27.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

111. mál, fjárlög 1912-1913

(Augúst Flygenring:

Það var aldrei brúkað).

Eg tel það alls ekki óviturlegt af þinginu að styðja einstaka menn, sem hafa sýnt, að þeir geta komið einhverju áfram. Eg tek þetta fram til að sýna, að það hefir verið talið eins rétt að styðja fyrirtæki, er einstakir menn eiga og stofna, og þar sem margir vóru saman í félagsskap, og er það alls ekki rangt, er nægilegt fé er fyrir hendi. Þessi verksmiðja á Ísafirði hefir að undanförnu haft 40—50 manns í þjónustu sinni. Eg held að enginn geti efast um það, að svo framarlega sem nokkur iðnaður á framtíð fyrir sér á þessu landi, þá sé það slíkur iðnaður. Þessi iðnaður er ekki eldri en 15 — 20 ára í Noregi. Stórþingið norska hefir veitt slíkum verksmiðjum mikið fé, og nú er þetta orðinn stóriðnaður þar í landi.

Til sönnunar því, að vörur umræddrar verksmiðju á Ísafirði séu góðar og vandaðar, skal eg taka það fram, að þær hafa verið sendar til Johnson & Kaaber og þeir hafa gefið vottorð um, að varan sé góð, og eftirspurn eftir henni sé mikil, og að salan fari vaxandi.

Eg vildi með þessum fáu orðum skýra þetta mál fyrir hinni háttv. þingdeild. Og ef aðrar lánsheimildir fá að standa, þá vænti eg þess, að þessi lánsheimild verði samþykt. Verksmiðjan og verkfærin eru vátrygð fyrir 96 þúsund krónum. Nokkur hluti hennar er eigi vátrygður enn. Útbú Íslandsbanka á Ísafirði hefir gefið vottorð um að verksmiðjan hafi skilvíslega goldið afborganir af lánum, og að alt gangi nú vel.