04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Sigurður Sigurðsson:

Það hafa nokkrir þingmenn látið óánægju sína í ljósi með ýmsar gerðir fjárlaganefndarinnar, sérstaklega að því er snertir skilyrðið um skólana, að ? hluti reksturskostnaðar skuli koma annarstaðar frá, og er það þyrnir í augum margra þeirra. Mest hefir þó óánægjan verið meðal þeirra, sem annaðhvort beinlínis eða óbeinlínis eru við skóla riðnir. Um þetta skilyrði var mikið rætt hér í deildinni í gær, og fór það illa, að það var felt. Þetta skilyrði átti að eins að ná til þeirra skóla, sem ekki eru landssjóðsskólar. Skólunum er ávalt að fjölga. Hinir og þessir hlaupa til og setja á stofn skóla, og svo er sjálfsagt að leita um styrk úr landssjóði. Þetta skilyrði var því alveg nauðsynlegt til þess að takmarka fjárframlögin úr landssjóði til þessara skóla, og tryggja það, að eitthvað fé kæmi þó annarstaðar frá til reksturs þeirra. En þetta sjálfsagða skilyrði hafa háttv þingmenn ekki getað felt sig við.

Það hefir mikið verið rætt um skáldin. Eg skal geta þess, að fjárlaganefndin sætti sig við, að skáldstyrkurinn héldist óbreyttur eins og hann er á fjárlögunum. En ýmsir úr fjárlaganefndinni mundu þó geta fallist á, að sumir skáldstyrkirnir yrðu lækkaðir eða alveg feldir burtu. Eg fyrir mitt leyti gat þó fallist á, að þeir héldust óbreyttir, heldur en annað lakara tæki við.

Það yrði of langt mál að fara að tala hér um allar þær tillögur, er fara fram á styrk til einstakra manna. Eg skal þó geta þess, að fjárlaganefndin er yfirleitt á móti því, að veita mönnum styrk til að nema málaralist, nema þeir hafi sérstaka hæfileika til þess og skari fram úr öðrum. Og þær umsóknir, sem nefndinni höfðu borist, báru það ekki með sér, að þær væru frá framúrskarandi mönnum í því efni. Eg skal að vísu játa, að það er mikils um vert, að hafa skáld og listamenn, og háttv. þm. Dal. (B. J.) gat þess, að menn ættu að styrkja þá, engu síður en verklegar framfarir. Hann hefir einnig verið sjálfum sér samkvæmur í því að greiða atkvæði með öllum styrkveitingum, hverju nafni sem þær nefnast. En því er nú þannig varið með mig, að eg legg meira upp úr verklegum framkvæmdum heldur en andlegri framleiðslu. Þó er það ekki af því, að eg meti andlega framleiðslu lítils. Háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að mönnum hætti við að meta meira »malpokann en sálina«. Eg skal viðurkenna, að þetta er skáldlega mælt. En hann myndi naumast vera kominn fram á þennan dag, ef hann hefði ekki haft með sér malpokann, sem aðrir hafa fylt en hann tæmt. Að öðru leyti skal eg taka það fram, að eg mun greiða atkvæði móti öllum nýjum styrkveitingum til einstakra manna.

Þá er hér tillaga á þgskj. 363 frá þingmönnum Rvíkur, sem fer fram á, að veittar séu alt að 3000 kr. til framhaldsrannsókna á járnbrautarstæði frá Reykjavík og austur yfir fjall.

Mig furðar það dálítið, að þessi tillaga kemur frá þingm. Rvk. En hún virðist bera þess ljósan vott, að skoðun þeirra á sambandi Reykjavíkur og austursveitanna sé að breytast. Með þessari tillögu viðurkenna þeir, að Reykjavík sé ekki sjálfri sér nóg og að hún geti ekki verið án þess að hafa greiðar samgöngur og samband við sveitirnar austanfjalls. Það er góðra gjalda vert, að þingm. Rvk. viðurkenna þetta.

Að öðru leyti get eg sagt, að mér þykir vænt um, að þessi tillaga er framkomin. Fyrir nokkrum árum var veitt fé til þessara rannsókna, og árangurinn af þeim rannsóknum er sá, að valin hefir verið sérstaklega ein leið, er þykir einna álitlegust til járnbrautarlagningar. Þessi leið, sem talað hefir verið um, er leiðin frá Reykjavík upp Mosfellsdalinn, yfir Mosfellsheiði, um Þingvöll. Þaðan er svo brautinni ætlað liggja niður með Þingvallavatni að sunnan, yfir Sogið og niður með Ingólfsfjalli að Ölfusárbrú. En hvað sem um þessa leið er að segja að öðru leyti, þá fullyrði eg, að þetta er lang snjóþyngsta leiðin austur yfir fjallgarðinn eða heiðarnar. Eg þykist geta fullyrt, að finna megi aðra leið fyrir járnbrautina, sem er bæði styttri og snjóléttari, og það fleiri en eina. Í þessu sambandi skal eg minna á, að komið hefir til orða, að leggja mætti járnbrautina um Hafnarfjörð og þaðan suðaustur yfir fjallgarðinn, og síðan ofan við Selvog, upp Ölfus að Ölfusárbrú. Á þessari leið er lítið um hraun, eða réttara sagt, það mætti sneiða hjá þeim með brautina. En annars er það talinn ókostur, að járnbrautir liggi um brunnin hraun, vegna þess að þau eru hol og geta látið undan.

Þá hefir einnig verið talað um, að járnbrautina mætti leggja austur Ólafsskarð eða Lágaskarð. Allar þessar leiðir eru bæði styttri og snjóléttari en sú leiðin, sem valin hefir verið yfir Mosfellsheiði, um Þingvöll o. s. frv.

Þegar því um það er að ræða, að veita fé til framhaldsrannsókna á járnbrautarstæði austur, þá er ekki nóg að ljúka við að kortleggja þessa áður umtöluðu leið um Þingvöll. Það verður fyrst og fremst að rannsaka betur en gert hefir verið, hvar yfir höfuð hagkvæmast muni vera að leggja brautina, og þar á meðal þessar leiðir, sem eg hefi nefnt hér. Það hefir verið sagt hér í deildinni, að þessari brautarrannsókn væri langt komið. En samkvæmt því, sem eg hefi þegar tekið fram um þetta mál, þá er langt frá því, að svo sé. Hér er enn margt órannsakað og sem sjálfsagt er að rannsaka, áður en nokkuð er afráðið um það, hvar brautin eigi að liggja austur. Þessvegna er eg með tillögunni á þingskjali 363 og fjárveitingunni til framhalds rannsóknar í þessu efni. En eg tek það um leið skýrt fram, að það er óumflýjanlegt og sjálfsagt að rannsaka alla þá staði eða allar þær leiðir, er koma til álita við lagning járnbrautar héðan austur í sveitir. Og með það fyrir augum greiði eg atkvæði með tillögunni.

Þá skal eg víkja nokkrum orðum að háttv. þm. Snæf. (S. G.) og tillögu hans á þskj. 413, um að lækka styrkinn til Búnaðarfélags Íslands en hækka styrkinn til búnaðarfélaganna. Það hygg eg sé misráðið, ef menn fara að hækka styrkinn til búnaðarfélaganna á kostnað Búnaðarfélags Íslands. Búnaðarfélag Íslands hefir starfað í mörg ár og komið á fót fjölda gagnlegra fyrirtækja. Það hefir styrkt bæði einstaka menn og ýms búnaðarfélög út um landið til þess að framkvæma mörg þarfleg fyrirtæki, svo sem samgirðingar, vatnsveitingar o. fl. Þessi tillaga mun vera sprottin af því, að háttv. þm. Snæf. (S. G.) finst hans kjördæmi hafa orðið útundan hjá Búnaðarfélagi Íslands, en því er nú, samt sem áður, ekki svo varið. Eg skil það mjög vel, að klerkurinn í Stykkishólmi hafi ekki orðið var við sendimenn frá Búnaðarfélagi Íslands, þó þeir hafi verið á ferðinni. Eg hefi svo oftast farið um Snæfellsnessýslu, að eg hef ekki komið við í Stykkishólmi. En eg get huggað prestinn í Stykkishólmi með því, að nú ætlar Búnaðarfélagið að senda tvo menn vestur í Snæfellsnessýslu til þess að halda þar fyrirlestra. Háttv. þm. Snæf. gat þess í prívat samtali við mig, að honum þætti fé því, sem varið er til námskeiðanna ekki hafa borið eins góðan árangur og hann hefði búist við. Mér skildist á honum, að þegar sendimenn frá Búnaðarfélagi Íslands væru á ferðinni, þá ættu þeir að hafa svo mikið púður með sér, að alt færi á loft. En eg held nú, að hægra sé að kenna heilræðin en halda þau. Það sýnir reynsla prestanna. Þeim veitti ekki af að hafa meira »púður“ í ræðum sínum en raun er á, til þess, að þær vektu fólkið, sem hlustar á þær, í stað þess að svæfa það.

En svo eg víki að Búnaðarfélagi Íslands aftur, þá hefir það sótt um, að styrkurinn verði hækkaður, með því það ráðgerir að setja á stofn tvö ný sauðfjárbú og halda áfram að styrkja menn til sláturnáms. Einnig er í ráði að gefa út kennslubækur handa búnaðarskólunum, og margt fleira hefir félagið á prjónunum. Þessvegna fer það fram á, að styrkurinn til þess sé hækkaður um 2000 kr. á ári. — Hækkun styrksins miðast ennfremur við hina fyrirhuguðu Miklavatnsáveitu, sem búnaðarþingið leggur til að styrkja. Svo bætast ávalt ný störf við árlega, sem ekki er hægt að taka tillit til, þegar fjárhagsáætlunin er samin á búnaðarþinginu, sem gildir fyrir 2 ár.

Nú hefir verið útbýtt hér í þinginu nýlega skýrslu um störf félagsins og um búnaðarþingið, sem nýlega var haldið. En það lítur helzt út fyrir, að þingmenn hafi stungið þessum skjölum undir stól, og ekki lesið þau. Umræður þær, er orðið hafa um Búnaðarfélagið, bera þess ljósan vott. Eg hefi þegar fært nokkrar ástæður fyrir því, hversvegna farið er fram á að auka styrkinn til Búnaðarfélags Íslands, og vona eg að mönnum hafi skilist, að hér sé ekki um óþarfa hækkun að ræða. En þótt eg hafi mælt á móti því að lækka styrkinn til Búnaðarfélagsins, þá er eg ekki á móti því, að styrkurinn til búnaðarfélaganna sé aukinn. En hækkun á styrknum til búnaðarfélaganna vil eg ekki kaupa því verði, að styrkurinn til Búnaðarfélagsins sé lækkaður.

Eg gæti fært mörg fleiri rök fyrir styrkhækkuninni til Búnaðarfélagsins, en sleppi því að þessu sinni. Hins vegar vil eg benda mönnum á, að kynna sér starfsemi félagsins af skýrslum þeim, sem útbýtt hefir verið hér í deildinni.

Hvað styrkinn til að gefa út dýralækningabók snertir, þá mun öllum koma saman um það, að hann sé nauðsynlegur. Dýralæknirinn hefir einmitt hug á að gefa út slíka bók, og mun þegar byrjaður á að safna til hennar. Mælir því margt með tillögunni, og býst eg við, að hún fái fylgi.

Tillaga háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.), um að breyta smjörverðlaununum, virðist vera alveg út í bláinn og gersamlega óþörf. Styrkurinn til smjörbúanna hefir undanfarin ár farið lækkandi um 2000 kr. á ári, og þessi lækkun heldur áfram, og með því hverfur styrkurinn smám saman úr sögunni. En annars hefir þessi styrkur gert mikið gagn. Hann er bundinn því skilyrði, að smjörið seljist fyrir ákveðið verð. Það miðar til þess að bæta smjörgerðina, og tryggja það, að smjörið verði vandað. En að vanda smjörið sem bezt, hefir aukinn kostnað í för með sér. Það þarf meðal annars betri áhöld og fullkomnari skála. Annars lítur svo út, sem sumir þingmenn ætli, að hvergi séu til smjörbú á landinu, nema í Árnes- og Rangárvallasýslum. Og svo á að hefna sín á þessum sýslum fyrir það, að önnur héruð hafi ekki haft myndarskap í sér til að koma á fót smjörbúum. En nú skal eg leyfa mér að gefa þær upplýsingar, að það eru 35 smjörbú á öllu landinu. Þar af eru 18 í Árnes- og Rangárvallasýslum. Hin búin eru í Kjósarsýslu, Borgarfirði, Snæfellsnessýslu, Dalasýslu og á Norðurlandi. Kemur það því fleirum vel, en Árnesingum og Rangæingum, að smjörstyrkurinn sé ekki afnuminn þegar með öllu. Vona eg því, að háttv. þm. taki tillöguna aftur.

Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) var að telja eftir styrkinn til Búnaðarfélags Íslands og til landbúnaðarins. Hér skal ekki farið út í neinn samanburð á atvinnuvegum landsins. Hitt vita allir, að landbúnaðurinn er grundvöllurinn undir tilveru hinnar íslenzku þjóðar. Alt það gott í fari þjóðarinnar, sem lifir og þroskast með henni á rót sína að rekja til hans, og fyrir því er skylt, að sýna landbúnaðinum allan þann sóma, sem unt er. Vænti eg, að þessi ummæli háttv. þingmanns verði ekki tekin til greina, fremur en aðrar tillögur hans, sem flestar eru fyrirfram dauðadæmdar.

Þá átti eg eftir að minnast á lánin. Um þau er það að segja, að mér finst höfuðatriðið vera, að þau lán, sem heimiluð eru, miði til framleiðslu í landinu. Háttv. fjárlaganefnd leggur til, að það verði veitt 20000 króna lán til áveitu á Miklavatnsmýri í Árnessýslu. Þessi áveita er byrjunartilraun, og undanfari hinnar fyrirhuguðu, stóru Flóaáveitu. Það er viðurkent, að Árnessýsla stendur mest til bóta af flestum eða öllum sýslum landsins, og það hefir því mikla þýðingu, að byrjað sé sem fyrst á hinum helztu umbótum þar. Og áveitan á Miklavatnsmýri, og Flóann yfir höfuð, er til stórra framfara, ekki einungis fyrir það hérað, heldur og fyrir alt landið. Ætti þetta lán því að sitja fyrir öðrum lánum, því það styður að því að auka framleiðslu landsins og bæta efnahaginn.