25.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Framsögumaður (Björn Þorláksson):

Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) sagði, að í nefndarálitinu væri ekki gerð nægileg grein fyrir ýmsum fjárveitingum. Þetta er skakt. Að vísu er það gert í stuttu máli, en nógu skýrt fyrir hvern þann, sem vill skilja. Þar sem á það brestur, liggja til þess sérstakar ástæður, nefnilega þær, að nefndin hefir þar ekki öll verið á sama máli, og hugði eg að það mundi nægja, að gera grein fyrir þeim atriðum í umræðunum seinna. Háttv. þm. sagði að þetta væri lélegasta nefndarálit, sem fram hefði komið hér í deildinni. Eg þakka honum fyrir þau »compliment«, en hann verður að afsaka það, að eg er maður fáorður, og tel það kost fremur en löst. Eg er að því leyti alveg gagnstæður honum, því að hann er sá óþarfasti, langorðasti og dýrasti þm. hér í deildinni, því að þess ber vel að gæta, að hér kostar hvert orð peninga, og eg vil spara fé landsins.

Þar sem háttv. þm. var að fjargviðrast út af lánsheimildum úr landssjóði, þá skal eg fyrst geta þess, að þetta kemur ekki landssjóði við, heldur viðlagasjóði, og í annan stað hins, að það er skýrt tekið fram, að hér er að eins um heimild að ræða, ef til kemur, en enga skipun.