02.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

15. mál, verslunarbækur

Ráðherra (Kr. J.):

Það var tekið fram réttilega, að frumvarp þetta, eins og það hefir komið frá neðri deild, væri alveg óframbærilegt. Það væri ómögulegt að leggja frv. fram til staðfestingar í þeirri mynd, sem það hafði, er það kom frá hv. n. d. En þó að þessar breytingar, sem nefndin leggur til, verði gerðar á frumvarpinu, þá er eg samt sem áður í vafa um, hvort frumvarpið er frambærilegt. Eg efast um að út úr þessari samfellingu á frumvarpinu og l. 30 júlí 1909 geti orðið lög, sem lögð verði fyrir konung til staðfestingar. Það er ósiður, að breyta lögum á þennan hátt, í staðinn fyrir að taka hverja grein fyrir sig, breyta því sem þurfa þykir, og umskapa greinina eða greinirnar með sérstökum lögum um breyting á eldri lögunum. Hinsvegar álít eg breytingarnar í sjálfu sér fremur til bóta, en eg get þó ekki annað en greitt atkvæði á móti málinu í heild sinni, því að eg álít það ekki svo úr garði gert, að frumv. verði gert að lögum.