03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Björn Jónsson:

Eg heyri, að missagnir eru um botnvörpusektimar. Það sem hefir gerst í því máli frá minni hálfu, hefi eg skýrt frá áður, Þá er átti að staðfesta fjárlögin frá 1909, var urgur í Dönum yfir því, að þetta hafði fallið niður, og var því haldið fram í blöðum, að rétt væri að synja staðfestingar á fjárlögunum. Til þess að afstýra þeirri hættu, hét eg því í ríkisráði, að þetta mál skyldi verða tekið til nýrrar athugunar á næsta (þessu) þingi, og mundi eg reyna að stuðla að einhverri þeirri málamiðlun, að báðir málsaðilar létu sér vel líka; en frekar ekki. Eg minnist ekki, að til tals hafi komið að breyta botnvörpulögunum. Eg varð var við, að eg var tortrygður um efndir á þessu, og skilið svo, sem lagfæringin eða málamiðlunin ætti að gerast með sérstökum lögum. En þá minti eg á, að aldrei hefði staðið til að gera það öðru vísi en í fjárlögunum nýju, og var þá þagnað á því. En eg tók vandlega fram, að eg gæti ekkert um það sagt, hvernig fara mundi um málið á þingi, eg gæti enga ábyrgð á því tekið, það gæti alveg eins vel farið þannig, að það væri felt, að 2/8 hlutar sektarfjársins gengju til Dana.

Eg hygg, að enginn á þingi 1909 hafi búist við, að þetta mundi valda svo mikilli óánægju meðal Dana, eins og raun ber vitni. Að vísu munu margir hafa búist við, að Danir mundu ekki skoða þetta sem neitt vinabragð frá vorri hálfu, en að það mundi hleypa æsingi í menn bæði hér og í Danmörku, munu menn ekki hafa búist við. Höfuðslysið er, að það var gengið að þessu á þingi 1905, eins og öðru af þáverandi stjórn. En nú er þetta miklu örðugra viðfangs, þegar það hefir staðið tvö fjárhagstímabil. Við höfum aldrei skoðað þetta sem samninga, þó því hafi verið haldið fram af hinum málspartinum, og þeir líti svo á, sem þetta séu samningar, eftir þeirra skilningi á málinu. Það mun hafa verið orðað svo á fundi hér, að þetta væru samningar, en tekið fram, að sá væri skilningur Dana á málinu. Eg hefi ekki fundið upp á því að fyrra bragði, að kalla þetta samning. Þegar eg kom til Kaupmannahafnar 1909, þá var mér tjáð, að hér væri um samning að tefla, þó ekki skriflegan, heldur munnlegan samning milli danska fjárveitingarvaldsins og íslenzku stjórnarinnar. Og í ríkisþinginu var talað um þetta eins og samning (Overenskomst). Þegar þetta ákvæði var numið burt úr fjárlögunum, þá hafði hvorki mér né öðrum dottið það í hug, að Danir mundu virða þetta til fjandskapar. En nú, úr því svona er komið, er ekki við það að dyljast, að góðu samkomulagi er ekki við að búast um þetta mál nema með einhverri tilslökun af vorri hendi. Eg hefi aldrei lofað öðru en að taka þetta upp í fjárlögin, en eg gæti enga ábyrgð tekið á því, hvað þingið gerði við það.

Það hefir verið vitnað í blað mitt því til sönnunar, að eg hafi einhvern tíma fyrrum, fyrir mörgum árum, átt að vera þessu máli fylgjandi. Eg kannast við, að í því hafi staðið eitthvað í þá átt, að það væri hart, að það væri ekki séð við Dani í neinu, þó landssjóður hefði svona mikinn ágóða af sektunum. En eg þykist geta staðhæft, að ekkert hafi staðið um að skifta sektunum á milli ríkissjóðs og landssjóðs, sízt á þann hátt, sem gert hefir verið. Þetta er orðið nokkuð gamalt, en eg held eg megi fullyrða, að fyrir mér hafi aldrei vakað annað, en að skipshöfninni á varðskipinu væri þægst eitthvað fyrir góða og vasklega frammistöðu. Eg skal endurtaka það, að eg lofaði að taka þetta upp á fjárlögin, til þess að afstýra þeim ófögnuði, að fjárlögunum yrði synjað staðfestingar; meiru gat eg ekki lofað. Eg þurfti heldur ekki að lofa meiru til þess að ryðja þessari tálmun úr vegi. Eg tók aldrei í mál að miðla neinu af sektunum o. s. frv. fyrir árin 1910 og 1911, enda höfum við hirt þær allar. Eg hafði hugsað mér að finna aðra aðferð en skifta því milli ríkissjóðs og landssjóðs, en hætti þó við það og skifti því eins og áður. En þó þessi skifting sé þannig í fjárlögunum, þá mundu þó Danir vel geta gengið að öðru fyrirkomulagi á skiftunum. En þetta þótti mér vekja minsta vafninga. Þannig er sagan sögð eftir því, sem eg man bezt.