14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

65. mál, fátækralög

Halldór Steinsson:

Hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) skoraði á mig að hreinsa læknastéttina af ámælum hv. þm. Vm. (J. M.). Mér finst nú meiri ástæða til að afsaka hana gagnvart ummælum hv. þm. sjálfs. Hv. þm. Vestm (J. M.) sagði að eins að hreppsnefndir færu stundum fulllangt í því að setja sjúklinga upp á landssjóð, en tók svo fram í síðari ræðu sinni, að hann hefði ekki sagt þetta til að ásaka læknana, þó að þeir stundum gæfu mönnum með kroniska sjúkdóma sjúkdómsvottorð. Eg skal játa að þetta kann að hafa komið fyrir, en þó hygg eg, að hitt sé reglan, að læknar gefi að eins þeim vottorð, sem hafa „akist“ sjúkdóma og líkindi eru til að læknist á stuttum tíma, enda er engin hvöt fyrir læknastéttina að baka landssjóði óþarfan kostnað í þessu efni.

Að því er snertir frumvarpið þá finst mér ákvæði 77. gr. í lögunum frá 1905 ekki hafa náð tilgangi sínum. Það hefir eflaust vakað fyrir löggjöfunum sú mannúð að sjúklingar þeir sem eru á sveit, fengju þá hjúkrun, sem nauðsynleg væri, þótt sveitirnar hefðu ekki efni á að standast kostnaðinn af þeim. En greinin hefir ekki náð tilgangi sínum. Það er ekki nema hálft verk að styrkja að eins tvo sjúklinga. Það væri miklu nær sanni að setja eitthvert hámark. t. d. að kosta legu sjúklinga ef þeir yrðu fleiri en 3—4 í hverri sveit, heldur en að hætta þegar þörfin verður meiri. Það er engin hætta að samþykkja frumvarpið eins og það er, því að eftir því sem sjúklingunum fjölgar eftir því aukast byrðar hreppsins, svo að þegar af þeim ástæðum er ómögulegt fyrir sveitirnar að standast kostnað af mörgum sjúklingum í senn, þótt landssjóður tæki þátt í sínum hluta af kostnaðinum.