03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Jónsson, (1. þm. S.-Múl.):

Hv. þm. Seyðf. (B. Þ.) sagði að ástæðan fyrir því, að tollurinn hefði reynst minni en áætlað var á síðustu fjárlögum, hefði verið sú, að kaupmenn hefðu flutt svo mikið inn af víni, áður en lögin um tollhækkun öðluðust gildi. En þetta er ekki rétt, því ástæðan fyrir þessu er miklu fremur sú, að minna hefir verið keypt af víni eftir tollhækkunina en áður. Það vildi svo til, að þegar tollurinn var hækkaður, var kaupmagn flestra með minsta móti, og afturkippur í öllum viðskiftum, og því hafa menn eðlilega minkað vínkaupin, þegar þá þar við bættist, að tollhækkunin gerði kaupin örðugri. Háttv. þm. Barð. (B. J.), sagði, að aðalástæðan fyrir okkur, sem höldum því fram, að tollurinn sé of hátt áætlaður, sé sú að gera númer úr þessu, en að það væri ekki alvara. Eg held að háttv. þm. hafi verið að gera sjálfur að gamni sínu, þá er hann setti þessar tölur í fjárlögin. Háttv. þm. Seyðf. (B. Þ.), sagði að eg gleddist yfir því, að tekjur landssjóðs yrðu minni en áætlað er. Þetta er að snúa út úr orðum mínum. Eg gleðst ekki yfir slíku og hefi aldrei látið neina gleði í ljósi yfir því. Eg gæti eins vel haldið því fram, að háttv. þm. gleddist sjálfur yfir því, að áfengistollurinn yrði sem hæstur, þótt því auðvitað fylgdi það, sem honum er verst við, nefnilega að mikið væri drukkið. Víntollurinn verður alls ekki eins mikill eins og áætlað er, því að kaupmenn kaupa ekki eins mikið vín, eins og ráð er gert fyrir. Danir vilja auðvitað gjarnan selja öl sitt og brennivin, en svo fúsir eru þeir þó ekki til þess, að þeir vilji kasta því frá sér út í hreina óvissu eða vonleysu, að því er borgun snertir, og margir kaupmenn hafa alls ekki það lánstraust, er þarf, til þess að geta haft fleiri ára birgðir, og verða því að hætta vínsölu eftir þetta ár. Þori eg vel að skjóta þessu undir dóm þeirra, er skyn bera á.