03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Skúli Thoroddsen:

Eins og háttv. þingdeildarmönnum er kunnugt, hefir fjárlaganefndin lagt það til, að 66000 kr. séu veittar til þess að leggja tvöfaldan koparþráð frá Borðeyri til Ísafjarðar, og er það í samræmi við loforð, sem gefin voru á þinginu 1905. Þá var það lagt til í frumvarpi stjórnarinnar, að tvöfaldur koparþráður yrði lagður til Ísafjarðar, en af fjárhagslegum ástæðum þá var því slept á þinginu þá en það var talið sjálfsagt, að næsta þing mundi bæta úr þessu. Á þinginu 1907 fórst það þó fyrir en nú má ekki fresta þessu lengur. Nú eru símtöl við Ísafjörð því nær ómöguleg héðan úr Reykjavík, og þegar eg hefi reynt að tala við Ísafjörð héðan, þá hefir mér verið það ómögulegt. Og að tala héðan til Patreksfjarðar er alveg ókleift, meðan ekki kemur koparþráður til Ísafjarðar. En ef sambandið væri í lagi til Patreksfjarðar, þá mundi það verða mjög arðvænlegt fyrir landssjóð og hann fá mun meiri tekjur af símanum en nú, því til Patreksfjarðar koma árlega fjöldi fiskiskipa, sem mundu nota símasambandið mikið, ef kostur væri á. En meðan Ísafjörður er sama og talsímasambandslaus, þá kemur þetta ekki að fullum notum. Eg vil því leyfa mér að mæla hið bezta með þessari tillögu. Meiri hluti fjárlaganefndarinnar var henni meðmæltur, þó framsögumaður væri henni mótfallinn, og símasambandið til Ísafjarðar er þannig, að það er ekki viðunanlegt lengur.