03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Framsögumaður (Björn Þorláksson):

Eg skal taka útgjaldagreinarnar, sem nú eru til umræðu, í réttri röð.

Það er þá fyrst 9. greinin. Við hana hefir nefndin enga breytingu gert. En háttv. l. þm. G.-K. (B.Kr.), hefir gert breytingartillögu við 6. lið hennar. Landsbankinn hefir um nokkur ár haft á hendi gjaldkerastörf fyrir landssjóð og hafa samningar verið um þetta. Nú hefir bankastjórnin skýrt nefndinni frá, að bankinn skaðist af að hafa þetta starf lengur á hendi, nema hann fái meiri borgun, og sendi nefndinni áætlun yfir kostnaðinn. Breyt.till. þingmannsins hljóðar svo, að bankinn fái 5000 kr. á ári. Það er ósanngjarnt, að bankinn hafi skaða af því að vera gjaldkeri landssjóðs, en hann á heldur ekki að græða á því, og nú leggur nefndin með því, að bankinn fái borgað alt að 5000 kr. hvort árið eftir reikningi. Við 10. gr. er ekkert athugavert.

Við 11. gr. hefir nefndin gert smábreytingar og er skýrt frá þeim í nefndarálitinu og þar er gerð grein fyrir þeim, og vísast því til þess. Þó álitið sé stutt, þá munu menn samt skilja hvað fyrir nefndinni hefir vakað og eyði eg því ekki fleiri orðum að því.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) hefir komið með breytingartillögu á þingskjali 360 við staflið 8 við 11. gr., B—6 um að hækka styrkinn til eftirlits með fiskveiðum útlendinga úr landi. Nefndinni höfðu borist bréf úr 3 stöðum, um að fá styrk til þess að líta eftir fiskveiðum útlendinga; frá Faxaflóa, undan Jökli og af Vesturlandi. Nefndin vildi veita 500 kr. í hvern staðinn eða 1500 kr. alls, gegn því, að jafnmikið fé kæmi annarstaðar frá, frá þeim, sem óskuðu strandgæzlunnar, og yrðu hennar aðnjótandi. Nú vill háttv. 1. þm. G. K. (B. Kr.) hækka styrkinn upp í 3000 kr. og fella niður athugasemdina eða skilyrðið. Nefndin hefir athugað þessa breytingartillögu en getur ekki fallist á hana, en heldur fast við sína tillögu.

Við 12. gr. hefir nefndin komið fram með ýmsar breytingartillögur, en það er óþarfi að fara út í hverja einstaka af þeim sérstaklega. Aðalbreytingin er þar að lækka styrkinn til Vífilsstaðahælisins úr 25000 kr. niður í 18000 kr., og er það sama upphæð og veitt er árið 1911 á gildandi fjárlögum og á fjáraukalögum s. á. samtals. Ástæðurnar í nefndarálitinu við fjáraukalögin voru stuttar og eg skýrði einnig stuttlega frá ástæðunum í framsögunni, en orð mín voru þá misskilin af einum háttv. þm. (E. P.), en eg hafði ekki tækifæri til þess að leiðrétta það þá, þess vegna vil eg nota tækifærið nú. Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.), hélt eg hefði lagt til, að meðlag með sjúklingunum yrði hækkað til þess að auka tekjurnar. Það er misskilningur. Eg benti að eins á, að ef meðlagið á dag væri hækkað t. d. um 50 a., þá yrði það gífurlegur tekjuauki. Í sambandi við þetta skal eg geta þess, að eg og annar maður í félagi með mér, munum koma fram með breytingu á fátækralögunum, um að hreppurinn styrki fátæka sjúklinga til þess að leita sér heilsubótar eftir læknisráði, án þess að slík hjálp sé reiknuð sem sveitarstyrkur eða hafi í för með sér neinn réttindamissi. Fleiri mundu njóta góðs af hælinu, ef fátæklingum væri á þann hátt gert mögulegt að komast þangað, jafnvel þó meðlagið væri hækkað úr því, sem nú er. Að öðru leyti held eg því fram fyrir nefndarinnar hönd, að breyt.till. hennar verði samþykt, að hælinu séu veittar 18000 kr. hvort árið, en ekki 25000 kr., eins og stjórnin hefir stungið upp á. Ef hælinu verða veittar 25000 kr., þá hafa aðstandendur þess minni hvöt til þess að afla því tekna með gjöfum og tillögum. Af þessari ástæðu verð eg að halda fast við tillögu nefndarinnar.

Við 12. gr. hafa komið fram 4 brtill., en nefndin hefir ekki viljað sinna þeim, nema ef vera kynni þeirri síðustu. Og er það tillagan á þgskj. 349, um styrk til Önnu Magnúsdóttur, til að geta haldið áfram að vera á ljóslækningastofnun Finsens í Kaupmannahöfn. Hefir það orðið niðurstaðan hjá nefndinni, að hún mundi ekki verða mótfallin að láta stúlku þessa verða einhvers styrks aðnjótandi, enda stendur líka sérstaklega á hér.