03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Bjarni Jónsson:

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.), hefir þegar tekið fram það, sem eg ætlaði að segja. Það er ekki rétt, sem fullyrt hefir verið, að Björn Ólafsson hafi farið frá embætti með eftirlaunarétti. En hann var góður maður og góður læknir og átti vel skilið þau laun, sem hann fékk. Aftur á móti kemur Andrés Fjeldsted úr héraði með 1500 kr. launum og eftirlaunarétti, og er héraðið þar að auki í 5. röð, hvað aukatekjur snertir. Hann missir því miklu meira í, en Björn gerði, og er því óhæfa að bjóða manninum slík laun, sem nefndin fer fram á, nema ef svo er, að menn álíti hann ekki starfinu vaxinn. Andrés stundaði fyrst augnlækningar undir handleiðslu prófessors Bjerrum’s í Khöfn. Síðan var hann 10 mánuði í Englandi og Kristjaníu; þaðan fór hann til Wien og var þar í 5 mánuði. Frá háskólanum í Wien hefir hann fengið góð vottorð, en þar eru taldir einna beztir augnlæknar í Evrópu. Svo sótti hann um styrk til þess að dvelja eitt ár í Wien, en fékk hann ekki; ætlaði hann þá að fara þangað á eigin kostnað, en þá bað landlæknir hann að taka við embætti Björns Ólafssonar. Fór hann þá aftur til Kristjaníu til þess að kynna sér nýjar lækningaaðferðir á »glaucom«. Eg sé því eigi ástæðu til þess að ætla, að maðurinn sé ekki starfinu vaxinn, enda hefir hann ágæt meðmæli. Hann hefir varið alt að 7000 kr. af eigin fé, til þess að fullkomna sig í fræðigrein sinni, svo að óhæft er að bjóða honum einar 1000 kr. í árslaun og meiningarlaust að gera honum slíka óvirðing. Þar að auki hefir hann keypt verkfæri fyrir 1150 kr. og ennfremur verkfæri Björns Ólafssonar. Hann hefir altaf búist við að fá sömu laun, sem Björn Ólafsson hafði, og þess vegna fór hann úr héraði sínu, þar sem hann hafði ágætar tekjur.

Einn þm. hefir amast við styrknum til Þorv. læknis Pálssonar, en eg ímynda mér, að það stafi af því, að hann er magaveikur þessa dagana. Þorvaldur ætti að vera hér til þess að lækna hann. Frá því sjónarmiði væri það því mjög æskilegt, að skapið batnaði í oss, bæði Reykvíkingum og þeim þingmönnum, sem hjá oss dvelja um stundarsakir. Þetta segi eg meira í spaugi við háttv. 2. þm. Rangv (E. J.). En í alvöru að tala eru magasjúkdómar mjög erfiðir viðfangs, og verða menn oft, vegna læknisleysis í þeirri grein, að fara til útlanda og leita sér þar að bót meina sinna. Sérfræðingar hafa öll tæki betri en venjulegir læknar, og geta bæði þess vegna og betri þekkingar sinnar bætt það, sem aðrir ganga frá. Mér er jafnvel sagt, að sjúklinga með krabbameini í maga takist að bæta svo, að þeim líði vel í 2—3 ár, og er það ekki lítils vert. Eg hefi ekki getað skorast undan að flytja þessa tillögu. Stjórnin sem var, hefir ekki, og því síður sú sem nú er, haft tækifæri til að hugsa um þessa tillögu. En hér í Reykjavík er brýn þörf á því að hafa sérfræðing í maga- og þarmasjúkdómum; þeir sjúkdómar eru einna tíðastir allra sjúkdóma.

Það hefir verið minst á styrkinn til Vífilstaðahælisins, og eg hefi vikið að því, að ekki væri rétt að lækka hann. Sú ástæða, að fólk muni gefa meira, ef styrkurinn er lágur, er lítils virði. Eg ímynda mér, að 25 þús. kr. sé ekki of mikið. Þeir, sem gera slíkar áætlanir, eru vanir að hafa þær fremur of lágar, en of háar. Það má ekki spara við hælið. Þar verða að vera nógar vistarverur handa fátæku fólki, svo að það sé ekki heima og sýki út frá sér.