03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Sigurður Gnnnarsson:

Eg á breyt.till. við 13. gr. á þskj. 383. Hefi lýst því yfir áður, að eg hefi tekið 4. lið aftur. Eru þar því aðeins liðir, sem mér heyra til og tel miklu máli skifta.

Annar er um símalagningu vestur á Snæfellsnes. Síðan sími kom hér til lands eru nú liðin 5 ár. Gekk það ekki orðalaust af. Allir könnuðust við nauðsyn þess að komast í hraðskeytasamband við önnur lönd, en um aðferðina var þráttað. Vildu sumir ritsíma og talsíma en aðrir loftskeyti. Eg skal ekki fara út í þráttanir, en kannast við, að þá hafi mjög mikið framfaraspor verið stígið, þótt dýrt hafi það reynst. Síðan línan frá Seyðisfirði norður um land til Reykjavíkur var lögð hefir verið bætt við 10 álmum um flestar sýslur landsins. Áður en þetta þing kom saman, þá voru ekki aðrar sýslur eftir en Skaftafellssýslur, Vestmanneyjar og Snæfellsnessýsla símalausar. Eins og menn muna, þá lagði stjórnin 1909 til, að sími væri lagður frá Borðeyri til Stykkishólms. Náði það ekki fram að ganga, þótt við það væri kannast, að þörfin væri mikil, eina ástæðan er við var barið, var fjárþröng.

Hin nýfráfarna stjórn tók aftur fjárveitingu til síma vestur til Stykkishólms á fjárlög þau, er nú ligga fyrir þinginu, en af því henni var kunnugt, að flestir sýslubúar óskuðu, að hann yrði lagður frá Borgarnesi en ekki Borðeyri, hallist hún að hinu áðurnefnda.

Hin háttv. fjárlaganefnd hefir aftur á móti hallast að leiðinni frá Borðeyri til Stykkishólms, og nú sé eg, að hún hefir loks gjört viðaukatill. um það, að lengja línuna frá Stykkishólmi að Hjarðarfelli, sem var varatillaga mín. Hins vegar hafði eg leyft mér að leggja til sem aðaltillögu, að síminn yrði lagður í einu lagi og alla leið til Ólafsvíkur. Er það auðsætt, að að því kemur bráðlega hvort sem er, að það verður að leggja síma þangað. Mundi það kosta að auki 28000 kr. Til stuðnings því, að aðaltill. mín sé á rökum bygð, skal eg benda á ummæli landssímastjórans um þetta mál, og vil því með leyfi hæstv. forseta lesa upp kafla úr bréfi frá honum til mín um þetta efni. Hann segir:

»Eg er þingmanninum sammála í því, að bezt væri fyrir Snæfellsnes að byggja línuna frá Stykkishólmi og vestur í Ólafsvík, samstundis og línuna frá Borðeyri til Stykkishólms, bæði með tilliti til lagningskostnaðar, en sérstaklega vegna sýslutillagsins til línanna. Þingmaðurinn og sýslumaður Snæfellinga hafa sagt mér, að það sé áreiðanlegt, að sýslunefndin vilji ekki leggja fram hið umbeðna tillag til línanna, 7000 kr., ef hún verður ekki lögð lengra en til Stykkishólms, en einnig er mjög skiljanlegt, að þetta muni breytast, þegar línan verður samstundis framlengd til Hjarðarfells og um Búðir til Ólafsvíkur. Að eg tók ekki Ólafsvíkurlínuna með í lagningaruppástungu minni, hinni fyrri, var aðeins af sparnaðarástæðum. Þó vil eg nú, samkvæmt því sem fram er komið í þessu máli, stinga upp á framlenging línunnar til Ólafsvíkur, um leið og línan verður lögð til Stykkishólms, um leið og eg tek það fram, samhliða því sem áður er nefnt, að stjórnin ætti að taka sem allra mest tillit til sanngjarnra óska og tillagna frá héraðsbúum í málum, eins og þessu, þar sem viðkomandi hérað er skyldað til að kosta sinn hluta lagningarinnar og taka þátt í rekstursútgjöldunum. Eins og nú stendur á, nær það heldur ekki tilganginum að setja skilyrði fyrir fjárveitingunni til Stykkishólmslínunnar, sem fyrir fram hefir verið bent á, að ekki er hægt að fullnægja. Eg álít, að línan ætti að vera lögð frá Stykkishólmi yfir Kerlingarskarð og Staðarsveit til Ólafsvíkur, þetta er örugg símaleið og hefir margt til síns ágætis fremur nyrðri leiðinni yfir Grundarfjörð«.

Þetta eru tillögur símastjórans.

Eins og sést af tillögum mínum, þá hefir verið sett sem skilyrði 12000 kr. tillag frá héruðunum.

Eg vil benda á, að sími til Stykkishólms bætir lítið úr; hitt þó nokkur bót, ef það næði fram að ganga, að lögð væri lína nú þegar að Hjarðarfelli, eins og varatillagan fer fram á. Eg vil nú samt biðja háttv. deild að virða fyrir sér, hvort ekki sé réttlát sanngirniskrafa, að síminn væri í einu lagður alla leið til Ólafsvíkur. Þar úti á nesinu eru aðal fiskiþorpin við Breiðaflóa, og mundi það lyfta undir alla verzlun þar og fiskveiðar, ef þau fengju að ná til síma. Ef dregin er lína yfir nesið um Grundarfjörð, þá búa þar fyrir utan fast að helmingi allra héraðsbúa, sem mestmegnis lifa á fiskiveiðum. Sömuleiðis mundi það létta mikið undir með strandgæzluna, ef þar væri símastöð komin, því þá væri jafnan hægurinn hjá að koma skeytum til varðskipsins. Strandgæzla hefir þar verið af mjög skornum skamti til þessa, og botnvörpungar oft gert mikinn usla. En að mörgu öðru leyti gæti orðið gagn af síma á þeim stöðum. Það er ef til vill ekki von, að þeim háttv. þm., sem búa í héruðum, sem þegar hafa fengið síma, taki símaleysið eins sárt og okkur, sem búum í símalausum héruðum. En það er ljóst, að því lengra sem það dregst, að þessi héruð fái síma, því meira dragast þau aftur úr öðrum héruðum í samkepninni, og það er hið stakasta ranglæti. Kaupmenn í þeim héruðum segja, sem rétt er, að þeir séu miklu ver settir nú en þegar landið var ekki í neinu símasambandi. Eg vona samt, að fjárlaganefndin skilji það ekki svo, að eg sé henni vanþakklátur, þótt eg haldi fast við aðaltillögu mína. Tillaga nefndarinnar er þó spor í áttina, en fjárframlag það, sem heimtað er af sýslunni, þykir mér í hæsta lagi, einkum þegar þess er gætt, að tillög sýsla til síma í einstaka hlutum landsins, er hið hreinasta ranglæti. Þau héruð eiga engu síður heimting á síma, útgjaldalaust, en önnur, því að þau hafa borgað alveg jafnt í landssjóðinn og hin. Það er siðferðisleg skylda þingsins að leggja fram féð, ekki sízt, þar sem hér er um arðsamt fyrirtæki að ræða, því að ef menn athuga það, þá hljóta þeir að sjá, að það yrðu ekki litlar tekjur af þessum stöðvum. Miklu fleiri skip innlend og erlend mundu koma sérstaklega inn á Ólafsvík og Grundarfjörð til að nota símann. Það úir og grúir af botnvörpungum þar fyrir framan, á hinum auðugu fiskimiðum, svo að óhætt er að fullyrða, að símalína þessi mundi vel borga sig. En því sjálfsagðara er, að þingið sinni nú loks kröfum um símalagningu alla leið til Ólafsvíkur, sem héraðinu er gert að skyldu að leggja mikið fé til. Vegna þess, að breyt.till. eru margar, sé eg ei ástæðu til að eyða fleirum orðum um þetta mál, eg veit, að menn muni hljóta að vera því fylgjandi. Að eins skal eg bæta því við, hversvegna eg nú er fylgjandi leiðinni frá Borðeyri til Stykkishólms. Það kemur til af því, að eg varð að beygja mig fyrir rökum símastjórans og fjárlaganefndar. Það væri öruggara samband við Reykjavík og Vestfjörðu, þar sem lagður hefir verið þegar tvöfaldur koparþráður að Sveinatungu og þaðan er víst, að einnig verður lagður tvöfaldur koparþráður til Borðeyrar, og síðar milli Ísafjarðar og Borðeyrar. Þá er alt í bezta lagi að því leyti.

Þá kem eg að breyt.till. minni á sama þingskjali, þar sem farið er fram á, að á eftir tillaginu til Mosfellsheiðarvegar komi 8000 kr. hvort árið til Stykkishólmsvegarins með brú á Haffjarðará. Eg skal geta þess, að vegaverkfræðingurinn hefir tekið þetta upp í tillögur sínar til stjórnarinnar, með sömu upphæð, 8000 kr. hvort árið. Tillögur hans eru skynsamlegar og góðar, og mér er ekki vel ljóst, hversvegna háttv. nefnd hefir kipt þessari fjárveitingu einni burtu af þeim fjárveitingum, sem verkfræðingurinn fer fram á. Eg skil ekki, hversvegna þingið vill nema staðar, einmitt þegar komið er að verstu torfærunni. Háttv. þm. ættu að vita, að með lögunum frá 1899, er vegurinn milli Borgarness og Stykkishólms orðinn þjóðvegur, og landssjóður á því að kosta hann að öllu leyti. Síðan eru nú liðin 12 ár, og vegurinn ei kominn lengra en gegnum Kolbeinsstaðahrepp, og tæplega það, því að ennþá vantar spotta að Haffjarðará, sem er versta torfæran, ásamt nokkrum kafla þar fyrir vestan. Það eru ekki viðeigandi orð, þegar um þennan veg er að ræða, sem eg hefi heyrt nýlega, að þjóðvegir skuli standa neðar en flutningabrautir, vegna þess að gagnið af þeim sé ekki eins mikið. Þetta getur satt verið, ef vegurinn er að eins lagður með það fyrir augum, að hann sé greiðfær lausríðandi manni. En þessi vegur á að vera akfær. Það hefði verið of mikið fé til hans lagt, ef ætlast hefði verið til, að hann yrði að eins reiðvegur eða skemtivegur. Mér finst það því óneitanlega hart, að þingið skuli nú kippa að sér hendinni 12. árið, því altaf hefir það þó lagt eitthvað til vegarins — og einmitt nú, þegar vegurinn er þetta kominn og einmitt eftir að brúa verstu torfæruna og koma veginum vestur fyrir Hafursfell. Brúin kostar ekki meir en 12 þús. kr. Eg vona því, að háttv. deild sjái, að breyt.till. þessi er ekki fram komin að ófyrirsynju, og hún þolir vel samanburð við aðrar. T. d. er mikið fé áætlað til Borgarfjarðarbrautarinnar, en þar sýnist nú vel að verið, þótt ekki sé lagt fram nema 10 þús. kr. fyrra árið, þar sem nýlega er gerð 30 þús. kr. brú á Norðurá, auk annara dýrra vegagerða. Eg er alls ekki að mæla á móti tillagi til þessa vegar, en held þó, að ekki sé meiri ástæða til að vera með stöðug fjárútlát til hans, en að halda áfram dálítið lengra vestur á bóginn. Enn er eitt, sem mælir með þessari tillögu minni, að íbúarnir í þessum héruðum eiga mjög langt til læknis, og það getur riðið mjög á lífi manna að komast vestur yfir ána eða suður. Eg á enga breyt.till. við fjárlögin og ætla ei að koma með neina, sem hljóðar upp á nafn, því að eg álít fjárhag vorum nú svo háttað, að við séum neyddir til að skera nokkuð við nögl, jafnvel í því, sem lýtur að aukinni framleiðslu og bættum samgöngum, hvað þá fjárveitingum til einstakra manna. Þó á eg undir 5. lið á 383, 13 E III, meinlausa tillögu um, að laun vitavarðar í Elliðaey, sem eru áætluð 400 kr., séu færð upp í 500 kr. og hefi það fyrir mér, að þessi viti verði, þegar hann nú er fullger, með 2 lömpum, alveg samskonar og vitinn á Arnarnesi við Skutilsfjörð. Stjórnin hefir kannast við, að hin fyrri laun vitavarðarins væru hlægilega lítil og því lagt til, að þau verði færð upp í 400 kr. En þar sem vitavörðurinn á Arnarnesi hefir 500 kr. laun, finst mér og sanngjamt, að ekki sé gerður munur á þessum tveim mönnum. Eg veit, að lengra er frá bæ í vitann á Arnarnesi og vitavörðurinn verður að vera þar stundum nóttina. En móti því kemur aftur það, að Elliðaey, þar sem þessi viti er, er djúpey, fulla viku undan landi, og vörðurinn getur því ekki átt á hættu að fara til lands, nema í blíðviðri um hásumartímann. En maðurinn er hins vegar fjölskyldumaður fátækur, en smiður hinn bezti, er gæti haft mikla atvinnu í landi að öðrum kosti, og sleppir því niður mikilli atvinnu við vitagæzluna, auk þess, sem hann verður að sleppa mörgum fiskiróðri, heimili sínu til bjargar. Tíminn leyfir mér ekki að fara út í fleiri breyt.till., þó vil eg að eins geta þess, vegna þess að eg held að fáir háttv. þm. þekki Hamarsá, að það er alveg rétt, sem háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) sagði um hana. Eg hefi ferðast þar um og veit, að hún getur verið hættuleg yfirferðar. Hún rennur eftir bröttum og þröngum dal, með snjóbrúnum. Eg áleit mér skylt að gefa þessa upplýsingu, þar sem eg gat það, en að öðru leyti verð eg að sýna með atkvæði mínu, hvernig eg snýst við þeim brtill., sem fyrir liggja.