03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Framsögumaður (Björn Þorláksson):

Háttv. 1. þm. N.-Múl. (J.J.) mælti kröftuglega fram með breyt.till. sinni, er fer fram á byggingarstyrk handa lækninum í Hróarstunguhéraði. Eg vildi feginn geta verið með þessu, því að þetta er nú í minni sýslu, en eg get það ekki. Það er ekki siður hér á þingi, að veita styrk til læknabústaða, enda getur þetta verið varasamt fordæmi, því ef þetta fengist, þá mundi koma beiðni um slíkt úr fjölda mörgum stöðum á landinu. Þm. tók fram, að ef læknirinn, sem nú er þar, fengi ekki þennan styrk til byggingar, þá mundi hann fara, og áður hefði verið annar, sem mundi hafa farið af svipuðum ástæðum. Eg held nú að ekki þurfi að kvíða þessu. Það var öðru máli að gegna, þegar læknahéruðin, svo og svo mörg, stóðu óveitt. Nú geta læknarnir ekki lengur sett mönnum stólinn fyrir dyrnar, heldur munu þeir sætta sig við að verða kyrrir, þótt ekki fáist styrkur til byggingar. Mér finst að hér eigi að gera ráð fyrir hinu sama, sem um aðra embættismenn. Prestarnir verða t. d. að byggja sjálfir upp handa sér. Læknarnir eiga að geta gert það líka, og ef þessi læknir getur það ekki, en er þó góður læknir, þá hygg eg að þeir, sem þurfa að nota hann, mundu hlaupa undir bagga með honum. Nefndin leggur því í heild sinni móti þessari fjárveitingu.

Annað, sem eg vildi minnast á, var breyt.till. háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) á þgskj. 360 um eftirlit úr landi með fiskveiðum útlendinga. Hún fer fram á að hækka styrkinn til þessa og nema burt skilyrðið, sem fyrir honum er sett, og hafa þeir, þessi hv. þm. og hv. þm. Snæf. (S. G.) talað um það á líkan hátt. Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) hefir nú reyndar tekið af mér það ómak, að svara þessu, svo að eg hefi litlu við orð hans að bæta um það mál. Fjárhagur landsins nú leyfir það ekki, að farið sé að hækka þennan styrk upp í 3 þús. kr. En ef hann er aðeins hafður 1500 kr., og skilyrðinu slept, þá væri það of lítið, að skifta í 3 staði, 500 kr. í hvern. Nefndin verður því að vera með sinni tillögu óbreyttri.

Þá er önnur breyt.till. frá sama háttv. þm. um styrk til þess, að styrkja sjúklinginn Önnu Magnúsdóttur á lækningastofnun N. Finsens. Eg skal játa, að þetta er viðkvæmt mál, og leiðinlegt að verða að neita um annað eins. En með því að nefndin hafði ekki tækifæri til að athuga varatillöguna í þessu máli, skal eg ekki svara neinu fyrir hennar hönd. Eg býst við, að ekki verði tekið illa í að veita eitthvað við 3. umræðu, og vildi eg skjóta því til háttv. flutningsmanns, hvort hann vill ekki taka till. aftur nú, en auðviðað ræður hann því sjálfur. En eg get fyrir mitt leyti lýst yfir því, að eg er nú á móti öllum þess háttar breyt.till. í öllum myndum.

Þá er breyt.till. nefndarinnar um að færa niður styrkinn til Andrésar Fjeldsted í 1000 kr. hvort árið. Móti henni hafa tveir háttv. þm. talað, 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) og þm. Dal. (B. J.), hvor á sinn hátt. Annar sagði, að nefndin mundi engan augnlækni vilja hafa, en því vísa eg frá mér og henni og neita því algerlega, enda hefði þá allur fjárstyrkur verið feldur niður handa þessum manni. Háttv. þm. Dal. (B. J.) gaf í skyn, að till. okkar bæri vott um það, að nefndin áliti manninn óhæfan til starfa síns, og væri þá eins gott að veita ekkert. Eg skil ekkert í þessum getsökum, sem ekkert hafa við að styðjast, og eru bæði ósæmilegar og óþingmannlegar. Það sem bygt verður á hér, er það, að á sínum tíma voru Birni Ólafssyni veittar 2 þús. kr., en eins og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) tók fram, það stóð öðruvísi á þá, þegar fáir voru læknar í landinu, og störf því betur launuð, en landssjóður getur gert nú. Þegar Björn heitinn fór hingað, hafði og enginn hugmynd um það, hve vel þetta mundi borga sig. Nú vita menn að hann varð fjáður maður á því, og því hefir það ekki við rök að styðjast, að augnlæknir geti ekki lifað hér með 1000 króna árslaunum, eða að það séu ekki sæmileg laun. Annarhvor þessara þm. sagði, að maðurinn mundi fara, ef hann fengi ekki það sem hann vildi hafa. Það getur vel verið, en um það vissi nefndin ekki, þegar hún komst að sinni niðurstöðu. Eg vil líka geta þess, að þótt ástæða kunni að vera til þess, að gera mun á þessum sérfræðingi og öðrum, t. d. tannlæknum, þá er líka allmikill munur á einu þúsundi og tveim. Og ef full vissa væri fyrir því, að þúsund sé of lágt, þá væri vert að athuga hvort ekki væri rétt að veita 1500 kr. Það er nú ekki hægt á þessu stigi málsins, en muna má það til 3. umr.

Þá er breyt.till. um að veita Þorvaldi Pálssyni sérstakan styrk til þess að setjast hér að. Eg býst við, að það sé þarflegt að fá góðan lækni í þeim sjúkdómum, sem hér er um að ræða, en eg held að efnahagur landssjóðs leyfi ekki að bæta ekki að bæta við sig nema einum sérfræðingi á ári. Nú er einn kominn í ár, og mætti þá geyma þetta til næsta þings, og verður því að leggja á móti þessari breyt.till.

Svo vildi eg segja örfá orð um Vífilstaðahælið út af orðum háttv. þm. Dal. (B.J.). Hann tók orð mín svo, sem eg héldi, að hælinu mundi gefast minna, ef till. stjórnarinnar yrði samþykt. Það sagði eg aldrei, heldur hitt, að ef þessar 25000, sem samkvæmt áætlun vantar enn á kostnaðinn, verða þegar veittar úr landssjóði, þá miðar það til þess, að taka burtu hvötina til að safna fé til þess, og þetta ætla eg að standa við. Meðan stjórn hælisins sér að fé vantar, þá er það sterk hvöt fyrir hana til þess að safna gjöfum og tillögum meðal landsmanna.

Annars skulu menn ekki skilja orð mín svo, sem eg vilji leggja móti Vífilstaðahælinu, því fer fjarri. Hvað viðvíkur breyt.till. frá háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) um 500 kr. styrk hvort árið til læknis í Bolungarvík, þá skal þess getið, að nefndin var öll á móti því, nema háttv. flutningsmaður breytingartillögunnar. Bolungarvík er örskamt frá Ísafirði, og þar eru tveir læknar, það væri ekki réttlátt í samanburði við aðra hluta landsins að veita þetta. Á síðasta þingi voru 3 ný læknishéruð stofnuð á Vestfjörðum. Ef þetta kauptún ætti að fá lækni, þá þekki eg 2—3 kauptún, sem hefði eins mikinn rétt til þess að krefjast hins sama. Þykir mér því viðurhlutamikið að verða við þessari beiðni, og verður að leggja móti henni.