31.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Lárus H. Bjarnason:

Út af orðum hæstv. ráðherra skal eg leyfa mér að gera stutta athugasemd. Hann sagði, að þetta frumv. gæti ekki snert hann persónulega, og það er alveg rétt. Það er áreiðanlega víst, að hvort sem hann tekur við embætti sínu aftur eða kemst á eftirlaun, er hann lætur af ráðherrastöðu, þá getur þetta frumv. ekki haft nein áhrif á hans hag eða það, hvernig eftirlaun hans eiga að reiknast. Að þessu leyti er eg hæstv. ráðherra sammála. En aftur á móti er eg honum ekki sammála um það, er hann hélt því fram, að frumvarpið leysti ekki úr þeirri spurningu, hvort það gæti farið saman, að njóta launa sem embættismaður og jafnframt eftirlauna sem fyrverandi ráðherra. Eg hygg að úr þessari spurningu sé leyst með l. um eftirlaun 4. marz 1904. Þar segir svo í 7. gr.: eftirlaun „missast gersamlega eða að tiltölu, þegar hlutaðeigandi fær aftur embætti og laun“. Nú getur hugsast, að embætti sé til með lægri launum en 1000 kr. Taki ráðherra við slíku embætti, þá héldi hann svo miklu af ráðherra-eftirlaunum sínum, að eftirlaun og embættislaun næmu til samans 1000 krónum. En praktískt tekið, getur þetta naumast komið fyrir, því að svona lág-launuð embætti eru að minsta kosti sára fá, ef þeirra er nokkurt dæmi. Þannig verður reglan þetta, að maður, sem tekur við öðru embætti, er hann hefir látið af ráðherraembætti, missir að sjálfsögðu rétt til ráðherra-eftirlauna, nema því að eins, að embættislaunin nemi minnu en eftirlaunin; þá fær hann mismuninn, svo mikið af eftirlaunum sem þarf til að fylla hin lögmæltu eftirlaun.

En það er annað, sem frv. sker ekki úr og þyrfti skýringar við. Í 2. málsgr. 1. gr. segir svo: „Nú á ráðherra rétt til hærri eftirlauna, en hér er mælt, fyrir þjónustu í öðru embætti, er hann hefir áður gegnt, og skal hann þá njóta þeirra eftirlauna einna“. Mér er spurn, á að miða eftirlaunin við embættistíð mannsins, þangað til hann tók við ráðherraembætti, og á hann að fá sömu eftirlaun og hann mundi hafa fengið, ef hann hefði þá látið af embætti, eða á að telja ráðherraembættstíð hans með, þ. e. hugsa sér að hann hafi haldið áfram embætti því, sem hann hafði áður. Upphæð eftirlauna fara eins og kunnugt er, samkvæmt eldri eftirlaunalögunum, eftir tvennu, hve há launin hafa verið 5 síðustu árin og hve lengi maðurinn hefir verið í embætti, og samkv. nýju eftirlaunalögunum eftir upphæð launa og embættisaldri. Það þarf að orða greinina svo, að þetta geti ekki orkað tvímælis. Þetta mætti laga við 3. umræðu, ef svo óskýrt er sem mér sýnist í fljótu bragði.

Eg er hæstv. ráðherra sammála um það, að það getur verið mjög varhugavert að afnema eftirlaun embættismanna yfir höfuð. En hér er ekki að ræða um það. Hér er að eins að ræða um það, hvernig telja skuli eftirlaun ráðherra. Hitt er eg sammála um, að það mundi vera slæmur búhnykkur, bæði fyrir landið og einstaklinga, að pína starfsmenn til að vinna fyrir sem minst. Eg vil óhikað heldur borga góðri bústýru há laun, en slæmri lág laun. Það er oft gasprað um að afnema eftirlaun embættismanna, hækka laun þeirra o. s. frv. En þá á landið á hættu að fá ónýta starfsmenn og það borgar sig sannarlega ekki. Ef kjör embættismanna eru gerð lakari en þau eru nú, þá fara menn að hætta að sækjast eftir embættum og einmitt fyrst þeir mennirnir, sem mestur er dugur í og þar af leiðandi eiga hægt með að komast áfram öðru vísi. Enda sýnist vera því minni ástæða til að fara að afnema eða draga mikið úr eftirlaunum ernbættismanna, þar sem nú er alment farið að vinna að þeirri hugsjón, bæði hér á landi og annars staðar, að í rauninni eigi allir að fá eftirlaun, þar sem allir vinna beint eða óbeint í þarfir þjóðfélagsins. Ellistyrktarsjóðirnir hér eru vísir til almenns eftirlaunasjóðs fyrir alþýðu, auðvitað skamt á veg komnir enn þá, en mjór er mikils vísir.

Af þessum ástæðum er eg á móti afnámi og lækkun á embættismannaeftirlaunum alment, nema því að eins, að launin væru aukin að sama skapi. En það er alt öðru máli að gegna um þennan embættismann, sem hér er um að ræða. Það er alveg óhætt að lækka eftirlaun ráðherra til muna frá því sem nú er, og það er jafnvel nauðsyn að lækka þau, ef sú breyting nær fram að ganga, að ráðherrar skuli eftirleiðis vera þrír. Eg er nú ekki meðmæltur þeirri breytingu á stjórnarskránni, sízt þannig lagaðri, að þeir skuli vera þrír. Hitt væri annað mál að heimila, að fjölga ráðherrum með einföldum lögum. Eg hygg að það megi vel komast af með einn ráðherra, ef hann kann að notfæra sér þá hjálp, sem hann hefir við hendina í stjórnarráðinu. Þar eru bæði skrifstofustjórar og landritari, sem að sjálfsögðu eiga að vera önnur hönd ráðherra í öllum þeim málum, sem hann kynni að bresta þekkingu á.

Háttv. 4. kgk. þm. hélt því fram, að ef einhverjir væru svo gerðir, að þeir færu að „spekúlera“ í ráðherrastöðu, þá mundu þeir alveg eins „spekúlera“ í launum eins og eftirlaunum. Má vel vera að menn kunni sumir yfirleitt að „spekúlera“ í ráðherrastöðunni, en þar sem hún optast nær er skammvær, mundi slíkum mönnum hætta meira til að „spekúlera“ í háum eftirlaunum, sem alt af haldast.