir verið lögð mest áherzla á það hér í deildinni, að frestun bannlaganna væri ráð til að bæta úr fjárhagnum innanlands. En er það nú víst, að bannið geti ekki skaðað viðskifti Íslands út á við? Þar er um að ræða eitt hið allra stórvægilegasta mál þessa lands, peningasambönd þess við aðrar þjóðir. Eg lít svo á, að einn af aðalþáttunum í stórpólitík landsins sé einmitt skuldaskifti þess við Danmörku. Við erum í miklum skuldum við Dani, einmitt þá þjóð, sem við eigum í höggi við. Og þar hafa þeir öflugt meðal í höndum til þess að kúga okkur, ef þeim lízt svo við að horfa. Þess vegna væri það stórmikils vert, ef við gætum komið skuldum okkar fyrir hjá einhverri annari þjóð með jafn góðum kjörum eða betri. Eg gerði upp skuldaskifti landsins við Danmörku í októbermánuði síðastl. haust og komst að þeirri niðurstöðu, sem eg nú skal skýra frá. Skuldirnar voru þrennskonar:

1. Landssjóður skuldar ríkissjóði ½ miljón króna, lán, sem tekið var 28. des. 1908 og á að borgast á 15 árum.

2. Skuld við danska banka l½ miljón. Lánið tekið 26. júlí 1909 og á að borgast á 30 árum með 4½ % á ári.

3. Viðskiftaskuld landsjóðs við ríkissjóð var 30. sept. 680 þús. kr. Þetta lán stígur upp og ofan, mun vera dálítið minna nú, en er vanalega eitthvað nálægt ½ miljón króna. Þessi skuld var áður fyrri ekki til og þá áttum við venjulega heldur inni hjá Dönum. En nú síðustu árin er skuldin sem sagt að jafnaði nálægt ½ miljón, og þeirri skuld má segja upp á hverri stundu.

Landið skuldar þá Dönum til samans kringum 2½ miljón króna. Þetta er skuldaband, sem landinu væri hentara að losna úr, ef hægt væri að flytja skuldirnar eitthvað annað. Eins og kunnugt er, hafa nýlega verið gerðar tilraunir til að ná peningaviðskiftum við Frakka. Það var af tveim ástæðum, að menn vildu heldur snúa sér þangað en annað. Fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að okkur er sjálfsagt hættuminna að eiga peningaviðskifti við Frakka en ýmsar aðrar þjóðir, t. d. Englendinga. Og í öðru lagi af þeirri ástæðu, að undanfarin 10—15 ár, hefir peningaleiga verið lægst í Frakklandi af þeim löndum, sem gæti verið að tala um að fá lán hjá. Eg teldi því mikilsvert, ef hægt væri að fá skuldir okkar fluttar frá Danmörku til Frakklands. En á nú þetta mál nokkuð skylt við það mál, sem hér er til umræðu í dag? Hefir aðflutningsbannmálið nokkur áhrif á aðstöðu okkar, þegar um það er að ræða að ná peningaviðskiftum við Frakkland?

Eg skal ekki fara neitt út í þessar umleitanir, sem gerðar hafa verið til þess að fá lán hjá Frökkum, að öðru leyti en því, er við kemur þessu máli, aðflutningsbanninu. Það hefir verið minst nokkuð á þetta svokallaða franska mál í neðri deild, og var þar að sumu leyti ekki rétt skýrt frá. Eg álít að skilyrðin fyrir lánveitingunni hafi öll verið hismi, nema eitt. Og þetta eina skilyrði var það, að á meðan samningarnir stæðu yfir, mátti bannið ekki vera komið á. Þessvegna var farið fram á frestun bannlaganna í eitt ár í fyrra, þegar samningar stóðu yfir, svo að þau yrðu ekki komin á fyr en eftir að þing og stjórn hér væru búin að gera út um málið til fullnustu. Þetta má ekki misskilja, það var ekki sett upp, að aðflutningsbannið kæmi ekki til framkvæmdar síðar, að eins að það væri ekki komið á, þegar samningarnir um lánið færu fram. Og þetta er vel skiljanlegt. Menn geta hugsað sér, að á meðan bannið er ekki komið í framkvæmd, sjái Frakklandsstjórn ekki ástæðu til að fara að skifta sér af eða hafa áhrif á samninga privatstofnana, privatbanka í Frakklandi, þess vegna. En þegar bannið er komið í framkvæmd, þá er alt öðru máli að gegna og getur þá vel verið, að stjórninni sýnist ástæða til að láta málið til sín taka. Eins og allir sjá, var óhugsandi fyrir samningsaðila að binda vald þingsins þannig, að bannlögin skyldu ekki koma í framkvæmd, enda var það ekki sett upp í þetta sinn, aðeins ef tekist hefði að ná samningum áður en bannlögin kæmu í gildi.

Annars skal eg ekki fara frekar út í þetta mál hér. Eg bendi aðeins á þetta til að sýna, að í þessu eina lánssamningsmáli, sem eg hefi haft afskifti af, þar kom bannið mikið til greina. Þess vegna hygg eg rétt að athuga það vandlega, hvort aðflutningsbannsmálið geti orðið okkur til tjóns í framtíðinni, í viðskiftum okkar við aðrar þjóðir. — Eg fyrir mitt leyti get vel verið með þessu frv., sem hér liggur fyrir, af þessum tveimur ástæðum, sem eg hefi nefnt. Fyrst þeirri, að eg álít óforsvaranlegt að láta bannlögin koma í framkvæmd, án þess að tryggja landssjóði jafnframt tekjur í skarðið. Og að hinu leytinu treysti eg því, að þessi stjórn eða ef til vill sú næsta geti komið því til framkvæmda, að við getum losnað úr skuldum við Dani og komið þeim fyrir annarstaðar. Eg held að það séu miklar líkur til þess einmitt nú, að þetta sé framkvæmanlegt og það er fyrir mér svo stórt atriði, að eg get með ánægju verið með frestun bannlaganna til 1915, ef það gæti stutt að framkvæmdum í því máli.

Eg fyrir mitt leyti sé enga ástæðu til að hafa frestinn styttri en 3 ár. Tilgangurinn er að bæta fjárhag landsins, og þá er miklu betur bætt úr honum, ef fresturinn er sem lengstur; að fresta aðeins um eitt ár, eða til 1. jan. 1913, tel eg litla bót. Hinsvegar vil eg standa við það sem eg lýsti yfir á þingi 1909, að eg er því fullkomlega samþykkur, að bannlögin komi að fullu í gildi 1. jan. 1915, þegar þjóðin hefir sýnt þá staðfestu að halda fast við ósk sína þangað til, því að þá eru miklar líkur fyrir því, að lögin verði langlíf.