25.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

120. mál, farmgjald

Augúst Flygenring:

Eg vil nú þegar við þessa umræðu gera það opinskátt, að eg get ekki verið með þessu frumvarpi. Eg get ekki verið því fylgjandi, þar sem hér er gengið inn á nýja braut, sem hlýtur að hafa geysimikinn kostnað í för með sér, og þar sem það að efni til er þannig úr garði gert, að það veldur fullkomnu misrétti meðal þeirra, er eiga við það að búa, sem sýnt hefir verið fram á, bæði í blöðum og á mannamótum. Flokkaskipunin á aðfluttum vörum er og svo ógreinileg, margbrotin og flókin, að með öllu er óviðunandi. En eg legg þó ekki aðaláherzluna á það, því að slíkt mætti ef til vill laga, svo að viðunanlegt væri, ef þessi leið væri farin. En hitt er þyngra á metunum, að okkur vantar alla reynslu fyrir því að svona fyrirkomulag geti blessast án tolleftirlits. Eg þekki ekki til þess, að svipað geti þrifist í nokkru landi án þess. Eg þykist vita, að mér verði svarað því, að í stað opinbers eftirlits komi drengskaparvottorð, vottorð upp á æru og samvizku, og þess háttar. En það er einmitt nærri því það versta við frumvarpið, að slík vottorð eru heimiluð þar, því að af því leiðir hreinasta siðspilling, þegar fara á að heimta yfirlýsingar upp á æru og samvizku fyrir hvert títuprjónabréf og lítilræði, sem flutt er inn í landið. Mér þykir ólíklegt, að nokkur geti í alvöru hugsað sér svo margbrotið tollkerfi án tolleftirlits í landi, þar sem eru 70—80 hafnir og þar sem siglt er umhverfis strandlengju, sem er 700—800 mílur. Með þessu móti verður alt tollgjald af handahófi og skapar siðspilling hjá allri þjóðinni, sem ekki verður með neinu móti viðunandi. Það væri miklu nær, ef fara ætti þessa leið, eða að leggja á þannig lagaðan toll, að búa til lög um alment lestagjald, því að það er hægra að vita, hve mörg „tons“ flytjast inn í landið af vörum, heldur en að fá vitneskju um vöruflokkana. Eg skal játa, að fé vantar í landssjóð og að þörf er á einhverjum tekjuauka handa honum. En það væri samt í rauninni rétt svar, gegn því, sem neðri deild gerði í gær, að fella frumv. nú frá 1. umræðu. En eg býst nú samt við, að tillaga komi fram um, að setja nefnd í málið, og að hún verði samþykt. Þótt eg hafi litla von um, að það takist að laga galla þá, sem á því eru eða yfir höfuð að sníða eitthvað upp úr því, sem frambærilegt þætti, þá skal eg þó ekki leggjast á móti því að slík nefnd verði skipuð.