09.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Sigurður Gunnarsson :

Eg skal leyfa mér að geta þess, að eg á að eins tvær tillögur við fjárlögin í þetta sinn. Þær eru á þgskj. 544 og fara fram á, að í þetta sinn verði látið sér nægja 10 þús. kr. fjárveiting fyrra árið til Borgarfjarðarbrautarinnar, og að 12 þús. kr. verði veittar til brúargerðar á Haffjarðará. Háttv. þm. sjái, að þetta er ekki annað en tilfærsla. Mundu sumir kalla þetta hreppapólitík. En eg skal færa rök fyrir, að svo er ekki, heldur er hér um sanngjarna fjárveitingu að ræða. Vil eg leyfa mér að benda á, hvað lítið hefir verið lagt til vegagerðar frá Borgarnesi til Stykkishólms og eru upphæðirnar þessar: 1905, 4000 kr. fyrra árið og 8000 kr. síðara árið. Við þessar tvær fjárveitingar er það að athuga, að þær voru veittar til vegagerða í Vesturamtinu, og var það því ekki nema nokkur hluti þeirra, sem gekk til vegagerða milli Borgarness og Stykkishólms. 1907, 5000 kr. og 1909, 6000 kr. hvort árið. Þetta er alt og sumt, sem veitt hefir verið. En til samanburðar skal eg geta þess, að til Borgarfjarðarbrautarinnar hefir verið veitt 1905, 8000 kr., 1907, 10,000 kr. og 1909, 30 þús. kr. til brúargerðar á Norðurá. Hér er sanngirni ekki gætt. Einkum þegar maður athugar, að megnið af þessu fé kemur Mýrasýslu til góða en ekki Hnappadalssýslu. Þessi tillaga mín hefir ekki fundið náð fyrir augliti háttv. þm. Mýr. (J. S.), sem naumast var við að búast. En eg kippi mér ekki upp við það. Mér fanst eg ekki geta látið undir höfuð leggjast að bera fram þessa tillögu, og ef þingið gætir sanngirni, þá samþykkir það hana, því örðugra og verra vatnsfall yfirferðar en Haffjarðará getur ekki meðal þeirra vatna, er ekki teljast beint stórvötn. Og það er svo undarlegt með þetta, að þegar komið er að verstu torfærunni, sem til er á veginum, Haffjarðará, að kippa þá hverjum eyri burtu. Þegar fjáraukalögin fyrir árin 1910 og 1911 voru hér til umræðu, bar eg fram tillögu um að veita fé til þess að brúa tvær þverár, sem eru á þjóðveginum norðanfjalls, en það var felt. Deildin ræður auðvitað hvað hún gerir við þetta, en það væri ranglæti gagnvart Hnappadalssýslu, að kippa þessari fjárveitingu burtu. Af fjárveitingunni í ár eru 6000 kr. eftir, og má fyrir þær koma veginum að brúarstæðinu og búa stöplana undir að nokkru leyti, en þá er eftir að smíða brúna og leggja vegarspotta frá henni spölkorn vestur eftir. Eg get tekið undir með háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.), sem benti á, að það væri lagabrot að verja öðru fé til þessa en landssjóðsfé. Það er alls ekki heimilt að taka til hreppavega- eða sýsluvegafjár í því skyni. Landssjóður er skyldur til þess að veita fé til þessa. Og mér er kunnugt um það, að torfærur í Hnappadalssýslu eru mun meiri en í Eyjafirði.

Þá er breyt.til. við 22. gr. um að hækka fé það, sem sýslufélögum er heimilað að fá að láni til þess að leggja síma, úr 10,000 kr. upp í 15,000 kr. Eg sé fram á, að 10,000 kr. er of lítið til þess að fullnægja lánsbeiðnum þeim, sem hér er um að ræða, því fylgi eg fram þessari minni tillögu, og er hún afarsanngjörn, úr því héruðin eru neydd til að kaupa til sín síma fyrir stórfé.

Þá vil eg snúa mér að háttv. þm. S.- Þing. (P. J.). Hann hefir borið fram breytingartillögu á þgskj. 536 við 13. gr. Og eg verð að segja, að það er svipmikil tillaga. Ræða háttv. þm. í gær var áferðarfögur og að formi virtist hún vera sanngjörn og sprottin af áhuga fyrir að bæta hag landsins. Þótt mér sé það ekki ljúft að fara í orðadeilur við h. þm. S. Þing. (P. J.) þá vil eg þó leyfa mér að benda á, að tillagan ber ekki á sér viðfeldinn blæ. Tillagan er í mörgum liðum og fer auðvitað í heild sinni í sparnaðaráttina. En hvernig vill háttv. þm. framkvæma þennan sparnað? Fyrst kemur hann auga á Húnvetninga og ræðst á fjárveitinguna til sýsluvegarins út á Hvammstanga, þegar háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) hyggst vera búinn að sjá fyrir fjárveitingunni til kvennaskólans á Blönduósi. Það er ekki hægt að segja annað, en að þá séu þeir búnir að gera hreint borð í Húnavatnssýslu, en ósanngirnin í þessu er auðsæ. Því næst verður háttv. þm. litið vestur á Bjargtanga. Sér að þar á að kveikja ljós til þess að leiðbeina skipum. Undir eins reynir hann að slökkva þetta ljós með því að leggja til að tillagan um vitabygging þar sé feld. Síðan flýgur hann þvert yfir landið og þar sér hann tanga í kjördæmi þm. S.-Múl., sem vert sé að kveikja ljós á ?: Vattarnesi). Dálítið einkennilegt hvar sparnaðurinn á að koma niður, sem sé í kjördæmum meiri hlutans. Til þess að komast ekki í mótsögn við sjálfan sig, þá tekur hann með sýsluveginn frá Egilsstöðum að Eiðum, sem liggur þó í kjördæmi Sunnmýlinga. Eg var um daginn með þeirri fjárveitingu og mun verða með henni enn. Þegar hér er komið sögunni, verður honum litið vestur í Dali og vestur á Snæfellsnes. Þar sér hann síma, sem hann álítur nauðsynlegt að kippa burtu, þegar þingið ætlar að bæta úr rangindunum, sem þau héruð hafa orðið fyrir, og leggja þangað síma, sem mundi koma því til leiðar, að framleiðslan mundi aukast og verzlun og fiskiútvegur eflast, svo þessi héruð yrðu ekki aftur úr í samkepni við aðra hluta landsins. Nú ber hann það fyrir sig, að hann hafi lagt fram hér í deildinni frumvarp um ritsíma og talsíma. Í 8. gr. frumvarps þessa segir svo:

»Til framkvæmda á byggingum og kaupum síma og talsímakerfa, er 5. og 6. gr. ræðir um, heimilast landsstjórninni að taka nægilega stór lán á ábyrgð landssjóðs, er endurgreiðist á 20 árum eða lengri tíma, þó ekki lengri en 30 árum«.

Eg verð að leiða athygli að því, að þetta frumvarp er mjög seint fram borið, alt of seint. Hefði slíkt fyrirkomulag á símalagningum átt að vera tekið upp þegar í byrjun. Nú vil eg benda á, að engin minsta vissa er, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi, og þó frumvarpið yrði samþykt nú, þá er alls ekki víst, að stjórnin sjái sér fært að taka lánið fyr en eftir mörg ár, svo héruðin yrðu símalaus eftir sem áður. Eg vil alls ekki drótta því að h. þm. með þessu, að hann vilji með þessu frumvarpi grafa talsímalínuna til Stykkishólms, en eg veit hann sér, að hér er teflt á tvær hættur með, að héruðin fái síma á næsta fjárhagstímabili. Sem sagt, hefði þingið 1905 tekið þegar þessa stefnu í símamálinu og tekið stórt lán, sem hefði verið varið eingöngu til þess að leggja síma fyrir og því láni hefði verið haldið aðgreindu frá fjárhag landsins að öðru leyti, þá hefði verið viturlega að verið. En að koma með þetta frumvarp nú, þegar búið er að leggja síma um mikinn hluta lands, og og koma með það svona seint á þingtímanum, það er harla undarlegt.

Sami háttv. þm. sagðist ekki geta unað því, að lán væri tekið til þess að jafna halla á fjárlögunum. Eg man þó, eg hefi lesið í þingtíðindunum, að lán hefir verið tekið, að upphæð ½ miljón kr.; og þetta lán var tilfært, sem tekjur fyrir landssjóð. Og eg man að mörgum þótti það gott og höfðu ekkert við það athuga.

Þá skal eg minnast á breyt.till. á þgskj. 538 um að fella burt hækkun á styrk til búnaðarfélaganna, sem samþykt var hér í deildinni við 2. umræðu. Eg man eftir því, að háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) talaði um, að sér þætti ekki hlýða að hækka styrkinn á kostnað Búnaðarfélags Íslands; við atkvæðagreiðsluna var hann þó með því. Háttv. þm. S.- Þing.

(P. J.) var einnig á móti því, að styrkurinn til búnaðarfélaganna væri hækkaður, af því hann vildi ekki verðlauna menn til þess að gera jarðabætur sem væru sjálfsagðar á eigin jörðum. En því miður eru ekki allir sjálfseignarbændur á Íslandi og styrkurinn hefir komið að mjög góðum notum og er vinsæll meðal bænda. En það er ekki aðallega af því hann sé vinsæll, að eg er með honum, heldur af því hann er bygður á viti og sanngirni. Eg virði Búnaðarfélag Íslands að mörgu leyti, en eg vil taka það fram, úr því eg minnist á það, að það væri viðkunnanlegra að þingið og stjórnin hefðu meira eftirlit með því, hvernig styrknum er varið. Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) gladdi mig með því um daginn, að nú í aprílmánuði ætti að halda námsskeið í mínu kjördæmi. Það mundi gleðja mig, ef hann eða einhver hans jafnoki, sem bændur gætu borið virðingu fyrir, yrði sendur vestur til að halda þetta námsskeið. Mér er ekki kunnugt, hver það á að vera, sem vestur verður sendur, en eg hefi heyrt því fleygt, að maður sá sé enginn skörungur í búnaði, þótt góður drengur sé hann. En eg vil beina því til háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) og annara, sem bera framfarir landbúnaðarins fyrir brjósti, að hann sjái svo um, að það verði maður, sem hafi vit og þekkingu á búnaðarmálum, en verði ekki bundinn af margskonar störfum öðrum, ef til vill málfærslubraski og öðru slíku.

Þá er tillaga um að senda hæfan mann út til að kynna sér markaði á ull og meðferð hennar, til þess að menn fái sem hæst verð fyrir hana. Það hefir verið sýnt fram á, að þessi tillaga kemur ekki í bága við fjárveitinguna til viðskiftaráðunautsins; því hér er um það að ræða, að fá mann, sem hafi sérþekkingu á ull eins og fiskimatsmenn og kjötskoðunarmenn á þeim vörum, er þar eiga í hlut. Tillaga þessi er ekki bundin við nafn og það er ætlast til þess, að maðurinn eftir á, ef stjórninni sýndist það tiltækilegt, ferðist um landið og kenni bændum meðferð ullar. Ef maðurinn, sem til þessa verður ráðinn, er vel fær — og það má gera ráð fyrir hann verði það — þá ætti þetta að geta orðið að miklu gagni. Þegar svo þessi maður hefir ferðast um landið og kent bændum meðferð ullar, þá á stjórnin fyrst að skipa ullarmatsmenn, ef henni sýnist það tiltækilegt eftir þeim upplýsingum, er þá verða fengnar. Hér er mjög varlega og gætilega farið í sakirnar og er það ekki nema rétt. Deildin ætti að hafa það fyrir augum, hvað fiskimatsmennirnir hafa gert mikið gagn og svipað gagn mundi verða að ullarmatsmönnunum. Fjármálapólitík okkar ætti ekki að vera fólgin í því að auka tolla og skatta eingöngu, heldur ættum vér að kosta kapps um, að vér fengjum hærra verð fyrir vörur vorar, en vér nú fáum. Eg vil benda á, að landhagsskýrslurnar segja, að 1908 höfum vér flutt út 1,370,000 pd. af ull. Ef ullarmatið kæmi því til leiðar, að vér fengjum 5 aur. meira fyrir pundið af ullinni, þá mundi sú hækkun nema 68,500 kr. árlega. Ef verðið hækkaði um 10 aur. pundið þá næmi það 137,000 kr. á ári. Hefi ekki getað séð á landshagskýrslunum saltkjötstunnufjöldann, sem fluttur er út af öllu landinu. Eg skal að eins nefna þar sem eg er kunnugastur, í Stykkishólmi, þar flytjast út um 1700 tunnur af kjöti á hverju ári og með 6 kr. verðhækkun á tunnunni mundi það nema um 10 þús. krónum á þeirri einu höfn. Eg er þeirrar skoðunar, að allar tilraunir í þá átt að auka vöruvöndun, sé í rétta átt, og skal eg í þessu sambandi minnast á tillögu háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) um ullarmatsmenn, sem eflaust kæmu að mjög miklum notum, því það er grátlegt að vita til þess hvernig víða hér á landi er farið með ullina. — Þá langaði mig þó til út af þessu, að minnast á þau ummæli háttv. sama þm., er hann sagði, að upphæð sú, sem farið væri fram á í þessu skyni, væri ekki meiri en ein skáldalaun. Þetta er satt, og vil eg þá minna þingmanninn á að það er nákvæmlega sama upphæð, sem einu skáldi sem eg held að þm. S.-Þing. (P. J.) hafi farið fram á skáldlaun fyrir, Jóni Stefánssyni, er ætlað. Þetta skáld hefir samið hinar ágætu dýrasögur, sem hvetja menn svo átakanlega til að fara vel með alidýrin, bæði vegna dýranna sjálfra og í hagnaðarskyni og af mannúð; slíkir menn sem þetta skáld, er býr litlu en laglegu búi í sveit, eru mjög gagnlegir fyrir þjóð sína.