03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Framsögumaður (Björn Þorláksson.):

Þó eg sé vanur að vera fremur stuttorður, get eg þó ekki orðið það í þetta sinn.

Eg vil þá fyrst leyfa mér að svara háttv. þm. Barð. (B. J.) fáum orðum. Hann fer fram á fjárframlag til að byggja vita á Bjargtöngum og til þess að leggja síma um sitt kjördæmi, en sá er gallinn á, að engin áætlun og ekkert álit hvorki símaverkfræðings eða vitaverkfræðings liggur fyrir. Af þessu hefir fjárlaganefndin ekki séð sér fært að taka þessar fjárveitingar upp á fjárlögin, og verður að leggja á móti því, að þessar fjárveitingar verði samþyktar. Þá nokkur orð viðvíkjandi Eyjafjarðarbrautinni. Fjárlaganefndin áleit að vísu, að hér væri um þarft fyrirtæki að ræða, en það mætti þó bíða til seinni og betri tíma, af því að Eyfirðingar eru svo vel settir, að þeir hafa að vetrinum til akbraut frá náttúrunnar hendi, nefnilega Eyjafjarðará, og þar sem margt þarf að gera, en fé lítið fyrir hendi, þá álít eg það fyllilega afsakanlegt, þó þetta fyrirtæki mæti afgangi, einkum þegar litið er á það, að víðast hvar í Eyjafirði eru góðir vegir. Og þar sem þm. Eyf. kvarta um misrétti, er 20000 kr. hafi verið veittar til Borgarfjarðarbrautar s. á., þá stendur svoleiðis á því, að á þeirri braut þarf að byggja brú, er kostar alt að 20000 kr., svo annaðhvort verður að veita það fé eða ekki neitt; hitt væri meiningarleysa að veita hálft brúarandvirðið.

Hvað viðvíkur veginum í Svarfaðardal, þá hlaut nefndin að vera á móti því, að styrkja það fyrirtæki, þar sem það er sýsluvegur og landssjóði því ekki skylt að styrkja hann, þótt eg hins vegar játi, að mjög sé leiðinlegt að geta ekki veitt fé til þessa vegar, því héraðsbúar hafa sýnt mjög mikinn áhuga á vegabótum. Um till. háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.), er það að segja, að nefndin áleit, að 250 kr. mundu nægja til að halda uppi mótorbátsferðum á Lagarfljóti. Ennfremur ber sami háttv. þm. fram aðra breyt.till. um fjárframlag til þjóðvegarins frá Lagarfljótsbrú að Fossvöllum. Nefndin varð að vera á móti því, að þetta fé yrði veitt, verkfræðingur landsins hefir ekki lagt með því, og þar að auki hefir verið lagt þar mikið fé til vega og nú síðast veitt fé til að brúa Rangá, svo þetta hérað hefir ekki ástæðu til að kvarta að sinni. Af sömu ástæðum og eg hefi áður tekið fram um veginn í Svarfaðardal, hlýtur nefndin að vera á móti till. háttv. þm. Húnv. um styrk til vegar við Svínavatn. Þá hefir háttv. þm. Dal. (B. J.) fundið nefndinni margt til foráttu, og skal eg svara því fáum orðum. Hann sagði, að nefndin hefði lagt til, að styrkurinn til skrifstofu póstmeistara yrði lækkaður. En þar hefir honum skjátlast, eins og í því, að segja, að nefndin hefði lagt til, að meiri hluti botnvörpusektanna skyldi renna í ríkissjóð Dana, að nokkru leyti. Hvorugt þetta hefir nefndin gert, heldur lagt til, að stæði við sama og hefir áður verið. Þá fann hann að því, að nefndin hefði sundurliðað styrkinn til gufubáta og mótorbátaferða, en þetta er ekki nýtt, því nefndin hélt sér við þá sundurliðun, sem áður hafði verið. Þá fann hann að því, að notað er orðið hraðskeytasamband í staðinn fyrir loftskeytasamband. Til þess er því að svara, að orðið »hraðskeyti« getur innihaldið í sér: loftskeyti. Ummælum hans og fleiri þm. um kvennaskólann hér í Reykjavík, Flensborgarskólann og fl. þarf eg ekki að svara, því þar í var ekkert nýtt, heldur gömul upptugga. Fjárlaganefndin hefir lagt til, að blind börn fengi .1.000 kr styrk til að njóta kenslu í Danmörku; þetta skildi háttv. þm. Dal. (B. J.) svo, sem styrkurinn ætti að vera handa börnum í Danmörku, og tók hann fram, að í stað orðanna »í Danmörku«, kysi hann heldur að staðið hefði orðið: »erlendis«. Háttv. þm. hefir ekki þótt vera mikill sparnaðarmaður hér á þingi, en nú sýnir hann, að hann er miklu meiri sparnaðarmaður en við allir, því hann vill nú skifta þessum 1000 kr. milli allra blindra barna erlendis.

Þá á háttv. sami þm. till. um, að þingið veiti fé til að brúa tvær ár fyrir vestan, Ljá og Kjarlaksstaðaá, og hefir hann líklega komið með þessar tillögur í því trausti, að ómögulegt væri að tæma landssjóðinn, en nefndin lítur öðru vísi á, og verður því að vera á móti þessum fjárveitingum. Þá er tillaga sama þm., um að hækka laun magisters Ágústs Bjarnasonar úr 1600 í 1800. Nefndin sá ekki ástæðu til að taka þá tillögu til greina, meðal annars af því, að þessi maður nýtur nú 600 kr. styrks af landssjóði, og vegna þess, að vænta má, að bráðlega verði breyting á kennurum við skólann, og þá fær hann að sjálfsögðu betra embætti. Þá vill sami þm. fá fé handa prestinum á Kvennabrekku til byggingar. Nefndin fekk í hendur umsókn frá presti þessum, þar sem hann kvaðst ekki geta fengið fé lánað til að byggja upp á jörðinni, af því ekki væri enn þá ákveðið, hvort þessi jörð yrði prestssetur framvegis; nefndin hefir athugað þetta, og komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri fært að svo vöxnu máli, að ráða til þess, að umbeðinn styrkur yrði veittur. Sami háttv. þm. fer fram á, að 200 kr. verði veittar til að kaupa fyrir póststimpla, því á nokkrum stöðum hér á landi standi Danmörk á stimplinum í staðinn fyrir Ísland. Eg vil nú að sjálfsögðu ekki hafa Danmerkurnafn á póststimplum hér, en verð þó að vera á móti þessari till. þm., af því, að þegar hefir verið veittur styrkur til þess að kaupa póststimpla.

Háttv. þm. Snæf. (S. G.) vill fá fé til að leggja símalínu um Snæfellsnes alt til Ólafsvíkur, en eg vil leggja áherzlu á það, að símastjóri sagði nefndinni, að mikil bót væri þó síminn lægi ekki nema að Hjarðarfelli, en áleit þó, að hitt mundi borga sig; en þar sem svona er ástatt með fjárhaginn, eins og hv. þm. er kunnugt, þá verð eg að vonast til þess, að háttvirtir þingdeildarmenn verði á móti því að sími þessi verði lagður alla leið til Ólafsvíkur nú, en greiði atkv. með breyt.till. fjárlaganefndarinnar. Að öðru leyti þarf eg ekki að svara þessum háttv. þm.; háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) hefir tekið það ómak af mér. Þá hefir verið talað um kvennaskólann hér í Reykjavík. Þar verð eg að taka í sama streng og háttv. þm. S.-Þing. (P. J,). að ef honum ekki nægir sá styrkur, sem honum hefir verið veittur, þá verði hann að færa saman kvíarnar eða hætta. Þm. S.-Þing. (P. J.) hélt því réttilega fram, að sökum fjárskorts yrði að fresta mörgum nauðsynlegum fyrirtækjum. En hvers vegna er fjárskorturinn svo mikill.? Það er vegna þess, hvernig fór með eitt mál hér í deildinni á síðasta þingi, nefnilega frumv. um farmgjald. Það var felt frá umræðum í efri deild. En ef það hefði náð fram að ganga, þá hefði landssjóður nú verið alt að 400 þús. kr. ríkari, og þá hefðum við ekki þurft að fárast um fjárskort nú. Þetta tek eg hér fram til þess, að menn skilji, hverjir eru í raun og veru valdir að fjárskortinum nú.

Þar sem nú á þessu þingi er þrengra um fjárhaginn, en verið hefir lengi, þá held eg að þetta mætti bíða þangað til 1913. Áður hefir verið tekið fram, að af því að tvöföld lína er til Borðeyrar, þá er betra samband við Vesturland, en t. d. við Austurland.