03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Hannes Hafstein:

Eg á aðeins örfáar breyt.till. og þarf því ekki að vera langorður. Fyrst vildi eg þá minnast á breyt.till. sem fer fram á að hækka námsstyrk til Laufeyjar Valdimarsdóttur. Frk. Laufey er stúdent hér frá Mentaskólanum, en af því að námsgreinar þær, sem hún leggur stund á, eru ekki kendar hér, þá neyddist hún til að sigla, en getur þar ekki orðið neins námsstyrks aðnjótandi. Eins og kunnugt er, er móðir hennar ekkja, sem ekki hefir miklu fé úr að spila; bæði hún og maður hennar Valdimar heitinn Ásmundsson, faðir frk. Laufeyjar, eru þjóðkunn og góðkunn; þó ekki væri á annað að minnast en útgáfuna af Íslendingasögum, sem Valdimar annaðist fyrir afarlágt kaup, en Sig. Kristjánsson gaf út, væri maklegt að barn hans væri fremur látið njóta hans. Móðir hennar stendur, sem kunnugt er, mjög framarlega í kvennréttindabaráttunni, og er alls góðs makleg. Eg skal að vísu játa það góðra gjalda vert af fjárlaganefndinni að vilja unna henni nokkurs styrks, en 300 kr. á ári er of lítið; það vita allir, sem til þekkja, að ómögulegt er að komast af með, jafnvel fyrir kvennmann, og móðir hennar er ekki fær um að styrkja hana svo neinu nemi. Háttv. þm. Dal. (B.J.) og eg áttum tal um þetta við mann úr fjárlaganefndinni, og kvaðst hann ekki mundi verða á móti þessum styrk, ef hann færi ekki fram úr 500 kr. á ári. Þessvegna tiltókum við þá upphæð í breytingartillögunni, þótt 600 kr. eiginlega sé hið minsta, sem af hefði mátt komast með. Vona eg, að háttv. þingdeild lofi þessari breyt.till okkar að ná fram að ganga.

Þá skal eg með fáum orðum minnast á styrkveitinguna til Guðmundar Magnússonar skálds. Eg þarf ekki að lýsa verkum hans, háttv. þm. Mýr. (J. S.) hefir tekið af mér það ómak, enda þekkjum vér allir verk hans, alt landið þekkir þau, og ætti þjóðin atkvæði að greiða mundi það sjást ljóslega, að hún setur hann ekki skör lægra en hin skáldin sem styrks njóta. Mér dettur ekki í hug að telja eftir styrk hinna skáldanna, en mér finst ekki ástæða til að tiltaka lægri upphæð honum til handa og þeir sem ekki eru kunnugir málavöxtum, geta ályktað á þá leið, að alþingi teldi hann ekki nema tveggja þriðjunga gildi á við hina, en þegar hann er búinn að sýna, að hann er með þeim beztu, þá á einnig að láta hann fá styrk jafnt þeim beztu. Frá sjónarmiði þeirra, sem telja það mikilsvert að efla nýjar, íslenzkar bókmentir, er það ekki góð hagsýni að láta þá fáu, sem fram úr skara, neyðast til að verja tíma sínum til annara atvinnustarfa, að láta

t. d. Guðmund Magnússon skáld eyða til venjulegra setjarastarfa þeim tíma, sem hann gæti varið til að skrifa skáldverk, sem margir prentarar, utan lands og innan, munu prenta aftur og aftur, ár eftir ár. Eg vona því, að deildin setji þennan styrk jafnháan og styrkinn til þeirra Þorsteins Erlingssonar og Einars Hjörleifssonar.

Þá er breyt.till. frá mér um að taka aftur upp styrkinn til mag. Boga Melsteð, til að semja Íslendingasögu. Af einhverjum ástæðum, sem eg skal ekki minnast á nú, var þessi styrkur snögglega strykaður út á síðasta þingi. Það má ekki gera ráð fyrir, að það kunni að hafa verið gert í sigurvímu hins nýja meirihluta, meðfram til þess að sýna minnihlutanum í tvo heimana, af því að cand. Bogi Melsteð er annarar skoðunar í pólitíkinni, sérstaklega í sambandsmálinu, en meirihlutaflokkurinn, en nú þegar hitinn er farinn að renna af mönnum, vona eg menn átti sig og líti meira á málefnið. Hr. Bogi Melsteð er sem kunnugt er, ekki búinn að ljúka því verki, sem hann hefir notið styrks til

að undanförnu. Að hætta í miðjum hlíðum að styrkja það, að hið mikla verk, sem hann hefir með höndum, verði fullgert, virðist augljóslega misráðið. Hann er mjög grandvar sagnaritari og sýnir enga dagdóma eða pólitískan lit í ritum sínum. Hann hefir þegar lagt afarmikið starf í aðalverkið, hina stóru sögu sína, og smárit hans, alþýðukenslubækumar, eru góð rit, sem víst eru talsvert notuð.

Þá skal eg leyfa mér að láta í ljós sama álit og háttv. þm. G.-K. (B.Kr.), um styrkinn til dr. Helga Péturss. Það fórst fyrir vegna veikinda, að hann sækti um styrk úr Carlsbergssjóði, er hann hefir notið árlegs styrks af að undanförnu, og væri því mjög bagalegt fyrir hann, ef styrkurinn til hans væri lækkaður nú í þetta sinn. Hann er nú orðinn albata og bezta von um, að hann geti haldið starfi sínu áfram við rannsóknir í sumar, með venjulegri alúð.

Þá að eins fá orð um botnvörpusektirnar. Eg skal ekki sakast um sögur þær, sem logið var upp um leynisamninga af minni hálfu, á bak við alþingi, um hlutdeild Dana í botnvörpusektunum. Allur sá tilbúningur er nú dauður og marklaus, og »þeir dauðu hafa sinn dóm með sér«. Eg vildi að eins gefa nokkrar upplýsingar. Það er eg sannfærður um, að tillögur þær, sem fram eru komnar um að fella burtu þetta ákvæði úr fjárlögunum stafa af ókunnugleika eða röngum upplýsingum. Málið er þannig tilkomið, að árið 1904, þegar Fálkinn var byggður, eftir eindreginni ósk af Íslendinga hálfu, þá sneri fjárlaganefndin í danska þinginu sér til dönsku stjórnarinnar, — ekki til mín —, og bað hana að umgangast það við íslenzku stjórnina, hvort Íslendingar mundu ekki vilja, þar sem þeir, eftir margítrekuðum óskum, fengju nú varðskip nærri alt árið um kring, að einhverju leyti taka þátt í kostnaði þeim, er af strandgæzlunni leiddi. Forsætisráðherra Dana sneri sér þá til mín, og bað mig að bera það fram á alþingi, að sektirnar fyrir landhelgisbrot botnvörpunga rynnu í ríkissjóð Dana. Það kvaðst eg ekki geta gert af því, að eg kynni ómögulega við að ákveða það í lögum, að sektir fyrir brot á íslenzkum lögum rynnu annað en í landssjóð Íslands. Hitt kvaðst eg skyldi reyna að bera fram á alþingi, að heimilað væri í fjárlögum að greiða í ríkissjóð tillag eða þóknun fyrir aðstoð varðskipsins við að koma fram hegningu fyrir landhelgisbrot, þannig, að þóknunin væri árlega miðuð við sektaupphæðina, og jafngilti ákveðnum hluta af henni. En það var okkur báðum auðvitað fullljóst, að til þessara samninga varð alþingi að koma, sem annar aðili máls, og síðar kom svo til mín skrifleg málaleitun, í því skyni, að hún væri lögð fyrir alþingi.

Ef menn vilja fletta upp í Þingtíðindunum 1905, geta menn séð, að þessar málaleitanir hafa komið til fjárlaganefndar, og framsögumaður hennar, sem þá var háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), lýsti því yfir, að nefndin mundi fallast á till. mínar í því máli, og réð deildinni til að samþykkja málaleitunina. Með leyfi forseta skal eg lesa upp dálítinn kafla úr ræðu minni við 2. umr. fjárl. 1905 um þetta efni (Alþt. 1905 B. bls. 136—137):

»Háttv. framsm. gat þess, að eg mundi skýra nánar frá málaleituninni, sem eg hefi fengið viðvíkjandi tillagi til eftirlitsskipsins. Háttv. framsm. gerði sjálfur svo glögga grein fyrir þessu, að eg hefi litlu við að bæta. Eins og hann tók fram, kom sú ósk fram í fjárlaganefnd Þjóðþingsins í fyrra, þegar veittar voru á fimta hundrað þúsund króna til þess að byggja nýtt skip eingöngu til fiskiveiðaeftirlits við Íslands strendur, og þar að auki margir tugir þúsunda til viðbótar við útgerðarkostnað »Heklu« í sumar, að Ísland legði einnig eitthvað af mörkum til lögreglueftirlits þessa, eða að minsta kosti sektir þær, sem inn koma fyrir tilstilli eftirlitsskipsins, rynnu í þann sjóð, sem kostar skipið og gerir það út. Fjárlaganefndin sneri sér til forsætisráðherrans með tilmælum um, að hann kæmi á framfæri málaleitun um að ? hlutar sekta þessara og jafnmikið af andvirði upptæks afla og veiðarfæra rynnu í ríkissjóð. En af því að lögákveðið er, að þessar sektir renni í landssjóð, hefir forsætisráðherrann farið fram á, að veitt sé sem tillag til varðskipsins af Íslands hálfu upphæð, sem jafngildi ? af sektum og upptækum afla og veiðarfærum. Þetta er auðvitað sama efni, en að eins annað form.

Eg veit, að Íslendingar viðurkenna, að varðskipið vinnur fyrir þá, enda hefir sú skoðun oft fram komið, að við getum ekki minkunarlaust hirt alt, sem inn kemur af sektum og slíku, ef vér leggjum alls ekkert til, og þar sem hér er eiginlega ekki um útgjöld að ræða, heldur afsal á óvissum tekjum, sem hvort sem er koma fram á fjárhagsáætluninni, þá vona eg, að háttv. þingdeild verði því samþykk, að þessi upphæð greiðist í viðurkenningarskyni fyrir það lögreglueftirlit, sem kemur Íslandi til góða.

Þetta er ekki bein krafa, en að eins kurteis málaleitun. Eg hefi ekki sett þetta inn á stjórnarfrv., en ætla mér að koma með brt. seinna«.

Það komu engin mótmæli gegn þessari málaleitun dönsku fjárlaganefndarinnar fram á þinginu 1905. Nd. samþykti ákvæðið mótmælalaust með 19 shlj. atkv. Það varð að eins ofurlítið umtal í Ed., þar sem dr. Valtýr Guðmundsson hélt því fram, að við ættum að tryggja okkur umráð yfir því, hvernig eftirlitinu væri hagað. Hann sagði, að það væri réttmæt krafa, að við öðluðumst rétt um leið og við tækjum oss á herðar skyldur. Það var þá upplýst, að sjómálaráðherrann danski hafði þegar lagt það á vald Íslandsráðherra, og lagt fyrir forstjóra skipsins, að haga sér við eftirlitið eftir því sem íslenzka stjórnin óskaði. Þetta lét Ed. sér nægja og samþykti ákvæðið með 10 atkvæðum samhljóða. Eftir þing var það tilkynt forsætisráðherra Dana, að nýrri grein væri bætt inn í fjárlögin þess efnis, að upphæð, er næmi ? sektanna og upptæks afla og veiðarfæra skyldu greiðast héðan í ríkissjóð, sem tillag af Íslands hálfu til varðskipsins, og þar með hafa Danir auðvitað litið svo á, að Íslendingar hefðu gengið að því, sem þeir fóru fram á. Það liggur líka beinast við að skilja þessa samþykt þannig: að óbreyttum kringumstæðum lofar alþingi að greiða tillag svarandi til ? sektanna frá þeim skipum, sem eftirlits skipið handsamar og dregur fyrir dóm, sem borgun fyrir unnið starf. Það er rangt, sem menn eru alt af að segja, að sektirnar renni í ríkissjóð. Sektirnar sjálfar renna í landssjóð, en borgunin í ríkissjóð fyrir aðstoð varðskipsins við að koma fram hegningu eftir okkar lögum er greidd úr landssjóði. Það er að eins upphæð tillagsins, sem miðast við upphæð sektanna. Það hlýtur og að hafa þýðingu fyrir það spursmál, hvort hér sé um samkomulag milli Ríkisþingsins og Alþingis að ræða, að við tókum þetta ákvæði orðalaust upp í fjárlögin 1907, og að málið gekk mótmælalaust aptur gegn um þingið 1907, án þess nokkur nefndi það á nafn. Danir hafa af því haft enn þá meiri ástæðu til þess að halda, að við sjálfir skoðuðum þetta sem afgert mál, að slík upphæð greiddist fyrir aðstoð varðskipsins. Þegar svo þingið 1909, eða hinn virðulegi meiri hluti þess, kipti ákvæðinu burtu, vakti það mikið umtal og óánægju ytra, sem eðlilegt var, og svo fór að lokum, að fyrv. ráðherra (B. J.) lofaði dönsku stjórninni að taka ákvæðið upp í fjárlagafrumv. stjórnarinnar, það sem nú er til umræðu. Það liggur því í hlutarins eðli, að slíkt getur ekki skilist öðruvísi en að stjórnin hafi gefið loforð um að styðja málið; alveg ómögulegt að ráðherra taki tillögu upp í frumvarp sitt, nema hann telji hana réttmæta og fylgi henni sjálfur. Eg vona nú, að háttv. flokksbræður fyrv. ráðherra yfirgefi hann nú ekki í þessu máli, heldur hjálpi honum til að standa við orð sín. Það er naumast hugsanlegt, að menn, sem vita hvernig í öllu liggur, vilji láta verða svik úr þessu aftur.

Eg geng út frá því, að breyt.till. háttv. þm. Dal. (B. J.) um að fella tillagið burtu, sé sprottin af því, að hann haldi að hér sé um venjulega fjárveitingu til eins fjárhagstímabils að ræða. En svo er ekki. Hér er ekki um neitt það að ræða, er skert geti sjálfstæði vort. Þvert á móti. Hér er eingöngu dálítið peningaspursmál um að ræða, um greiðslu á umsamdri borgun fyrir unnið verk. En í því atriði, að Danir vilji fá þessa borgun hjá okkur, liggur viðurkenning af þeirra hálfu fyrir því, að hér sé um lögreglustarf að ræða, sem Ísland sjálft lætur annast. Sízt skil eg í því, að þeir, sem vilja láta kalla sig »sjálfstæðismenn« skuli vilja fella þetta tillag burtu. Halda þeir að það miði í sjálfstæðisáttina? Þeir vilja gera þingsályktunartillögu um gildi stöðulaganna o. s. frv., en vilja samt liggja upp á Dönum með að framkvæma íslenzk lögreglustörf, sem þeir sjálfir beiðast borgunar fyrir að nokkru. Einkum þykir mér það undarlegt af háttv. þm. Dal., sem hefir verið að leitast við að halda því fram, að við gætum í öllu staðið á eigin fótum, að hann í þessu efni skuli vera svo lítilþægur að vilja, að við notum orðhengilshátt og útúrsnúninga til þess að ganga frá loforðum, í því skyni að geta lafað á áfram sem ómagar á náð Dana í þessu efni. Eg vona, að háttv. þm. láti sér enga læging þykja í því, að taka þessa tillögu aftur — hann hefir auðsjáanlega ekki vitað, hvað hann var að gera, þegar hann kom fram með hana. Eg sé svo eigi ástæðu til að tala meir um þetta. Eg vona, að háttv. deild sjái svo sóma sinn, að alþingi Íslendinga verði ekki með rökum borin á brýn brigðmælgi, og láti það hafa framgang, sem fráfarandi ráðherra síðast hefir gert í málinu og lofað að framfylgja.