18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Sigurður Stefánsson:

Eg verð líklega nokkuð hjáróma í þessu máli, eins og fleirum. Ekki þó af þeirri ástæðu, að eg álíti þetta ekki framfara og nauðsynja mál, heldur af því, að hv. framsögumaður benti ekki á, hvar landssjóður ætti að taka peningana til fyrirtækisins. Eg játa að þetta er mikið framtíðarmál fyrir Reykjavík, en eg efa, að það sé eins mikið framtíðarmál fyrir alt landið eins og formælendur þess halda fram. En þó svo væri ekki, þá teldi eg það samt sjálfsagða skyldu landssjóðs að hlaupa undir bagga með bænum með nokkru fjárframlagi. En hins vegar get eg ekki stilt mig um að taka það fram, að mér þykir það æði undarlegt, að þeir menn, sem berjast á móti hverjum tekjuauka fyrir landssjóð og eru ánægðastir með, að tekjur hans séu sem minstar, skuli vera frakkastur með því að leggja út í fyrirtæki, sem verður að taka lán til, því það er sannarlega hættuleg braut, og getur vel farið svo, að við lendum í ófærum á henni. Og ef taka á þessa upphæð sem farið er fram á í frv., að landið leggi fram, til láns, þá get eg ekki talið, að það lán sé tekið til arðberandi fyrirtækis. Þessi fjárveiting er alveg sama eðlis eins og fjárveitingar þær, er á hverju þingi eru samþyktar til vegabóta. Það verður ekki sagt, að landssjóður hafi beinan hagnað eða fái vexti af þeim, en þær geta á löngum tíma gefið landinu óbeinan hagnað. Eg er ekki mótfallinn því að taka lán, þegar lánið gefur landinu ríflegar tekjur, eða sem svarar vöxtum og afborgunum. En hitt vil eg segja, að við verðum að fara varlega á lánabrautinni, meðan við erum jafn skeytingarlausir, eins og við erum enn, um að hafa fjárhaginn í lagi á fjárlögunum. Þá fyrst getum við farið að fara hraðara á þeirri braut, að taka lán, þegar við erum orðnir svo góðir búmenn, að við höfum vit á að láta tekjur og gjöld standast á í fjárlögunum. Því hvar lendir sá búskapur að afgreiða fjárlögin ár eftir ár með mörg þúsund króna tekjuhalla! Menn munu svara, að hingað til hafi tekjur og gjöld staðist á, og skal eg ekki bera á móti því. Tekjurnar hafa á síðari árum orðið meiri en áætlað hefir verið. En lítið vit er í að treysta því, að svo hljóti að verða framvegis; það er slæm búskaparregla að byggja á von og óvon. Það var sagt í dag, að góðæri hafi verið hér í landi undanfarið. Jú, það er dáfallegt góðæri, þegar menn drepa fénað úr hor, ef nokkur vorharðindi verða! Eg veit, að sjórinn er gullkistan okkar, en hann getur brugðist líka og hvar stöndum við þá? Nei, fyrsta skilyrðið fyrir því, að við njótum nokkurs lánstrausts er það, að við sýnum það, að við viljum gera fjárlög okkar þannig úr garði, að ekki verði á fáum árum uppétinn þessi viðlagasjóður, sem við eigum. Eg efast um það, að lánstraust vort haldist, ef haldið er þeirri stefnu í meðferð fjárlaganna, sem nú ræður hjá þingi og stjórn. Þó eg því álíti þetta mál, sem hér er um að ræða. hið mesta framfaramál, þá verð eg hins vegar, af þeirri ástæðu, er eg hefi hér greint, að telja fjárhag landsins þannig varið nú, að eg get ekki verið með fjárveitingu til þessa fyrirtækis að þessu sinni. Og því síður get eg verið frv. samþykkur, ef feld verður br.till. sú er eg hefi borið fram á þingsk. 642, því eg verð að telja hana sjálfsagða varúð. Við þykjumst ekki hyggnir fjármálamenn, ef við hlöðum á okkur ábyrgð fyrir aðra tryggingarlaust, og er það enginn vansi fyrir þingið að taka þann hugsunarhátt. Eg segi þetta ekki vegna þess eg tortryggi Reykjavík, heldur af því að eg tel það sjálfsagða skyldu að tryggja landssjóð svo vel sem unt er gegn tapi, þegar hann tekst á hendur svo stórkostlega ábyrgð, sem hér er um að ræða. Í viðskiftalífinu neitum við iðulega öðrum um ábyrgð, án þess að ástæðan sé sú, að við tortryggjum þá. Eg er nú svo gerður að eg vil heldur lána féð sjálfur, ef eg á það til, heldur en að ganga í ábyrgð fyrir því, en það þykir þessum nýju fjármálaspekingum líklega nokkuð gamaldags hugsunarháttur. Eg þykist vita, að mér muni verða bent á, að br.till. mín sé óþörf, vegna ákvæðanna í 9. gr., en þar er það lagt í hendur stjórnarinnar, hvort veðsetja megi höfnina eða ekki. En eg tel það væri miklu betra fyrir stjórnina að girt væri fyrir það þegar í byrjun, að bæjarstjórnin geti farið fram á leyfi til þess, því að stjórninni yrði ef til vill legið á hálsi, ef hún neitaði um leyfið, og væri ef til vill freisting fyrir hana til að veita það. Eg verð því að mæla eindregið með því að br.till. verði samþykt.