29.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

13. mál, almennar auglýsingar

Framsögum. (Lárus H. Bjarnason):

Eins og háttv. deildarmenn sjá eru það hvorki margar eða miklar breytingar, sem nefndin leggur til að verði gerðar á frumvarpinu. Breytingarnar á 1. og 2. gr. eru að eins orðabreytingar, gerðar til þess að færa frumvarpið til betra máls.

Að núgildandi lögum eru stjórnarvaldaauglýsingar birtar í Lögbirtingarblaði Íslands, skv. l. 16. nóv. 1907, og í dönsku blaði, Statstidende, skv. l. 28. ág. 1903. Það er engin ástæða til að halda áfram að birta slíkar auglýsingar í útlendu blaði. Að minsta kosti er það viðkunnanlegast að láta birtingu í íslenzku blaði nægja, eins og farið er fram á í frumvarpinu, enda býst eg ekki við, að það geti haft nein óheppileg áhrif á lánstraust Íslendinga erlendis, en það væri það eina, sem gæti mælt á móti því, að hætta við birtingu í útl. blaði. Þess vegna vill nefndin mæla með frumvarpinu, enda mætti ef til vill orða það, hvort lögin 16. nóv. 1907 hafi ekki þegar afnumið skylduna til að birta stjórnvaldaauglýsingar í útl. blaði.

Hitt getur ekki komið til mála, að 3. gr. frumvarpsins megi standa óhögguð. Þeir sem eiga að fara eftir ákvæðum frv., verða að fá að vita um þau fyrst. Þess vegna verður að setja frest til þess er lögin koma í gildi og þá er eðlilegast að hafa frestinn eins og venjulegt er um ný lög í stað þess, að frv. gerir ráð fyrir, að lögin komi þegar í gildi. Með öðrum orðum nefndin leggur til að 3. gr. frumv. verði feld niður. En að öðru leyti vill hún mæla með frumvarpinu með þeim orðabreytingum, sem hún hefir gert á því, og væntir þess, að háttv. deild sé henni sammála um, að það sé betur orðað þann veg.