27.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Kristinn Daníelsson:

Eg ætla að eins að minnast á nokkrar breytingartillögur, sem eg hefi komið með, og skal vera eins stuttorður eins og eg get. Þá er fyrsta brtill. á þingskjali 775, að hækka styrk til Önnu Magnúsdóttur úr 1000 upp í 1500 kr. Eg er nákunnugur gangi þessa máls frá upphafi. Fósturföður stúlkunnar þótti upphæðin, sem neðri deild vildi veita, mjög svo skorin við nögl, og hefir hann beðið mig að reyna að koma fram leiðréttingu á þessu máli. Kostnaðurinn við veru stúlkunnar á ljóslækningastofnuninni í Khöfn var yfir 3000 kr., og hefi fósturfaðir stúlkunnar borgað þann kostnað einn. En því var svo varið, að hann hafði gjört sér von um að fá nokkuð af kostnaðinum endurgreitt úr landssjóði samkv. 77. og 78. gr. fátækralaganna frá 1905. Fyrst þegar barnið fór, var álitið að það þyrfti ekki að vera nema stuttan tíma, 2 til 3 mánuði. En það reyndist svo, að tíminn varð miklu lengri.

Eg skal enn fremur geta þess, að tveir sýslumenn í Hafnarfirði hafa hvor á eftir öðrum lýst því yfir afdráttarlaust, að viðkomandi fósturfaðir og sveitarfélag mundu ekki þurfa að borga nema þessar tilteknu 200 kr., en afgangurinn mundi verða greiddur úr landsjóði. Og í því trausti var barnið látið vera svona lengi á lækingastofnuninni. Eg veit til þess, að fleiri lögfræðingar hafa látið í ljósi þá skoðun, að endurborgun mundi fást úr landsjóði með því að fara í mál. En maðurinn er fátækur og treystist ekki til þess að bera kostnað af máli þessu. Eg hefi ekki getað borið mig saman við nefndina um þetta, og eg skal geta þess, að eg var ekki búinn að lesa nefndarálitið, þegar eg kom fram með tillöguna. Neðri deild hefir veitt 1000 kr. og fjárlaganefnd efri deildar hefir sett það að skilyrði, að fénu væri að eins varið til áfallandi lækningakostnaðar, en ekki til greiðslu þess kostnaðar, sem þegar er áfallinn. Svo að viðkomandi fósturfaðir á ekki að fá neinar bætur upp í tilkostnað sinn, þrátt fyrir það, að hann er kominn í sökkvandi skuldir einmitt fyrir það, hve miklu hann hefir orðið til að kosta til lækningar barninu. Sjúklingurinn var búinn að vera 2 1/2 ár á stofnuninni, og kom þá hingað til þess að dvelja hér um tíma, því að lækningunum er svo hagað, að sjúklingarnir þurfa að hafa nokkra hvíld á milli. Það var ætlast til að barnið yrði hér fram yfir nýjár, en þá skrifaði læknirinn við ljóslækningastofnunina beint eftir því, með því að ekki mætti dragast að byrja á lækningunum aftur. Þá var stúlkan aftur látin sigla í því trausti, að nokkur styrkur mundi fást úr landssjóði. Eg hefi komið með þessa tillögu eftir tilmælum fósturföður barnsins og vil mæla sem bezt með því að styrkurinn sé rífkaður nokkuð. En verði það ekki gjört, þá finst mér þó að að allra sízt megi setja þetta skilyrði, að fósturfaðir barnsins megi ekki njóta afgangsins, ef þessar 1000 kr. skyldu gera betur en að hrökkva fyrir áfallandi kostnaði

Þá er næst brtill. mín á þingskjali 774 við 13. gr. D. II. um talsíma frá Ísafirði til Suðureyrar í Súgandafirði. Eg þarf ekki að fjölyrða um þetta nú, því að eg talaði um það þegar fjáraukalögin voru til umræðu. Eg skal að eins minnast á það atriði að í tillögunni er gert er ráð fyrir 20% kostnaðarins frá héraðsbúum.

Til þessa liggju þau drög, að þegar Ísafjarðar — Patreksfjarðar síminn var lagður, þá var samkomulag milli landsímastjóra og héraðsins, að héraðsbúar legðu til 20% af kostnaðinum, en allur kostnaðurinn er áætlaður 100,000 kr., svo að héraðsbúar áttu að leggja til 20,000 kr. En svo reyndist áætlunin svo rífleg, að kostnaðurinn við símalagninguna varð ekki nema 75,000 kr. Eigi að síður voru héraðsbúar látnir leggja til jafn-mikið, eins og gjört var ráð fyrir í fyrstu eða 20,000 kr., það er að segja miklu meira en 20%. Nú höfðu sýslubúar falið mér að reyna að að fá uppgjöf á þessu. Það fer eg samt ekki fram á, en hitt þykir mér sanngjarnt, að þeir fái í þess stað að sleppa með 20% af kostnaðinum við Súgandafjarðarsímann. Eg hefi talað um þetta við landsímastjórann og hann var þessari tillögu meðmæltur. Eg skal þá ekki fara fleiri orðum um þetta. Mér skildist svo, að fjárlaganefndin væri því meðmælt um daginn að taka þessa fjárveitingu upp í fjárlögin, þó að hún vildi ekki setja hana inn á fjáraukalögin, og í því trausti kem eg nú með þessa tillögu. Þá er breytingartill. um fjárveitingu til skólans á Núpi. Háttv. framsögumaður sagði, að þessi unglingaskóli hefði ekkert fram yfir aðra slíka skóla, en það er ekki rétt. Það hefir verið lagt meira til hans en alment gerist. Bygt gott hús og gjörð fleiri mannvirki, meðal annars er þar gróðrarreitur, sem er notaður við kensluna. Og forstöðumaður skólans er nýtur maður og þjóðkunnur og hefir sýnt mikinn dugnað og ósérplægni í því að koma skólanum í gott horf. Því held eg, að það sé góð trygging fyrir því, að styrk til þessa skóla sé ekki á glæ kastað. Enda hygg eg að nefndin óttist það ekki, heldur mun henni miklu fremur ganga til sparnaður á landsfé, sem auðvitað er nauðsynlegur innan hæfilegra takmarka.

Þetta eru þá þær breytingartillögur, sem eg hefi komið með. En eg get ekki látið vera að minnast á nokkur önnur atriði, sérstaklega það sem nefndin leggur til um Keflavíkurveginn. Nefndin vill lækka tillagið til hans úr 7500 kr. niður í 5000 hvort árið og hyggur að meira muni ekki þurfa. Eg skal taka það fram, að eg hygg að það hafi verið þegjandi samkomulag, eftir að héraðið bauðst til að leggja fram helming af kostnaði við þennan veg, að þingið ætlaði sér ekki að sleppa hendi af honum, fyr en hann væri fullgerður en þess áætlun nefndarinnar um kostnaðinn tel ég alveg óvísa. Og þó að ekki þyrfti alla upphæðina, þá næði það ekki lengra og væri ekki eytt því sem umfram væri. Framsögum. sagði, að eftir væru að eins 14 kílómetrar og kann vera að það sé rétt, mér er það ekki fyllilega kunnugt; en hitt get ég sagt með vissu, að það er áreiðnalega engin furða þó hann sé dýr. Og einmitt þetta, að héraðsbúar hafa umyrðalaust viljað leggja á sig helming kostnaðarins þó vegurinn væri svona dýr, það sýnir bezt, hver þörf hefir verið á þessum vegi. Því það mun hafa verið álit flestra, að þetta væri vegur, sem landsjóður ætti að leggja einn. Það horfði svo við, þegar vegaplanið var gjört, að þá var ein einasta sýsla á landinu , sem ekki var nefnd, Gullbringusýsla. En þetta hérað átti auðvitað að fá sinn hlut af landsjóðsvegum eins og aðrir. En sem sagt, héraðsbúar álitu þennan veg svo ómissandi að þeir vildu vinna til að leggja á sig helming kostnaðarins. Nefndin vill nú að vísu veita næga upphæð til þess að ljúka við veginn, en álítur að þessi upphæð, sem hún stingur upp á, sé nóg. En eg vil benda á, að það væri illa farið, ef fjárveitingin skyldi svo ekki hrökkva til. Hitt gerði lítið til, þó hún væri óþarflega rífleg. Og undir engum kringumstæðum ætti að veita að eins 5000 kr. hvort árið. Ef upphæðin ætti öll að vera 10,000 kr., þá vildi ég heldur kjósa 7000 kr. fyrra árið og 3000 kr. seinna árið. Eg skal játa, að þar sem landsjóður hefir lagt til þessa vegar, þá hefði verið réttara að endurskoða vinnureikninga betur fyrir landsjóðs hönd. Eg hefi endurskoðað þessa reikninga, en með því að mig brestur þekkingu í þessum efnum, þá hefir það verið mestmegnis að eins tölu endurskoðun. En þar sem sá maður, sem hefir staðið fyrir verkinu, er duglegur maður og ráðvandur, þá er eg sannfærður um að vegurinn hefir orðið svona dýr eingöngu vegna þess, hve erfitt hefir verið að gera hann. Vegurinn liggur yfir hraunstorku og hefir því orðið að flytja ofaníburð í veginn langar leiðir að. Því er ekki hægt að bera þennan veg saman við aðra vegi, að því er dýrleika snertir. Eg hefi víða farið um landið og hefi aldrei farið um eins slæman veg og þarna var áður. Eg var í fyrstu alveg hissa að svona vegur skyldi vera til. Eg vona, að þessi fjárveiting verði látin standa, eins og hún er nú í fjárlagafrumvarpinu. Það er ekki neitt í húfi, þótt hún reynist of há, og það mun ekki vera tilætlun þingsins að sleppa hendinni af þessu verki fyrri en það er búið. Háttv. framsögum. sagði, að það hafi óvíða verið eins mikil gleði yfir vegagjörðum eins og yfir vegi, sem hann nefndi í Þingeyjarsýslu, en eg get sagt það sama hér, því menn hafa víst óvíða verið eins glaðir yfir nýjum vegi eins og héraðsbúar voru yfir vegi þeim sem hér er um að ræða.

Þá skal eg minnast á br.till. nefndarinnar 46. lið á þingskj. 127, þar sem nefndin vill lækka styrk til Flensborgarskólans úr 7000 kr. í 6000. Framsögumaður taldi það vera sanngjarnt, að sveitarfélagið legði nokkurn styrk til þess skóla, því að skólinn væri aðallega fyrir Hafnarfjörð; þetta er ekki rétt; nemendur í skólanum eru víðsvegar af landinu og svo mikil aðsókn að honum, að umsóknunum verður tæpl. fullnægt. Framsögumaður fann einnig að því, að kennurunum væri borgað óþarflega hátt kaup. Það hefir frá upphafi verið vandað vel til kennara við þennan skóla, og þá verður ekki komist hjá því að borga sómasamlega. Og borgunin er sannarlega ekki ofmikil. Til dæmis hefir 2. kennari ekki haft nema 700 kr. og er það algerlega óboðleg upphæð til að lifa af, enda mun nú nýlega vera búið að hækka laun hans upp í 850 kr. á ári og er það sízt of mikið. Hvað það snertir að sveitarfélagið eða sýslusjóður ætti að leggja eitthvað til skólans, þá mundi eg manna fyrstur vilja styðja að því, því að eg álít skólann gera hið mesta gagn. Eg mundi með ánægju leggja það til, að skólinn fengi styrk úr sýslusjóði, ef það væri hægt. En eg tel sýslusjóðinn alls ekki færan um það að bæta á sig útgjöldum, því að hann er allt af hlaðinn af öðrum skuldum. Enda er skólinn til þess fallinn, að njóta styrks af landssjóði, og vona eg að háttvirt efri deild fari ekki að draga úr þeirri upphæð, sem neðri deild hefir ánafnað honum.

Eg skal ekki þreyta háttv. deildarmenn með lengri ræðu; eg skal játa, að allar tillögur mínar ganga í þá átt að hækka útgjöldin og fellur mér það illa.

Eg tek undir, að það er nauðsynlegt að tekjur og gjöld á fjárlögunum standist nokkurnveginn á. En hins vegar skal eg benda á, að það er ekkert undarlegt, þótt útaf því kunni að bregða, þegar eins stendur á eins og nú, að veruleg breyting á skattalögum landsins stendur fyrir dyrum. Það er ekki furða, þótt erfitt sé um fjárhaginn, meðan svo stendur á, og í sjálfu sér ekkert hættulegt. Í því trausti vil eg mæla sem bezt með tillögum mínum að háttv. deild leyfi þeim framgang að öllu leyti eða svo miklu leyti sem hún sér sér fært.