11.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Lárus H. Bjarnason:

Fjárlaganefndin má vera hæstv. ráðherra þakklát fyrir upplýsingar þær sem hann gaf, og sem vafalaust eru á sæmilegum rökum bygðar. En þó að málið líti nú svona út frá sjónarhól hæstv. ráðherra. þá hygg eg að það megi líta á það nokkuð á annan veg, ekki á tölurnar útaf fyrir sig heldur á fjárhagsástand landsins í heild sinni.

Eg vil fyrst leyfa mér að bera saman núgildandi fjárlög 1910—11 við stjórnarfrv. fyrir 1912—13 og frumvarp neðri deildar sem hér liggur fyrir. Eftir fjárlögunum 1910—11 voru tekjurnar 2,930,000 kr. Eftir stjórnarfrumvarpinu voru ráðgerðar tekjur 1912—13 2,894,000 kr. og eftir frumvarpi neðri deildar eru tekjurnar áætlaðar 2,887,000 kr. Eg tel alstaðar í þúsundum réttum. Eins og menn sjá, er lítill munur á tekjum eftir frumvarpi stjórnarinnar og frumvarpi neðri deildar Þá eru gjöldin eftir núgildandi fjárlögum 2,994,000 kr., eftir frumvarpi stjórnarinnar 2,906,000 kr. En eftir frumvarpi neðri deildar eru gjöldin 3,168,000 kr. Tekjuhalli á núgildandi fjárlögum er áætlaður 63,000 kr.; var af fráfarandi stjórn áætlaður 11,000 kr. fyrir 1912—13. En eftir frumvarpi neðri deildar er hann áætlaður 281,000 kr. Þessar tekjuhallatölur út af fyrir sig eru ekki nægilegar til að lýsa fjárhag landsins. Og skal eg í því sambandi minna á, að tekjuhallinn á núgildandi fjárlögum, 63 þús. kr., kvað vera nærri því borgaðar til fulls með tekjuafgang frá fyrri hluta fjárhagstímabilsins, árinu 1910. Þetta hefi eg eftir háttv. þm. Suður-Þingeyinga (P. J.), sem aftur hefir það úr skýrslum úr stjórnarráðinu. 281 þús. kr. er að vísu nokkuð mikill tekjuhalli. En þetta er sízt að undra, þegar þeirri aðferð er fylgt ár eftir ár að demba kostnaði við framtíðarfyrirtæki, sem óbornir eiga að njóta góðs af, ekki síður en núlifandi, á fjárhagstímabil það sem yfir stendur. Eg benti á það í neðri deild 1907 (Alþt. 1907, bls 231), að það væri ekki rétt aðferð að skella öllum símakostnaðinum á 1 eða 2 fjárhagstímabil. Þá var tillögu minni um að taka lán til frambúðarfyrirtækja ekki sint, en nú sé eg að líkt princip hefir verið tekið upp í neðri deild af háttv. þingm. Suður-Þingeyinga um símalagningar. Þessi regla ætti að gilda um öll meiriháttar frambúðarfyrirtæki, hverju nafni sem nefnast. Aðferð sú sem hingað til hefir verið beitt tíðkast nú heldur hvergi nema hér, og væri óskandi að háttv. stjórn tæki upp hinn nýja siðinn.

Ef maður lítur á, hvað veldur tekjuhallanum eftir frumvarpi neðri deildar, sést það fljótt, að gjaldaaukningin kemur aðallega fram á 4 greinum, 13., 14., 15. og 16. grein, sérstaklega þó á 13. grein. Þar nemur hækkunin 120 þús. kr. Þessi 120 þús. kr. aukning kemur aðallega niður á þjóðvegi og vitafyrirtæki, sem vér núlifandi menn erum ekki skyldari til að bera en eftirkomendurnir, heldur að eins eftir tiltölu við þá. Þá er 14. grein með 64 þús. kr. hækkun, mest til aukinnar alþýðufræðslu. Þá er 15. grein með 20 þús. kr hækkun til vísinda og bókmenta og bitlinga. 16. grein hækkar gjöldin um 67 þús. kr. og eru það aðallega 2 atriði, sem hækkuninni valda, 25 þús. kr. styrkur til hafnarbryggjugerðar í Hafnarfirði og 15 þús. kr. til Landsbankans, eftirgjöf á leigum af láni. Mikill meiri hluti hinna auknu útgjalda ganga til þarfafyrirtækja, en meinið er sumpart það að öllu er skelt á stutt tímabil og þó ekki hugsað um aukning teknanna, ekki einusinni hugsað til bóta fyrir þær tekjur, sem feldar hafa verið niður. En þó að þetta sleifarlag hafi verið haft í frammi, þá verður þó líkl. enginn tekjuhalli yfir fjárhagstímabilið 1910—11.

(Sig. St.: Hver veit það?)

Það veit að vísu enginn með vissu, en það er líklegt, úr því að árið 1910 eitt hefir gefið af sér nægilega mikið upp í áætlaðan tekjuhalla beggja áranna. Það er jafnvel líklegt að árið 1911 verði ekki lakara en 1910, svo að það verði fremur eitthvað umfram í árslokin 1911.

Eg verð og að minna á, að lánin, sem svo mikil áherzla var lögð á hér, ekki alls fyrir löngu, má ekki telja sem eyðsluskuld. Seinna lánið gefur af sér sömu vexti og fyrir það eru gefnir. Og fyrra lánið var mestmegnis lagt í fyrirtæki símans, sem gefur af sér um 5½%. Þó vil eg strax bæta því við, svo það ekki valdi misskilningi, að 35 þúsundin til norræna ritsímafélagsins eru ekki dregin frá, áður en þessi 5½% eru reiknuð. Þessi vaxtahæð af símanum er samkvæmt skýrslu landsímastjórans til fjárlaganefndarinnar.

Háttv. þingm. Ísafj.kaupst. gjörði of mikið úr skuldunum. Eg tel mig ekki skulda, ef eg á eins mikið útistandandi og aðrir eiga hjá mér og fæ sömu rentu af því og eg geld. Viðlagasjóðurinn er nú 1750 þús. kr., þó að uppétinn væri sagður í tíð Hannesar Hafsteins. Hagur landsins við lok ársins 1911 er því að mínu áliti fremur góður en hitt. Eg skal reyndar játa, að það getur valdið dálitlum óþægindum í svip fyrir ráðherra, að mikið er fast í viðlagasjóði, en hægt ætti þá að vera að fá bráðabirgðarlán út á viðlagasjóð. Og satt að segja sé eg ekki mun á því, að taka fé af vöxtum úr viðlagasjóði, og hinu, að láta það standa þar kyrt, en lána í þess stað það sem með þarf, að eins að lánsvextirnir séu ekki hærri en þeir, sem innvinnast. Eg sný ekki aftur með það, að hagur landsins í árslok 1911 verði fremur góður.

En þar með er ekki sagt, að hann verði góður við árslok 1912 og því síður við árslok 1913. Þótt engin breyting yrði gjörð á aðflutningsbannslögunum, þá hygg eg að töluverðar tekjur muni verða af áfengi 1912. Kaupmenn munu flytja töluvert inn undir árslokin 1911 og af þeim innflutningi rennur tollur fram undir árslokin 1912, hvort sem það nú verður nær áætlun hv. ráðherra eða n.deildar. Um 1913 er alt erfiðara að spá, nema því að eins að bannfrestunar frumv. gangi fram í annarihvorri myndinni. Jafnvel þó að þeim væri að eins frestað um eitt ár, þá tel eg víst að inn mundi fást nægilega mikið til síðara árs fjárhagstímabilsins. Eg held því að hagur landsins verði ekki slæmur við árslok 1913, ef breytingartillaga mín um eins árs frestun á aðflutningi áfengis nær fram að ganga. En engu að síður er bráðnauðsynlegt að vinda bráðan bug að því að auka tekjur landsins, og að minsta kosti má það ekki líðast að forsómað sé að fylla í skarð áfengistollsins. Eg býst við að efri deild muni ekki auka tekjuhallann mikið. Hún mun fremur færa til upphæðirnar. En þótt tekjuhallinn yrði rúmlega 281 þús. kr„ þá er í rauninni ekkert að óttast, sem stendur, enda þó að nú megi síður en áður búast við því að tekjurnar fari fram úr áætlun bæði vegna fulldjarfrar áætlunar og missis áfengistollsins.

Að endingu get ekki stilt mig um að geta tveggja nýmæla, sem fjárlagafrumvarpið flytur í þetta skifti. Eg á við lögfestinguna á Thore-samningnum og erindisbréfi viðskiftaráðunautsins. Slík nýmæli munu ekki þekkjast annarstaðar, enda munu einkennilegar ástæður valda þeim. Og þykist eg reyndar skilja þær og fleira, sem nú er að gjörast, þó að ekki hafi eg orð á því að svo stöddu.