03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Björn Kristjánsson:

Það eru mörg málefni, sem þörf er á að tala fyrir. Eg ætla þó að eins nú að tala fyrir þeim skóla, Flensborgarskólanum, er hæstv. ráðherra talaði fyrir. Mér þykir hart að þurfa að verja Flensborgarskólann á hverju þingi, og er þetta 6. þingið sem eg tek til máls til þess að halda uppi vörn fyrir hann. Þessi fyrirhöfn mín hefir ávalt borið árangur, svo gott hefir málefnið verið og hefir þingið því ávalt veitt fé til hans. Skólinn hefir nú staðið nálægt 40 árum og trúi eg því ekki fyr en eg tek á, að þingið fari að kippa að sér styrkveitingu þeirri, er hann hefir notið. Háttv. frsm. (B. Þ.) tók fram, að það væri skylda hreppa og félaga að leggja fram fé til ýmsra fyrirtækja, og að nefndin hefði hert á þessu. Það má auðvitað binda fjárveitingar til fyrirtækja því skilyrði, að sýslur, hreppar eða félög leggi einnig fram fé til þeirra. En þetta á ekki að gera við fjárveitingu til skóla, sem hefir staðið í 40 ár, og ekkert fé hefir haft að styðjast við að kalla má, nema landssjóðsfé. Eg hefi áður tekið þetta skýrt fram á síðustu 5 þingum. Allar tekjur skólans af eign sinni eru um 180 kr. á ári. Auðvitað væri hægt að auka þær, ef skólinn leigði út húsnæði, sem nú er notað til heimavista fyrir utanbæjarmenn. En slíkt væri tap fyrir þá, er njóta góðs af heimavistunum. Þess ber einnig að gæta, að þingið getur alls ekki skyldað Hafnarfjarðarkaupstað til þess að leggja fram fé til skólans. Skólinn er gömul stofnun og stofnaður fyrir rausnarlega gjöf látins merkismanns, síra Þórarins Böðvarssonar. Skólinn er sá eini skóli, sem er við fátækrahæfi. Námstímanum er svo varið, að fátækir geta sótt skólann og geta þeir unnið sér það inn á sumrum, sem skólaveran kostar þá. Eg hefi gert kostnaðaráætlun um þetta. Eg bar á síðasta þingi kostnaðinn við námið í þessum skóla saman við kostnaðinn við námið í öðrum skólum hér á landi. Má eg til að rifja þetta upp aftur. Árið 1908 voru 83 nemendur í hinum almenna mentaskóla, 94 í Akureyrar gagnfræðaskóla, 57 í kvennaskólanum í Reykjavík og 79 í Flensborgarskólanum. Landssjóðstillagið á hvern nemanda var í hinum almenna mentaskóla kr. 397.21, Akureyrar gagnfræðaskóla kr. 133.00, kvennaskólanum í Reykjavík kr. 77.17 og Flensborgarskólanum kr. 65.00. Landssjóðstillagið á hvern nemanda um mánuðinn var í hinum almenna mentaskóla kr. 54.13, í Akureyrar gagnfræðaskóla kr. 15.16, í kvennaskóla Reykjavíkur kr. 10.29 og í Flensborgarskólanum kr. 10.83, kostnaður hvers nemanda á mánuði var í hinum almenna mentaskóla kr. 42.50, í Akureyrar gagnfræðaskóla kr. 25.00, í kvennaskóla Reykjavíkur kr. 40.00 og í Flensborgarskólanum kr. 21.00. Kostnaður hvers nemanda um skólaárið var í hinum almenna mentaskóla kr. 382.50, í Akureyrar gagnfræðaskóla kr. 200.00, í kvennaskóla Reykjavíkur kr. 300.00 og í Flensborgarskólanum 126.00. Námstíminn var í hinum almenna mentaskóla 9 mánuðir, í Akureyrar gagnfræðaskóla 8 mánuðir, í kvennaskóla Reykjavíkur 7½ mánuður og í Flensborgarskólanum 6 mánuðir. Skólakostnaður fyrir hvern nemanda var í hinum almenna mentaskóla kr. 779.71, í Akureyrar gagnfræðaskóla kr. 333.00, í kvennaskóla Reykjavíkur kr. 377.17 og í Flensborgarskólanum kr. 191.00. Landssjóðstillag og nemanda í 6 mánuði var í hinum almenna mentaskóla kr. 519.78, í Akureyrar gagnfræðaskóla kr. 240.96, í kvennaskóla Reykjavíkur kr. 301.74 og í Flensborgarskólanum kr. 191.00. Á þessum samanburði sést, að efnalausir alþýðumenn geta sótt Flensborgarskólann. Nefndin hefir getið þess, að 30 nemendur af 70 hafi verið úr Hafnarfirði og Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þetta hefir ekki verið athugað fyr. Og þó að það komi eða hafi komið fyrir, að bæjarmenn sæki meira skólann en aðrir, þá er það ekki víst, að þeir ílengist þar í bænum. Þeir geta vel dreifst út um land alt. Auk þess er það til góðs fyrir landið, þó menn séu betur mentaðir á einum stað en öðrum. Svo framarlega sem styrkveitingin til skólans verður lækkuð, verður það til þess, að enginn utansýslunemandi fái heimavist. Á þessu ári hefir skólinn haft 70 nemendur, og þeir hafa verið úr öllum sýslum landsins, nema 2.

Eg hefi tekið það fram áður, en eg endurtek það nú, að ef styrkurinn er lækkaður úr því, sem hann er nú, þá fá engir heimavist í skólanum, og það mundi verða mikill bagi fyrir fátæka alþýðumenn hér á landi. Þingið ætlast til þess, að Hafnarfjarðarbær borgi þessar 2000 kr., sem á vantar til þess að skólinn geti starfað, en Hafnarfjarðarbær getur það ekki. Hann hefir alveg nýskeð fengið bæjarréttindi, og er nú að reisa sig úr flagi. Hann hefir nýlega bygt stóran og veglegan barnaskóla, og verður nú að sjá honum farborða. Nýskeð varð bærinn að kaupa undir sig grunn fyrir 35,000 kr., og þar sem hann skuldar alla þá upphæð, virðist hann hafa nægilegt á sínu baki. Einnig hefir bærinn komið á fót hjá sér vatnsveitu og raflýsingu, sem hann einnig stendur í skuld fyrir. Þetta eru stórfyrirtæki, og bæjarfélagið er það skuldugt, að það getur ekki bætt á sig neinum slíkum skatti. Ef þessi niðurfærsla á styrknum verður samþykt, þá fara allir þingmenn heim með þeirri meðvitund, að þeir vita ekki, hvort skólinn lifir eða deyr. Þeir geta alveg átt það á hættu, að þessi um 40 ára gamli skóli deyi, og eg veit þeir vilja ekki vinna það til fyrir 2—3 þúsund kr. Styrkur sá, sem skólanum hefir verið veittur undanfarið, hefir ekki hrokkið fyrir útgjöldunum. Skólinn skuldar nú víxillán, sem nemur 800 kr., og reikningshaldara skólans skuldar hann 1200 kr. En skólinn hefir einnig orðið að borga af þessum 7000 kr., sem hann hefir fengið, vexti og afborgun af gömlum skuldum 1700 kr. á ári. Hér á landi er það ekki nóg, að einn skóli verði 20—30 ára gamall, ef hann er stofnaður af einstökum mönnum. Hver stofnun geldur þess í 20—30 ár, ef hún er sett á stofn af einstökum mönnum. Þannig er »privatinitiativið« launað hér hjá okkur. En ef skólinn er stofnaður og kostaður af landsfé, þá er alt veitt fyrirstöðulaust. Nýlega hafa verið veittar 4150 kr. að eins til þess að ditta að Akureyrarskólanum, og þó það sé dýr skóli, þá tel eg þetta ekki eftir, því það er ekki vert, að fjárveitingin sé skorin við nögl, ef hún gerir gagn. Auðvitað er Akureyrarskólinn að tiltölu miklu dýrari fyrir landssjóð en Flensborgarskólinn. Eg vonast til þess, að fjárlaganefndin athugi þetta vel og hugsi vel um, hvort þessi braut, sem hún er nú að ganga inn á, muni líkleg til framfara landi og lýð. Eg skil það vel, að fjárlaganefndin hefir svo mörg mál til meðferðar, að hún hefir ekki nægilegan tíma til þess að gagnhugsa þau öll. Það væri því eðlilegt, þó hún héldi ekki mjög fast við þessa nýju uppástungu sína, að minsta kosti eigi fyr en hún hefir fengið skýringar við umræðurnar í deildinni.

Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni, en vona, að þingið veiti þennan styrk, eins og það hefir gert áður.