17.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Sigurður Sigurðsson:

Maður hefði getað búist við því, að svona þýðingarmikið mál, sem þetta frumvarp er, mundi vekja athygli hér í deildinni. Þegar um nýja stefnu eða stefnubreytingu í stórmáli er að ræða, þá hefði mátt ætla, að menn mundu taka ákveðinn þátt í umræðunum. En hvað skeður? Við umræðurnar vantar marga þingmenn og þar á meðal einmitt þá, sem vanir eru ella að láta mikið til sín taka hér í deildinni.

Eg hefi komið fram með brtill. á þskj. 270 og 271. Þær miða að því að stíga skrefið alt og láta landið eiga forkaupsrétt að öllum jörðum, sem ganga kaupum og sölum, en sú leið er af mörgum hinum merkustu mönnum talin þjóðunum hollust.

Eg get verið fáorður um þessar brt., þar sem hv. þm. Dal. (B. J.) hefir þegar gert grein fyrir brtill. sínum á þskj. 276, er ganga í alveg sömu átt.

Ef það er meiningin að fyrirbyggja að jarðir komist í einstakra manna hendur og það er talin holl stefna, þá er það í eðli sínu réttast, að heimildin nái ekki einungis til þjóðjarða og kirkjujarða, heldur og til allra jarða, sem ganga kaupum og sölu. Þess vegna kom eg með þessa brtill. á þgskj. 270. Þótt eg sé samþykkur hv. þm. Dal. (B. J.), þá álít eg að mínar brtill. lýsi meiri varfærni og séu aðgengilegri en brtill. hans, og vænti eg því þess, að þær nái samþykki hv. deildar.

Það var sagt við 2. umr. frumv., að heppilegast væri að vísa málinu til stjórnarinnar. Eg tek undir það, að það væri hyggilegast að afgreiða málið ekki nú. Hins vegar álít eg þó rétt að afgreiða málið héðan úr deildinni til. hv. Ed., til þess að hún geti átt kost á því að láta uppi álit sitt um málið.

Í sambandi við þetta vil eg geta þess, að í frv. vantar ákvæði um það, hverir skuli hafa á hendi umsjón þessara jarða, er landssjóður kynni að kaupa. Umsjá kirkjujarða er falin hreppstjórum, og væri það einnig eðlilegast að því er þessar jarðir snertir.

Í öðru lagi er það mikilsvert, að svo sé um búið, að sami leiguliði geti búið til lengdar á sömu jörðinni. Og til þess að tryggja það, teldi eg langæskilegast að samin væri lög um erfðafestuábúð á þeim jörðum, sem eru eign landsins. Eigi felli eg mig þó við það, að það yrði samskonar erfðafesta og á sér stað í kaupstöðum. Mætti þar vafalaust finna aðra leið, sem betur ætti við eftir kringumstæðum í sveitunum.

Þetta er vandamál og stórmál og hlýðir ekki að flaustra því af. Væri því réttast að afgreiða ekki málið sem lög nú að þessu sinni, heldur að efri deild vísi því til stjórnarinnar, sem stendur betur að vígi að undirbúa það heldur en þingið.