13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

81. mál, bæjarstjórn í Reykjavík

Flutn.m. (Benedikt Sveinsson):

Það er nú lögum samkvæmt svo háttað kosningu borgarstjóra hér, að hann er kosinn af bæjarstjórn. Hefir þetta þráfaldlega vakið gremju almennings. Á þingmálafundum hér 1910, hinum fjölmennustu, sem haldnir hafa verið hér, var í einu hljóði samþykt að breyta kosningarlögunum á þann hátt, sem farið er fram á í þessu frv. Samkvæmt þeirri ósk var flutt frv., inn á síðasta þing, þess efnis, að allir bæjarbúar, sem kosningarrétt eiga í bæjarstjórn, skyldu mega kjósa borgarstjóra. Nefnd var skipuð í málið, en varð ekki á einu máli; vildu sumir taka frv. til greina, en sumir ekki. Þó varð það að samkomulagi, að bæjarstjórn skyldi til nefna 3 menn og borgarar velja úr þeim. Þetta var hvorki heilt né hálft, enda felt í deildinni. Kom hér og mjög til undirróður sumra bæjarfulltrúanna, er ekki vildu láta draga úr greipum sér þennan rétt.

Þótt frumv. gengi ekki fram síðast, vona eg samt, að þingið nú við nánari athugun taki frumv. til greina og verði við þeirri samróma ósk borgara hér, sem nú munu vera um 3.500, að þeir megi sjálfir ráða sér borgarstjóra. Eg skal benda á það, að þetta mun venja í sumum hinum mestu menningarlöndum, t. d. með brezkum þjóðum í Vesturheimi. (Lárus H. Bjarnason: Og í Hafnarfirði). Það yeit eg ekki, en ef svo er, þá er undarlegt að vér höfum minni rétt en Hafnfirðingar, að minsta kosti ættu þeir, sem vilja láta skoða skip Hafnfirðinga héðan, sízt að vera umhugað að gera oss réttlægri í þessu atriði.

Enn vil eg taka það atriði fram, til meðmæla þessu frv., að borgarstjóri er miklu óháðari bæjarstjórn samkvæmt þessu frv., heldur en þegar hann á það undir bæjarstjórn, hvort hann fær að halda stöðunni eða ekki; ef honum er kappsmál að halda stöðunni má vera, að hann hlíti heldur vilja bæjarstjórnar, segi t. d. eg skal gera þetta eða hitt, ef þú tekur mig. Þar fyrir getur samvinnan samt verið jafn góð. Það er ennfremur ástæða með því, að borgarstjóri sé gersamlega óháður bæjarstjórn, að nú er mjög kvartað yfir því, að í bæjarstjórn séu spekúlantar, kaupmenn og leverandörar, sem viðskifti eiga við bæjarstjórnina. Ef frv. er samþykt, er síður hætt við að borgarstjóri þurfi að vera á valdi þessara manna og geti haft traustara eftirlit.

Frv. er svo ljóst, að eg hygg ekki þörf á nefnd í það. Vona eg að það nái að ganga til 2. umr.