20.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

106. mál, styrktarsjóður barnakennara

Flutningsm. (Sigurður Stefánsson):

Eg býst við, að með þetta litla frumv.

þurfi að fara eins og önnur slík, er of seint koma inn í þingið.

Eg hefi tekið að mér flutning þessa máls, um breyting á lögum frá 9. júlí 1900 um styrktarsjóði handa barnakennurum, eftir ósk barnakennara við Ísafjarðardjúp. Til þess að málið yrði sem bezt undirbúið, bar eg það undir fræðslumálastjórann; tjáði hann mér, að samskonar óskir um breytingar á lögum þessum hefðu fram komið frá barnakennurum hér syðra, og yrði málið lagt fyrir kennarafélagið. Frumvarp þetta er því þannig til komið, að kennarafélagið setti nefnd til að athuga málið, og kom hún fram með frumvarpið. Þótt eg hafi tekið að mér flutning málsins, skal eg taka það fram, að eg get að svo stöddu að minsta kosti ekki fallist á ýms ákvæði frumv., og tel varhugaverðar sumar breytingar þess á gildandi lögum.

Aðalbreytingin, sem hér er farið fram á, og sem eg get þegar fallist á, er í því fólgin, að styrktarsjóðsgj. lækkar nokkuð; það hefir þótt helzti hátt. Eg get tekið sem dæmi, að kennari, sem hefir 1500 kr. laun, verður að borga 30 krónur, og launin verða þá auðvitað lægri, sem þessu hundraðsgjaldi nemur, og fyrir allan þann fjölda kennara, sem hafa lægri laun, verður þetta gjald því tilfinnanlegra.

Að þessu sinni skal eg ekki fara út í fleiri atriði, en eg býst við, að nefnd verði sett í málið, og þá megi ef til vill laga ýmislegt fleira.