03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Hannes Hafstein :

Aðeins nokkrar athugasemdir til svars ýmsu, sem sagt hefir verið viðvíkjandi »botnvörpusektunum«. Mér óskiljanlegt, hvernig menn geta lagt svo mikið kapp á að fella þar að lútandi ákvæði burt úr fjárlögunum. Það mál snertir ekki sjálfstæði vort. Ekki getur sjálfstæði voru verið hætta búin fyrir það, þótt vér borgum umsamið kaup fyrir unnið starf til verndunar fiskiveiðum vorum. Ekki er heldur svo ástatt, að hér sé um stórfé að ræða, eða útgjöld, er landssjóði séu tilfinnanleg.

Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) sagði að vísu, að það næmi árlega 126 þús. króna(!!) og væri því meir en helmingi meira en tillagið frá Dönum. En sannleikurinn er sá, eins og landsreikningarnir sýna, að á þeim 4 árum, er ákvæðinu var fullnægt, hefir gjaldið samtals numið 70— 80 þús. króna. Að það er svo hátt kemur af því, að árið 1907, þegar kapt. Amundsen var yfirmaður Fálkans, náðust fleiri botnvörpungar en nokkurntíma fyr eða síðar og sektirnar urðu þá miklu meira en helmingi hærri en nokkurn tíma ella. 1905 var gjaldið, ? sekta og upptæks afla, einungis 6000 kr., og síðast um 8000 kr. Hinn háttv. þm. sér því, að sögn hans nær alls engri átt. Hér er venjulega um smáupphæðir að ræða, og ekki eiginleg útgjöld fyrir gjaldendur landssjóðs, heldur hluta af óvissum tekjum, sem ekki er hægt að áætla fyrirfram með neinni vissu. Hér er því að eins að ræða um það, sem í lagamáli er nefnt »lucrum cessans“. Eg skal ennfremur minna á, að það voru ekki Danir, sem fundu upp á því, að byggja nýtt og hentugra skip til fiskiveiðaeftirlitsins hér við land. Það var heldur ekki fundið upp alt í einu. Á þingunum 1899, 1901 og 1903 var stöðugt skorað á landsstjórnina að leita hófanna við Dani að fá annað skip í stað hinna stærri skipa, er hér hefðu verið, sem þóttu óhentug til strandgæzlu hér, og þóttu vera hér of stutta stund. Var stöðugt beðið um minna skip, sem væri líkara botnvörpungi, og gæti verið hér lengur. Þegar eg var tekinn við ráðherraembættinu átti eg oft tal um þetta við þáverandi flotamálaráðherra, Jöhnke aðmirál, og kom þar, að hann lagði það til við ríkisþingið, samkvæmt loforði til mín, og fékk því framgengt, að veitt var fé til að byggja nýtt skip til strandgæzlu hér við land, yfir 400 þúsund krónur, og jafnframt fjárveiting til að skipið gæti verið árið um í kring. Þetta var 1904.

Háttv. 1. þm. Rvk (J. Þ.) og þm. N.- Ísf. (Sk. Th.) sögðu, að þetta hefði að eins verið skálkaskjól hjá dönsku stjórninni til þess að auka flotann, og fara þeir hér eftir andstæðingadylgjum og getsökum, sem stóðu í einhverju andvígisblaði stjórnarinnar, sem ætíð hamast á móti öllu því, er á einhvern hátt snertir útgjöld til hers eða flota. Átyllan var að eins sú, að féð var veitt á »budgetti« flotamálastjórnarinnar, af því flotamálastjórnin var talin sameiginlegt mál Íslands og Danmerkur; en fé til fiskiveiðaeftirlits við Danmörk, er veitt með gjöldum til innanríkisráðaneytisins danska, sem viðurkent er Íslandi óviðkomandi. Þess vegna vildu mótstöðublöð stjórnarinnar reyna að blása upp úr þessu eitthvert númer, eins og hér

væri um aukin hernaðargjöld að ræða. En þeir, sem til þektu, hlógu að eins að þessu. Fálkinn er ekki bygður sem herskip og tilheyrir ekki neinni tegund nýtízku herskipa. Hann er bygður að eins með þarfir fiskiveiðaeftirlitsins hér við land fyrir augum, hann getur hvorki notast sem »Krydser« né »torpedobátur“, »torpedóveiðari« eða hvað þær nú heita þessar herskipategundir. Hann var hafður þannig í gerð, að hann væri sem líkastur botnvörpuskipi til að sjá, en hinsvegar þó nægilega stór og sterkur til að þola útivist hér á vetrum, og með nógu sterka vél til að geta elt uppi botnvörpungana og ráðið við þá. Minna skip en »Fálkinn« er, var ekki álitið örugt hér á vetrum. Alt fyrirkomulagið var miðað við ætlunarverk skipsins hér við land. En þó að nú Jöhnke kynni að hafa komið til hugar, að einhver not mætti hafa af Fálkanum, ef til hernaðar kæmi, skil eg ekki, að það komi þessu máli neitt við. Sá þingmeirihluti sem veitti féð, veitti það alls ekki til herútgjalda heldur eftir beiðni Íslands til aukins fiskiveiðaeftirlits, Íslandi einu til hagsmuna, og eftir því var nafnið valið.

Hugmyndin um, að eitthvað af þeim aukakostnaði, sem bygging og útgerð þessa nýja eftirlitsskips hafði í för með sér, skyldi greiðast af sektum þeim, er inn kæmu fyrir starfsemi þess, á vafalaust rót sína að rekja til blaðsins »Ísafold«, sem um þessar mundir skrifaði skorinort um það, að það væri ekki vanvirðulaust fyrir Ísland, að sektaféð rynni í landssjóð, sá, sem kostaði skipið, ætti að fá tekjurnar af því. Háttv. þm. Barð. (B. J.), sem þá var ritstjóri »Ísafoldar«, eins og menn vita, kveðst ekki muna þetta; en eg man það vel, og almenningur man það, og hann má vera viss um, að sjóliðsforingjar hér við land hafa vitað um þessar tillögur hans. Víst er það, að fjárlaganefndin danska, er hafði fjárveitinguna til þessa nýja skips til meðferðar, snéri sér til sinnar stjórnar viðvíkjandi þessu. Hún sneri sér ekki til mín, eins og sumir hafa verið að segja, heldur til forsætisráðherrans, er þá var orðinn, J. C. Christensen, og hann skýrði mér frá þessu, eins og eg hefi áður ítarlega frá skýrt, og nenni ekki að endurtaka. Lagði eg svo málaleitunina fyrir alþingi og var hún samþykt af báðum deildum án nokkurs mótatkvæðis, kannske einmitt ekki hvað sízt af því, að þáverandi stjórnarandstæðingar skoðuðu þetta sem »Ísafoldar« tillögu. Eftir að alþingi í heild sinni hafði samþykt þetta, virðist verða að skoða það sem afgert mál.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði, að Danir hefðu önnur laun fyrir strandvörzluna, nefnilega þau, að hafa hér veiðirétt. Þetta atriði getur komið til greina, þegar gerður er samningur um sambandið milli Íslands og Danmerkur, og svo var og ráð fyrir gert í sambandslagafrumv. millilandanefndarinnar. Hefði það frumvarp verið samþykt, þá hefðu Íslendingar á sínum tíma orðið einráðir yfir landhelgissvæðinu. En nú er ekki því að fagna. Frumvarpinu var hafnað, og þar með einnig því, sem á unnið var í þessa átt. Nú er réttarástandið það, að landhelgisvörnin er sameiginlegt mál Íslendinga og Danmerkur. En landhelgisvörnin felur í sér tvö atriði. Annað er það, að halda uppi drottinvaldi á landhelgissvæðinu, hitt er að ná inn í landssjóðinn sektum fyrir brot á íslenzkum lagafyrirmælum um veiðiskap í landhelgi. Bóndi getur varið land sitt á tvo vegu, bæði með því, að reka úr því óviðkomandi fénað, og með því að gera ráðstafanir til að taka ágangsfénað fastan, setja hann inn, og láta kaupa hann út, þegar skilyrðin fyrir því eru fyrir hendi. Vér gætum ekkert við það ráðið, þó Danir intu landhelgisgæzluna af hendi þannig, að reka ágangsskip út af landhelgissvæðinu. Hitt, að draga þau fyrir dóm hér á landi, láta taka upp fyrir þeim afla og veiðarfæri og ná sektunum er íslenzkt lögregluatriði, sem mjög eðlilegt er, að vér kostum einhverju til. Og í fjárlagaákvæði því, sem nú er lagt svo mikið kapp á að fella burtu, er það skýrt tekið fram, að þóknunin — sektirnar — greiðist að eins fyrir skip, sem eftirlitsskipið handsamar og dregur fyrir dóm á Íslandi.

Eg get ekki betur séð, en að hér sé að ræða um samning, sem orðinn er til á þann hátt, að annar aðilinn samþykkir það, sem hinn fer fram á. Þetta er hér aðalatriðið. Sómi og hagsmunir Íslands heimta, að alþingi standi við orð sín. Í því sambandi hefir það enga þýðingu, þótt hver fjárlög gildi eigi nema til tveggja ára. Hér við bætist svo, að fráfarandi ráðherra hefir nýlega gefið loforð um að reyna að kippa þessu í lag, og er það enn ný ástæða til þess að fella ákvæðið eigi í burtu. Það er óhæfilegt, ef alþingi hegðar sér svo, að framvegis verði eigi treystandi orði íslenzks meirihlutaráðherra. Alþingi má ekki láta það ásannast, að Íslendingar séu þjóð, sem ekki sé semjandi við. Alþingi, löggjafarþing Íslands, handhafi þjóðarvaldsins, verður jafnan að muna eftir virðing sinni, og ætti í þessu máli sem öðrum að hafa hugfast það, sem Sighvatur skáld kvað við Magnús konung hinn góða:

Fastorðr skyldi firða

fengsæll vera þengill.

Hæfir heit at rjúfa,

hjaldrmögnuðr, þér aldrei.