03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Þorkelsson:

Eg drap í gær á flest það, sem eg þurfti að minnast á. Eg vil þegar geta þess, sem háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) að líkindum hefir minst á, að eg nefndi ekki nákvæmlega upphæðina, sem runnið hefir í ríkissjóð Dana fyrir sektir og upptæk veiðarfæri botnvörpunga; eg nefndi að eins 120 þús. kr, en upphæðin sem Danir hafa fengið er nær 80 þús. kr.

Eg vík þá að einstökum atriðum, og er þá fyrst að minnast á útgáfu alþingisbókanna gömlu. Háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) taldi það ekki nauðsynjaverk, að gefa þær út, því að þær væru öllum aðgengilegar í söfnunum, og að þeir væru fáir, sem þyrftu að nota þær. Þessu má svara svo, að ekki er gott að vita, hvað margir þurfa að nota slík stórmerk heimildarrit. Hinum háttv. þm. mun og eigi ljóst, að söfn þessara bóka eru niðurkominn á mörgum og einkum þó á fjórum stöðum: í þjóðbókasafninu og þjóðskjalasafninu hér og ennfremur í Konungsbókhlöðunni í Khöfn og Málafærzlumannabókhlöðunni (Advocate’s Library) í Edinborg, og þó hvergi einhlítt, að þau sé fullkomin. Söfn þessi er því hvergi hægt að nota á einum stað til hlítar. Er því hin mesta nauðsyn á að rannsaka þau öll, og gefa síðan út alþingisbækurnar sem fyllst að auðið verður. Alþingisbækurnar voru og aldrei gefnar samhljóða út, heldur fengu sýslumenn afskriftir hjá þingskrifurunum gömlu, hver eftir því, sem hann þurfti mest á að halda, en létu sleppa því úr, sem þá varðaði ekki. Því væri heildarútgáfa af þingbókunum hið mesta þarfaverk. Þetta eru hin fornu alþingistíðindi vor og hið merkilegasta heimildarrit.

Þá vil eg minnast á nokkra aðra pósta. Eg býst við, að till. á þgskj. 145 þurfi ekki minna meðmæla við, því að fjárlaganefndin er henni fylgjandi. Eg vil mæla með styrknum til Sighvats Grímssonar; hann er nú einn af þeim fáu fræðimönnum, sem vér eigum á þá vísu, sem margir voru áður. Hann fékk ofurlítinn styrk á síðasta þingi, og var aðdáanlegt, hvað hann notaði hann vel. Hann dvaldi hér í fyrra í 2 mánuði og notaði á þeim tíma yfir 400 bindi og vann oft miklu lengur en söfn voru opin, jafnvel á helgum. Það ætti því að vera sjálfsagt, að veita honum þennan styrk, aðeins finst mér hann alt of lítill.

Þá vil eg minnast á umsókn Jónasar Jónssonar um styrk til þess að rannsaka ísl. söngfræði. Maðurinn er alþingismönnum góðkunnur og mætavel að sér í þessari grein. Því fé, sem honum væri veitt, mundi því ekki vera á glæ kastað.

Þótt eg vilji sem minst tala um skáldstyrkina, þá get eg ekki látið hjá líða að minnast á, að mér finst ástæðulaust að færa niður fjárveitingarnar til þeirra Þorsteins Erlingssonar og Einars Hjörleifssonar. Þorsteinn er nú að gjöra úr garði merkilegt ljóðasafn og Einar hefir gefið margt út síðan á síðasta þingi, nú síðast skáldsöguna Gull.

Til gamans skal þess getið, að enn eitt þjóðskáldið hefir sent beiðni til þingsins um skáldstyrk, það er Símon Dalaskáld; þingmenn hans hafa látið hjá líða, að bera þá fjárbeiðni fram, og hefi eg ekki viljað grípa fram fyrir hendur þeirra.

Þá er að minnast á botnvörpusektamálið. Að mínu viti er hér um eitt af tvennu að ræða, annaðhvort er mál þetta lögreglumál eða hermál. Hér verður því sú spurning fyrir: Eiga Íslendingar eða Danir land þetta og landhelgi? Háttv. fyrv. ráðherra (B. J.) talaði um skilnað í sambandi við það, að menn vilja fella burt þetta ákvæði úr fjárlögunum; en það finst mér óskynsamlegt tal. Spurningin er þessi: er þetta mál íslenzkt, er landhelgin íslenzk? Ef svo er, þá ber oss að hafa löggæzluna á hendi. En nú líta Danir svo á, sem þeir eigi landhelgina hér og er það gamall skoðunarháttur þeirra. 1875 bar Jón frá Gautlöndum fram fyrirspurn til Hilmars Finsens landshöfðingja út af yfirgangi útlendinga hér við land. Hilmar Finsen svaraði svo, að við ættum að hafa lögsögu yfir landhelginni, en við ættum hana ekki. Eg gat þess í gær, að jafnframt því sem Danir heimta borgun fyrir strandgæzluna þykjast þeir hafa rétt og skyldu til þess að hafa hana á hendi. Þessu til sönnunar vil eg leyfa mér að vísa á orð fyrv. ráðuneytisforseta Neergaards í Fólksþinginu 4. febr. 1910, og lesa má í síðasta Andvara.

Þegar Danir þykjast vera að halda uppi rétti sínum með strandgæzlunni, þá er hart að brígsla oss landvarnarmönnum um, að vér séum að vinna innlimunarverk, þó að vér ekki viljum veita þeim fjárstyrk til slíks. Engan ætti víst að furða á því, þótt vér viljum ekki ausa fé í Dani, til þess að halda uppi rétti þeirra hér við land. Hæstv. ráðh. (Kr. J.) óttast afleiðingarnar, ef þetta ákvæði yrði felt burtu. En hverjar mundu afleiðingarnar verða? Hverjar urðu þær 1909? Aðeins dálítið þref og umtal, en hins vegar tók Neergaard skýrt fram í ræðu þeirri, sem eg mintist áður á, að aldrei hefði komið til mála að synja fjárlögunum staðfestingar af þeim sökum. Sú hótun hefir því aldrei verið annað en fyrirsláttur og grýla. Háttv. þm. Barð. (B. J.) kvaðst raunar hafa gengið að því, að koma þessu máli aftur á framfæri, í þeim tilgangi, að forðast fjárlagasynjan af hendi ríkisráðs. Það er því svo að sjá, sem danska stjórnin hafi látið þetta í veðri vaka, en það hefir eins og eg tók fram verið hótun ein og ekkert alvörumál. Því hefir líka verið haldið fram, að illa færi á að fella þetta ákvæði burt, úr því að vér gengum að því 1905 og 1907, og hafa menn dregið til þess dæmi, að ýms útgjöld í fjárlögunum séu látin standa óhögguð ár frá ári. Það er að vísu satt, en jafnan má á hverju alþingi fella burt hvern þann lið fjárlaganna, sem mönnum sýnist og ekki er öðruvísi ákveðinn með lögum eða fylgir fastri stöðu, og engan þarf að kynja, þótt þingið 1909 samþykti eigi þessa fjárveiting, því að þá höfðu nýjar kosningar farið fram og ný stefna í stjórnmálum var komin til valda. Meðan á þessum umræðum hefir staðið, hefir komið fram tillaga til þingsályktunar frá mér og öðrum þm., sem við ætlumst til að verði samferða fjörlögunum. Hún á að gjöra skýrt, hvort vér eigum landhelgina eða ekki, hvort þetta sé viðurkent sérmál vort eða ekki. Þá fyrst getur komið til mála að leggja fram fé, er við fáum viðurkenning fyrir einkarétti vorum til landhelginnar. En ef landhelgin er talin sameiginleg, þá er strandgæzlan svonefnt alríkismál, og þá ber oss ekki að leggja til hennar. Þessu þurfa menn að glöggva sig vel á, því að þetta er mergurinn málsins. — Eg vík að því aftur, að háttv. fyrv. ráðh. (B. J.) talaði um skilnað í sambandi við þetta; en það er hin mesta fjarstæða, hér er um það eitt að ræða, hvor málsaðilinn eigi þetta mál.

Hér hafa komið fram í dag andmæli frá háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) gegn fjárveitingu til viðskiftaráðunauts. Mér er kunnugt, að margir eru honum samdóma í því máli, en engu að síður er það sannfæring mín, að vér eigum að halda fast við þá fjárveiting. Vér getum ekki og megum ekki láta afskiftalaust, hvað um oss er talað, eða hversu viðskifti vor fara. Í erindisbréfi ráðunautsins var alt það tekið fram, sem okkur reið mest á, og þótt það vitanlega sé takmarkað, sem einn maður fær orkað, þá hefir þó viðskiftaráðunauturinn komið býsna mörgu til leiðar og það þrátt fyrir, að héðan heiman að reis sú alda, sem átti að kaffæra öll hans verk og viðleitni. Sjálfsagt hefðu þó afleiðingamar af starfsemi hans orðið meiri, ef heppilegar hefði verið með málið farið af hendi landsstjórnarinnar og utanríkisráðherranum ekki leyft að skifta sér af því. Það væri því hin mesta fjarstæða, að leggja þessa stöðu niður; ef menn eru óánægðir með Bjarna Jónsson, þá verða menn að útvega betri mann í hana. En hitt tjáir ekki, að hætta við það, sem hér er byrjað.