10.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

73. mál, viðkomustaðir strandferðaskipanna

Flutningsmaður (Kr. Daníelsson):

Eg hefi gerst flutningsmaður að þessari tillögu og eg hygg, að háttv. þingdeildarmenn muni fara nærri um, af hverjum rótum hún er runnin. Það er eftir ósk kjósenda minna, að eg hefi flutt mál þetta inn á þingið. Því er þannig farið, að landsfólkið snýr sér til þings og stjórnar með málaleitanir um það, er því þykir ábótavant og það vonast eftir að geta fengið bætur á. Þessar óskir verða því háværari og því tilfinnanlegri sem meira fer fram í einni sveitinni eða einu héraðinu en öðru.

Um póstferðir er enn þannig háttað, að ýmsir landshlutar hljóta lítið gagn af póstunum, og einn þessara hluta er sú sveit, er landsstjórnin, samkvæmt þessari þingsályktunartillögu, á að hlutast til um, að aukapóstur gangi til. Ingjaldssandur er í Önundarfirði, en er í hreppsfélagi með Dýrafirði. Nú er farið fram á það í þessari tillögu, að aukapóstur sé í hverri póstferð látinn fara frá Mýrum í Dýrafirði að Hrauni á Ingjaldssandi. Leið þessa væntanlega aukapósts liggur um blómlega sveit í Dýrafirði, er njóta myndi góðs af honum. Sveitamönnum kemur það illa, hve lengi þeir verða að bíða eftir blöðum og bréfum, eftir það að póstar eru komnir. Almenningur er tregur á að taka blaðabögla og flytja þá bæja og sveita á milli, svo að þeir bíða oft mánuðum saman á bréfhirðingastöðunum, áður en þeir komast í hendur réttra viðtakenda. Vér þingdeildarmenn erum nú víst allir betur farnir í þessu efni og meiri hluti háttv. þingdeildar manna þekkir víst ekki af eigin reynslu slíkt ástand. En eg vona, að flestir þeirra geti þá hugsað sér, hve ilt er að búa undir slíku, og eg þykist því hafa ástæðu til að vona, að þingsályktunartillagan verði samþykt.

Eg þykist vita, að sumir hafi það á móti þessari tillögu, að tillöguleiðin er farin á svona smámáli og að sumir háttv. þingdeildarmenn muni ef til vill kinnoka sér við að fara þessa leið. Sumir kunna að líta svo á, að rétt sé, að þingið takmarki að nota rétt sinn til að samþykkja þingsályktunartillögur, svo að hann verði þeim mun áhrifameiri, er hann er ekki oft notaður. Þetta kann í sjálfu sér satt að vera, en þar sem þessi braut er nú orðin svo fjölfarin, finst mér eðlilegt, að þingmenn noti sér hana. Stjórn landsins verður á þann hátt kunnugt um kröfur landsmanna og fær við ályktun þingsins hvöt til að verða við óskum og þörfum þeirra. Og eg vona, að háttv. þingdeildarmenn játi, að allar sveitir landsins eigi rétt á samgöngum.

Eg sé, að háttv. þingdeildarmenn eru orðnir órólegir í sætum sínum. Eg skal því ekki lengja umræður, en fel tillöguna góðvild háttv. deildar. Hún er stutt, og það er útlátalítið að samþykkja hana.