01.05.1911
Sameinað þing: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Ráðherra (Kr. J.):

Eg tel rétt að lýsa hér yfir því, hvernig eg lít á þetta mál, þó eg hafi tekið það fram í hvorri deild um sig.

Eigi að setja loftskeytasamband milli Reykjavíkur annarsvegar, og Vestmanneyja og Skaftafellssýslu hinsvegar, kemur það algjörlega í bága við fyrirkomulag það sem landsímastjórinn hefir hugsað sér og gjört áætlanir um, en á þessu verður að álíta að hann hafi bezta þekkingu.

Mér er kunnugt, að landsímastjórinn er búinn að leggja niður fyrir sér, hvernig þessum héruðum skuli komið inn í símasambandið, en verði loftskeytasamband sett á stofn, eins og hér er ráðgjört, er því símalagningarkerfi þar með kollvarpað.

Þessar loftskeytatillögur styðjast ekki við þá þekkingu í hraðskeytamálinu, sem ætla má að landsímastjórnin hafi, að því er þetta land snertir. Þá verður enn að geta þess, að enginn undirbúningur hefir verið gerður í þessu loftskeytamáli. Tilboð þau sem fyrir liggja eru mjög ógreinileg, og er harla lítill stuðningur að þeim til undirbúnings, og maður sá sem er hér fyrir hönd Marconifélagsins hefir enga heimild til að gera samninga fyrir hönd félagsins, svo mér sé kunnugt. Eg tel því málið algjörlega óundirbúið og þó að það yrði samþykt hér, að koma þessu loftskeytasambandi á, þá tel eg mjög mikinn vafa á, að nokkuð verði hægt að gera í því efni á þessu ári.

Ennfremur er mér eigi vel ljóst, hvar fé á að taka til þessa verks; þingið hefir ekki bent á það enn, og þær 60—70 þúsundir króna, sem það mun kosta, eru ekki handbærar nú.

Enn er þess að geta, að Vestmannaeyjar, sú sýslan, sem mest gagn á að hafa af þessu sambandi, hefir látið það nær einróma í ljósi, að þær vilji ekkert samband, ef símasamband fæst ekki. Telja sér hitt með öllu ónógt; og hafa mótmælt loftskeytasambandi. Ennfremur vil eg taka það fram, að öll Vestur-Skaftafellssýsla, austur á Síðu, er þessu loftskeytasambandi algjörlega mótfallin.

Þegar málinu víkur svo við og mér hins vegar er kunnugt, að svo eru skiftar skoðanir hér á þinginu um málið, að á einu atkvæði mun velta um forlög þess, væri það vissulega réttast að skjóta því á frest 1—2 ár að gjöra ráðstafanir til framkvæmda á því. Málið á enn að bíða nokkuð.