27.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Steingr. Jónsson:

Eg ætla að eins að svara nokkrum atriðum í ræðum háttvirtra deildarmanna. Viðvíkjandi ræðu háttvirts þingmanns Vestur-Skaftfellinga skal eg lýsa því yfir, að nefndin mun taka til yfirvegunar að bæta við athugasemd um að sýslunefndir skuli eiga hlut að samningi ferðaáætlana fyrir gufubáta og mótorbáta. Og mun nefndin koma með breytingartill. við 3. umræðu um það, ef henni sýnist svo. Viðvíkjandi þjóðveginum, sem hann gat um í Austur-Skaftafellssýslu, þá sé eg enga ástæðu til þess, að taka þann veg fram fyrir aðra þjóðvegi, sem þingið hefir ekki séð sér fært að veita fé til að þessu sinni. Þá spurði sami háttv. þingm., hvaðan kvennaskólinn í Rvík ætti að fá 1500 kr. annarsstaðar að en úr landssjóði. Því er fljótsvarað. Skólinn mun eiga sjóð, sem gefur 900 kr. í vexti, og það sem ávantar getur skólinn vel tekið sem skólagjald af námsmeyjum. Eg skal taka það fram, að eg álít sjálfsagt, að taka lítilsháttar skólagjald af efnuðum stúlkum úr bænum, ef bærinn leggur ekki neitt til skólans.

Háttv. þingmaður Vestur-Ísfirðinga var óánægður með að lækka styrkinn til lupussjúklingsins Önnu Magnúsdóttur, og sérstaklega var hann óánægður með athugasemd fjárlaganefndar um þá fjárveitingu. Nefndin skildi umsóknina svo, að það ætti að nota fjárveitinguna eingöngu til framhaldslækningar stúlkunni. Ef nefndin hefði ekki skilið þetta svona, þá mundi hún hafa lagt til, að fella fjárveitinguna burt. Það er meiningarlaust að fara að endurgreiða úr landssjóði þann kostnað, sem einstakir menn hafa ráðist í, í slíkum tilfellum. Hitt er alt annað mál, að styrkja hlutaðeigendur svo, að lækningunum verði haldið áfram og geti komið að gagni. Það getur verið ástæða til að veita slíkan styrk, þegar svona stendur á, að hlutaðeigendur eru sjálfir búnir að leggja á sig mikinn kostnað og hafa ekki efni á meiri fjárframlögum. Því settum við þessa athugasemd í nefndarálitið. Ef svo er, að fósturfaðir stúlkunnar á heimting á endurgreiðslu úr landssjóði samkvæmt lögum, þá er ástæða fyrir hann að fara í mál.

Þá er skólinn á Núpi. Það getur vel verið, að þeir sem standa fyrir þessum skóla, hafi lagt á sig mikinn kostnað, og meira en alment gerist; en það hafa ekki legið fyrir nefndinni neinar skýrslur um þetta. Ef alþingi veitti styrk til þessa skóla, þá væri engin ástæða til þess, að neita um styrk til skólans í Hjarðarholti. Þar er búið að byggja hús fyrir 5000 krónur og skýrslur skólans liggja fyrir þinginu, og er alt í bezta lagi, að því leyti til. Það má ekki fara að taka neinn af unglingaskólunum út úr og styrkja hann fram yfir aðra. Slíkt væri alveg rangt, nema þá helzt eftir tillögum fræðslumálastjóra, því að þingið vantar allan kunnugleika til að geta gert upp á milli skólanna.

Um Keflavíkurveginn hafði háttv. þingm. enga ástæðu til að skilja nefndina svo, að hún vildi kippa að sér hendinni og hætta að leggja til vegarins, áður en hann er fullgerður. Það er bjargföst sannfæring nefndarinnar, að 10.000 kr. muni nægja til þess að fullgera þessa 14 kilometra, sem eftir eru. Og þar sem háttv. þingmaður talaði um, að hann vildi heldur að veittar yrðu 7000 kr. fyrra árið og 3000 kr. seinna árið, þá er það alveg óþarft. Ef verkstjóri álítur það hentugra að færa til upphæðimar, þá er altaf vani að gera það. Spursmálið er að eins, hvort 10,000 kr. muni nægja, og eg þykist hafa fært rök fyrir því, að svo muni verða. Það var að eins þetta sem vakti fyrir nefndinni, en það er langt frá því, að eg eða nefndin hafi nokkuð á móti því, að landssjóður leggi fram helming kostnaðarins móti sýslubúum, þangað til vegurinn er fullgerður.

Þá er ennfremur eitt, sem háttv. þingm. Vestur-Ísfirðinga og háttv. 3. konungkjörinn mintust á, styrkurinn til Flensborgarskólans. Eg álít að þingið geri vel, þó að það veiti ekki nema 6000 kr. til þessa skóla. Eg gat þess áðan í framsögu minni, að rekstur skólans kostaði 5000 kr. Nánar tiltekið er þetta svo, að kensla, ræsting, eldiviður og fleira kostar 4522,27 kr. á ári. Þar við bætist brunabótagjald kr. 222,25 og bæjargjald, þar með talið ljós og vatn, kr. 213,50. Þetta gerir alt til samans um 5000 kr. Á síðustu fjárlögum eru skólanum veittar 7000 kr. hvort árið og var styrkurinn hækkaður svo mikið, uppúr 4000 kr., vegna þess að skólinn þurfti að greiða afborganir af byggingarskuld, en alls ekki að það væri ætlast til, að skólinn hefði svona háan styrk framvegis. Af þessu er augljóst, að skólinn hefir 2000 kr. af landssjóðsstyrknum til þess að borga vexti með og afborganir af skuldum. Og ef skólinn fær nú 6000 kr., þá getur hann notað 1000 kr. til vaxta og afborgana, og ætti það að vera nægilegt. Það má geta þess, að skólahúsið sjálft var upphaflega gefið Garðahreppi, svo að skólinn hefir ekki átt erfitt uppdráttar, enda eru skuldirnar ekki nema um 11000 krónur. Það er alt og sumt. Skólinn ætti því sannarlega að geta komist af með þessa upphæð. En geti hann það ekki, þá ætti héraðið, sem hefir tekið við skólanum að gjöf, að leggja til það sem vantar, því að eg sé ekki betur, en að það sé nærri því til smánar héraðinu, að það skuli ekki leggja neitt af mörkum til síns eigin skóla. Og svo er annað: ef skólinn getur ekki komist af á þennan hátt, því þá ekki að taka skólagjald. Þetta verðum við fyrir norðan að gera við okkar unglingaskóla, og þessi skóli er ekkert annað en unglingaskóli. Eg gat þess áðan, án þess að eg væri að finna að því, að það væri ekki farið eins sparlega með fé við þennan skóla, eins og við aðra unglingaskóla, og átti eg þar við laun kennaranna. Þetta er 6 mánaða skóli og forstöðumaður skólans hefir 1700 kr. laun, fyrir utan hlunnindi af jörð og frítt húsnæði. Og 1. kennari hefir 200 kr. á mánuði. Þetta eru miklu hærri laun en venjulegt er við unglingaskóla. Eg er ekki að segja, að þeir vinni ekki fyrir þessu kaupi, en sem sagt, það er ekki farið eins sparlega með fé, að þessu leyti, eins og gerist annarstaðar. Eg skaut því fram, að skólinn væri aðallega fyrir Hafnarfjörð og skal eg nú færa orðum mínum betri stað. Það er satt, að skólinn var sóttur víða að, á meðan engin gagnfræðakensla var í Rvík. En þetta er að breytast. Veturinn 1909 —1910 voru 80 nemendur í skólanum, þar af 36 úr Hafnarfirði, 13 úr Gullbr. og Kjósarsýslu og 31 annarstaðar að. En hvernig taka þessar tölur sig út, ef litið er á einstakar deildir skólans. Í elztu deild, sem byrjaði 1907, voru 4 úr Hafnarfirði, 1 úr Gullbr. og Kjósarsýslu og 19 annarstaðar að. Í annari deild, sem kom í skólann 1908, voru 14 úr Hafnarfirði, 4 úr Gullbr. og Kjósarsýslu og 12 annarstaðar að. Og í 3. deild voru 18 úr Hafnarfirði, 4 úr Gullbr. og Kjósarsýslu og enginn annarstaðar að. Af þessu má sjá, að skólinn er að verða eingöngu skóli fyrir Hafnarfjörð og héraðið í kring, enda er það eðlilegt.

Þetta vildi eg benda á, til leiðbeiningar háttvirtum deildarmönnum, er þeir fara að greiða atkv., það er ekki landsskóli, heldur sérstakur skóli fyrir þetta hérað og prívatskóli að því leyti, sem hann stendur að eins óbeinlínis undir umsjón landsstjómarinnar.

Þá talaði háttv. þingm. Skagfirðinga um álag á Viðvíkur kirkju. Ef kirkjan á rétt á þessu, þá er sjálfsagt að ganga laganna veg og fá dóm í málinu. Hitt er ekki rétt, að þingið fari að skera úr því vafamáli, með því að veita fé af frjálsum vilja. Og eg skal í því sambandi benda á það, að ef þessari kirkju er veitt álag, þá dregur það líklega dilk á eftir sér, því þá kemur hver kirkjan af annari og biður um sama. Sami háttv. þingmaður talaði um Skagafjarðar akbrautina. En eg held að ræða hans hafi sýnt það, að það væri ekki stórbagalegt, þótt því máli væri frestað. Hann sagði, að vegurinn að Víðimýri væri ekki góður. Það má vel vera, en suður fyrir Reynistað er ágætur vegur, og það er einmitt sá kaflinn, sem verður lagður fyrst. Það er engin ástæða til að taka þessa braut fyrir á undan öðrum, sem er miklu meiri þörf á, til dæmis Borgarfjarðarbraut og Reykjadalsbraut. Það er betra að gera sem sem mest að hverri braut í einu, eða á sem styztum tíma, heldur en að leggja spotta og spotta hér og hvar, og láta svo líða langan tíma þangað til brautin er fullgerð. Hér stendur svo á, að brautin yrði lögð eftir sléttum grundum suður frá Sauðárkróki, en hitt látið bíða, þar sem vegurinn er miklu verri. Háttv. þingmaður taldi upp það sem Skagafjarðarsýsla hefði fengið úr landssjóði til samgöngubóta, á síðustu 20 árum. En hann gætti ekki að því, sem Skagafjarðarsýsla hefir fengið til þjóðvega. Á síðustu 20 árum hefir verið lagður vegur þvert yfir Skagafjörð, og hefir því landssjóður gert skyldu sína þar í fylsta máta. Eg gæti, ef eg vildi, nefnt Suður-Þingeyjarsýslu til samanburðar. Hún hefir ekki fengið einn einasta eyri á sama tíma, nema til þjóðvega og svo nú til akbrautarinnar. Ekkert til sýsluvega, og þar eru þó vegir mjög erfiðir.

Viðvíkjandi breytingartillögu háttv. þingmanns Strandamanna, á þingskjali 770, get eg verið stuttorður.

Eg gat þess áðan og stend við það enn, að vegurinn úr Gilsfjarðarbotni í Hrútafjarðarbotn hefir ekki verið tekinn í tölu þjóðvega, fyrri en með vegalögunum frá 1907. Fjárveitingin til þessa vegar á þingi 1909 var als ekki veitt í þeirri meiningu, að það ætti að halda veginum áfram ár eftir ár. Við megum ekki taka einstaka þjóðvegakafla fram yfir alla aðra. Hversvegna á t. d. að taka þennan veg fram yfir veginn yfir Ljósavatnsskarð, eða veginn vestur frá Akureyri. Þar er búið að leggja góðan veg vestur að Moldhaugnahálsi, en þar taka við hálfgerðar ófærur. Eg veit ekki, hvort það er nokkur ástæða til þess, að taka þennan veg úr Gilsfjarðarbotni fram yfir aðra. En ef það sýnist nauðsynlegt, þá ætti helzt að hækka tillagið til þjóðvega alment, og láta svo stjórnina og landsverkfræðing skera úr því, hvar þörfin er mest.

Þá talaði sami þingm. um launaviðbót læknisins í Strandasýslu, fyrir að ferðast um Reykjarfjarðarlæknishérað. Eg vil minna á, að stofnun þessa læknishéraðs flaut í gegn á þinginu í fyrra, eingöngu með hliðsjón af því, að héraðið átti ekki að skoðast sem sérstakt læknishérað, fyrri en að læknir fengist í það. En nú á að fara bæta við laun læknisins í Hólmavík, til þess að þjóna þessum hluta héraðs síns.

Eg gæti verið með því, að veita Árneshreppingum í Strandasýslu styrk til þess að leita sér læknishjálpar, á sama hátt eins Öræfingum, en því að eins, að þetta hérað verði felt burt úr tölu sérstakra læknishéraða. Íbúar héraðsins voru ekki nema ca. 400. Háttv. þingmaður vildi halda því fram, að þangað mundi safnast fjöldi manna og stunda síldarútveg, en það efast eg um. Ef Norðmenn flýja frá Siglufirði, þá munu þeir heldur setjast að á hentugri stöðum, t. d. Raufarhöfn. Þar er bæði meiri síld og staðurinn liggur betur við en Reykjarfjörður.

Þá er tillaga háttvirts þingmanns Akureyrar á þingskjali 780. Eg þarf ekki að bæta miklu við það, sem eg sagði um þessa tillögu í framsögu minni. Ef skilningur hans er réttur, getur vel verið stjórnin verði að semja við Thorefélagið um póstflutning. Eg held nú, að það sé ekki rétt. Eg álít að Thorfélagið sé skylt að flytja póstflutning í öllum ferðum sínum. Eg mintist einnig á þann mögulegleika, að samningurinn verði álitinn ógildur. Mintist að eins á þetta af því, að það eru sumir, sem líta svo á. Að félagið færi um koll, getur auðvitað komið fyrir þetta félag eins og önnur. Það þarf ekki annað en að það missi nokkur skip. Það var eins og háttv. þingmanni væri viðkvæm ummæli mín Thorefélagsins vegna, en eg get lýst því yfir, að þau voru ekki þannig meint frá minni hálfu. Eg hefi enga sérstaka ástæðu til að efast um „Soliditet“ Thore.