15.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Ráðherra (Kristján Jónsson):

Hér er ekki farið fram á að þessu sinni nein bein fjárframlög þegar í stað til þessarar brúar; það á einungis hér að fylgja því fordæmi, sem alþingi hefir áður gefið, að ákveðið vatnsfall skuli ganga fyrir öðrum og verða brúað jafnskjótt og fjárveitingarvaldið sér það fært að leggja fram fé til þess. — Og þetta vatnsfall, Jökulsá á Sólheimasandi, er vissulega eitt af þeimr sem sitja á í fyrirrúmi.

Nú hefir sá maður, verkfræðingur landsins, er brúargerð þessa hefir átt að undirbúa, lagt fram álit sitt, og það ber það ljóslega með sér, að kostnaðurinn er engan veginn ókleifur, og að vel má brúa ána, en á því hefir áður þótt leika vafi. Mín skoðun er sú, að þessi á eigi að brúast svo fljótt sem kostur er á, og ganga fyrir öðrum vatnsföllum þessa lands í því efni. Á hverju fjárhagstímabili verður að gera eitthvað, taka fyrir og koma í framkvæmd einhverju mannvirki, því annars hlýtur að verða afturför, og þótt efni okkar séu lítil, þá megum vér engan veginn örvænta eða leggja árar í bát. Eg hygg, að hagur almennings sé nú alment að rétta við, og að fjárhagur landsins fyrir því sé að færast í betra horf, og má því vænta, að þessu fyrirtæki, sem er svo bráðnauðsynlegt, verði komið í framkvæmd áður mjög langt um líður.