05.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

154. mál, lántökuheimild

Ráðherra (Kr. J.):

Eg skal leyfa mér að geta þess, að peningamálanefnd hv. neðri deildar spurði mig einu sinni í vetur, hvort eg óskaði lántöku-heimildar, og var þá jafnframt bent á þessa svokölluðu landsjóðs víxla. Mér er það kunnugt, að aðaltilefnið til þessara heimildarlaga er tillagið til hafnargerðarinnar í Reykjavík, sem ráðgert er að landsjóður leggi fram; en það er nauðsynlegt að bæjarstjórnin geti komið hafnargerðinni í framkvæmd á sem allra styztum tíma og það er aðalástæðan fyrir frumvarpi þessu. Lánsupphæðin öll á að vera 500,000 kr., þar af eiga 400,000 kr. að ganga til hafnargerðarinnar, og eru þá eftir 100,00 kr. til þess að grípa til, ef í harðbakka slær fyrir landsjóðinn.

Viðvíkjandi landsjóðsvíxlunum er það að segja, að landssjóður hefir stundum þurft að fara til bankanna og fá þar fé, til þess að geta staðist dagleg útgjöld. Nú má búast við því að bankarnir verði tregir á að veita þessi lán, nema lagaheimild sé fyrir þeim, einkum ef búast má við, að stjórnin, sem þarfnast lánsins, sé völt í sessinum og muni bráðlega fara frá. Því að bankarnir geta litið svo á, að næsta stjórn muni ef til vill eigi vilja greiða lán fráfarandi stjórnar. En sé lagaheimild fengin fyrir þessum bráðabirgðarlántökum, eins og frumvarp þetta fer fram á, þá geta bankarnir verið öruggir og veitt lánin gegn lögheimiluðum víxlum.

Enn eitt vil eg taka fram, og það er það, að engin samvizkusöm stjórn mundi misbrúka þannig lagaða lánsheimild.