04.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Steingr. Jónsson:

Háttv. þm. Vestur-Skaftfellinga virtist vel við eiga að vera að narta í þá konungkjörnu. Það getur vel verið, að honum þyki það heppilegt fyrir sig; hvað hann hefir upp úr því, um það skal eg ekki segja. Mér er nú orðið ekki farið að bregða við slíkt, því síður, sem það hefir um langan aldur verið siður, mér liggur við að segja allra pólitískra apakatta þessa lands að meiða og sverta þá konungkjörnu til að afla sé lýðhylli. En auðvitað hafa þeir aldrei staðið við það, ef þeir hafa átt að horfa framan í persónurnar. Það er því ekki undarlegt, þó að þingm. hafi glæpst á þessu líka. En það er líklegt, að slíkt hverfi nú brátt.

Eg vil leyfa mér að benda á, að það er rangt, að þjóðin heimti afnám eftirlauna. Eg benti á það við 2. umr., að þjóðin heimtar einmitt meiri eftirlaun. Þingið heimtar líka meiri eftirlaun. Og það er heldur ekki nema eðlilegt, þar sem öll starfslaun eru klipin við nögl, að menn sjái að eftirlaun eru nauðsynleg. Það er þessvegna ekki rétt, að þjóðin og þingið heimti afnám eftirlaunanna. En það eru einstakir þingmenn, sem heimta það. Þetta er lýðskrumaramál, rétt eins og hálaunabrigslin voru fyrir nokkrum árum. Og loks má eg benda á, að þeir konungkjörnu eru, hvort sem þeim þjóðkjörnu líkar betur eða ver, líka þingmenn. Hitt, hvort háttv. þingm. Vestur Skaftfellinga eða eg hafi meiri rót í sinni þjóð, það er ekki vert að tala um hér.

Eftir orðunum í 1. gr. frv. mundu eftirlaun ráðherra að minni hyggju verða reiknuð eftir embættisárafjölda, en samt getur þetta verið nokkuð vafasamt, og því vil eg taka undir með háttv. 6. kgk. og mæla með breytingartillögu hans. Eg fyrir mitt leyti skil greinina eins og háttv. 1. kgkj. skilur hana, en sá skilningur getur verið vafasamur og þá er bezt að breyta svo ekki geti orkað tvímælis. Þá vildi eg svara örlítið því, sem háttv. framsögumaður (J. B.) sagði, að það væri ekkert ósæmilegt að aftaka eftirlaun ráðherra. Það er satt það er ekkert að athuga við það, ef þá launakjörin eru sniðin þar eftir, það verður að hækka launin um leið. Eg gæti vel gengið inn á þá stefnu. En hitt að klípa launin við nögl og svifta embættismanninn líka eftirlaunum, það er ekki sæmandi. Árið 1903 eru laun ráðherra ákveðin með alt að 3000 kr. eftirlaunarétti, en 1911, og á þessum átta árum hefir væntanlega orðið dýrara að lifa, eru eftirlaunin aftekin og launin látin vera óbreytt. Hitt, að taka eftirlaunin burtu og hækka launin, er eg ekki á móti, en það er ekki vel valinn tími til að tala um það, til þess þarf breytingu á stjórnarskránni.